02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég gerði ekki sérstaka grein fyrir þessari till. við 2. umr., heldur gat þess þá, að hún yrði aðeins lögð fram við þá umr. í von um, að hún fengi nánari athugun fyrir 3. umr., eins og nú hefur orðið, þó að ég hins vegar sé ekki ánægður með þá niðurstöðu, sem fyrir liggur frá meiri hl. n., og telji hana að verulegu leyti vera byggða á misskilningi, eins og ég mun koma nánar að.

Eins og þm. mun vera kunnugt, er nú heimild til þess í 33. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga að undanþiggja allar bætur almannatrygginga að meira eða minna leyti útsvarsálagningu. Þessi heimild er að sjálfsögðu veitt með tilliti til þess, að hún sé notuð að minnsta kosti, þegar sveitarfélögin eru fjársterk. Nú hefur sá háttur verið á hafður hjá mörgum sveitarfélögum, sérstaklega í kaupstöðum, eins og hv. síðasti ræðumaður minntist á, að undanþiggja bæði örorku- og slysabætur og ellilaun útsvarsálagningu. Þetta er ákaflega eðlilegt og sjálfsagt, eins og þessar bætur eru til orðnar, að það sé gert, og fyrst þetta er nú nokkurn veginn viðtekin regla í öllum fjölmennustu sveitarfélögum landsins, er ekki nema eðlilegt, að það sé látið gilda um landið allt. Og ég hygg, að menn hljóti að vera sammála um það við nánari íhugun þessa máls.

Ég kem þá að fjölskyldubótunum. Menn kunna að álíta, að það gegni einhverju sérstöku máli um þær, m.a. komi þar til greina sú ástæða, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það muni sérstaklega vera til hags fyrir þá efnameiri, ef fjölskyldubætur séu undanþegnar útsvarsálagningu. Ég hef kynnt mér það lauslega, hvernig þessu muni vera háttað, t.d. hér í bænum. Ég held, að það sé nokkurn veginn óhætt að fullyrða það, að langflestir verkamenn hér í bænum, sem vinna að ráði einhverja eftirvinnu og aukavinnu, komist í það hámark með sínar tekjur, að af toppnum fari 30% í útsvar, og þess vegna gildir það um þá í langsamlega flestum tilfellum, að 30% af þeim fjölskyldubótum, sem þeim eru greiddar, fari í útsvarsgreiðslur. Þetta þýðir m.ö.o. það, að t.d. fjölskyldufaðir, sem hefur þrjú börn á sínu framfæri, verður raunverulega að greiða í útsvar bæturnar, sem hann fær fyrir þriðja barnið. Ef þessi regla næði fram að ganga, sem felst í minni till., þá mundi það í reyndinni þýða það, að útsvar á þessum verkamanni, sem hefur 3 börn á sínu framfæri, mundi lækka um 4 þús. kr., en það munu fjölskyldubæturnar vera nú á barn. Það er þess vegna mjög mikill misskilningur, sem hefur gætt í þeim bréfum, sem hér hafa verið lesin upp, og gætti hjá síðasta ræðumanni, að það að undanþiggja fjölskyldubætur útsvarsálagningu sé aðeins til hags fyrir þá, sem efnameiri eru, því að reyndin er sú núna, að þeir, sem eru efnaminni, og þar með langflestir verkamenn, verða að greiða 30% af fjölskyldubótunum í útsvar. Til viðbótar þessu, að þetta kemur þeim tekjuminni að fullu gagni, kemur það einnig til greina, sem er vert að athuga í þessu sambandi, að hér hefur verið komið á svokallaðri verðstöðvun, og það er ætlazt til þess, að það verði lítið um kauphækkanir á þeim tíma, stjórnarvöldin æskja þess. En til þess að það verði orðið við þeim tilmælum stjórnasvaldanna eða ríkisstj., er ekki óeðlilegt, að það sé í einhverju reynt að koma til móts við almenning og létta af honum álögum til þess að gera honum fært að búa við þetta ástand. Ef svo færi, að það héldist t.d. á þessu ári að verulegu leyti verðstöðvun og launastöðvun, yrði niðurstaðan sú, að kaupið, sem menn fengju á þessu ári, yrði nokkuð svipað og var á síðasta ári, en hins vegar er fyrirsjáanlegt, þrátt fyrir skattvísitöluna, að útsvör — ekki sízt útsvör — og tekjuskattur munu verða verulega hærri í ár í krónutölu en þau voru í fyrra, vegna þess að tekjur ársins 1966, sem nú er lagt á, eru yfirleitt talsvert hærri en tekjur ársins 1965, og þrátt fyrir skattvísitöluna verkar þetta þannig, að útsvör og tekjuskattur á almenningi eða skattþegnum munu yfirleitt hækka í ár, miðað við það, sem var í fyrra, a.m.k. í krónutölu. Hins vegar ef gert er ráð fyrir því, að launin haldist að miklu leyti óbreytt, þá liggur það í augum uppi, að hér verða lagðar raunverulega auknar byrðar á almenning, miðað við það, sem áður var, og því er ekki óeðlilegt, að það sé að einhverju leyti komið til móts við menn í þessum efnum og þá alveg sérstaklega þá, sem hafa mestu fjölskyldubyrðarnar, eins og þeir, sem fá fjölskyldubætur, og það sé þá m.a. gert með því að undanþiggja fjölskyldubæturnar útsvari. En eins og ég sagði áðan, þýðir það fyrirkomulag, sem er núna á þessum málum, að skattleggja fjölskyldubæturnar, það í reynd, að 30% af þeim renna í útsvarsgreiðslur. Ef till. mín yrði samþ., mundi þetta falla niður og þeir, sem fá fjölskyldubæturnar, njóta þeirra alveg fullkomlega. Ég held, að það sé ekki til of mikils ætlazt undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, að þá sé því hætt, að fjölskyldufaðir eða fjölskylda, sem sér fyrir þremur börnum, — þá sé því fyrirkomulagi hætt, að bæturnar með þriðja barninu renni í útsvar, renni til sveitarfélaganna, eins og nú á sér stað.

Það munu einhverjir segja, eins og kom líka fram í þeim bréfum, sem hér voru lesin upp, að tekjustofnar sveitarfélaganna séu ekki of ríflegir. Það má vel vera, að svo sé. Ég vil í því sambandi minna á það, að við framsóknarmenn höfum hvað eftir annað flutt hér á Alþ. till. um það, að þessi málefni sveitarfélaganna, tekjuöflun þeirra, verði tekin til sérstakrar athugunar og athugað um nýja tekjustofna fyrir þau, því að það liggur í augum uppi, að ef þau eiga að halda uppi verulegum rekstri og framkvæmdum, nægja útsvörin ekki ein í þeim efnum, heldur verður að leita eftir nýjum tekjustofnum fyrir þau. Ef það er ekki gert, verður að fara hina leiðina, sem væri þá sú að létta af sveitarfélögunum einhverju af þeim útgjöldum, sem þau standa undir nú. Annars sýnist mér á því frv., sem nú var verið að leggja fram hér í þinginu, að hæstv. ríkisstj. álíti tekjustofna sveitarfélaganna ekki ónóga, því að í því frv. er lagt til að lækka framlag ríkisins til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna um 20 millj. frá síðasta ári. Ég held, að það væri miklu nær að láta sveitarfélögin halda þeim tekjustofni, einmitt þau sveitarfélögin, sem mest þurfa á því að halda, en samþ. hins vegar þá brtt., sem hér liggur fyrir.