02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að hefja hér almennar umr. um tekjustofnamál sveitarfélaga, þó að vissulega mætti margt um þau segja, en vildi aðeins segja nokkur orð í tilefni af þessari brtt., sem hér er flutt af hv. 5. þm. Reykv.

Það eru áreiðanlega ýmis rök, sem mæla með því að undanþiggja bætur almannatrygginga útsvarsálagningu og jafnframt að lækka að einhverju leyti útsvör gjaldenda, sem náð hafa vissum aldri og hafa ekki fulla starfsgetu til vinnu. Þetta sjónarmið er þegar viðurkennt í tekjustofnalögunum. En það, sem er efni málsins hér, er að ganga lengra og að lögbjóða það, að viss hlunnindi skuli veitt í þessu efni. Ég hygg, að mótrökin gegn því komi mjög glöggt fram í þeirri grg., sem var hér flutt af hálfu frsm. n., hv. 3. þm. Sunnl., þannig að ég þurfi ekki að fara um það mörgum orðum, að málið þurfi að athugast allmiklu betur, áður en að því ráði væri horfið að lögfesta það sem skilyrðislausa reglu, að í öllum tilfellum skuli bætur almannatrygginga undanþegnar útsvarsálagningu. Það kunna áreiðanlega að koma upp ýmis sjónarmið um það, að það kunni eitthvað annað ekki siður að þurfa að taka til greina varðandi breyt. á útsvarsálagningu en þetta eitt.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um staðfestingu á brbl., sem fjalla um eitt tiltekið efni útsvarslaganna eða tekjustofnamála sveitarfélaga, en það er, að skattvísitala verði látin gilda varðandi ákvörðun útsvarsstiga á sama hátt og gildir um skattstiga og frádrætti í l. um tekju- og eignarskatt. Mér er fullkomlega ljóst, að það eru mörg önnur atriði, sem þörf væri á að athuga í sambandi við tekjustofnamál sveitarfélaga, bæði tekjukerfi þeirra í heild, hvort því mætti koma fyrir betur með öðrum hætti, og margt annað, sem þar kemur til álita. Ég tel hins vegar mjög óráðlegt að fara í skyndingu, án heildarathugunar á þessu vandamáli, að gera á tekjustofnalögunum neinar sérstakar breyt. á þessu stigi. Þetta mál í heild kemur mjög til athugunar í sambandi við þá rannsókn, sem nú fer fram á, hvort taka skuli hér upp staðgreiðslukerfí skatta, m.a. vegna þess, að það liggur ljóst fyrir, að til þess að það sé auðið, þarf að gera mjög víðtækar breyt. á þeim reglum, sem nú gilda varðandi ekki hvað sízt tekjustofna sveitarfélaga, og m.a. kemur einnig greinilega fram, að það mun verða nauðsynlegt að ákveða, ekki aðeins með heimildum, heldur ákveða með lögum, hvaða frádráttarreglur skuli gilda almennt í sveitarfélögunum, þannig að það kann að vera, að það sjónarmið, þegar það kemur fram, falli nokkuð saman við það, sem hv. flm. brtt, hér hefur í huga, þegar hann vill lögfesta skyldu til að draga frá bætur almannatrygginga. Ég hef áður skýrt frá því, að niðurstöður þessarar n. verði lagðar í einhverju formi fyrir yfirstandandi Alþingi. Það er unnið af kappi að því að ljúka grg. um málið, sem er mjög ýtarleg og yfirgripsmikil. Hvort Alþingi þyki henta að lögfesta staðgreiðslukerfið, skal ég ekkert um spá á þessu stigi, en aðeins taka það fram, að ég tel einmitt með hliðsjón af því, að fram undan hljóta þá að vera víðtækar breytingar og athugun á tekjustofnamálunum, þá væri það mjög óráðlegt að fara að gera á þeim neina grundvallarbreytingu nú, og ég tel það einnig mjög varhugavert í öllum tilfellum, að Alþingi ákveði breyt. á tekjustofnamálum sveitarfélaga, án þess að það sé gert að undangenginni rækilegri athugun og í nánu samráði við samtök sveitarfélaganna.

Ég vildi því leyfa mér að vænta þess, enda þykist ég vita, að það eru ýmsir þm., sem hafa í huga ýmsar breyt. á útsvarslögum án þess að hafa flutt þær hér, að það muni fást fram sá skilningur hér á málinu í heild, að menn setji ekki inn í þetta frv. þær hugmyndir, sem þeir kynnu að hafa um einstakar breyt, á tekjustofnalögum, sem eru, eins og ég áðan sagði, vafalaust margar, sem koma til greina, heldur að menn fallist á þessu stígi á að samþ. frv. eins og það liggur fyrir hér óbreytt varðandi þetta einstaka atriði um skattvísitöluna, en láti þá bíða, þar til málið kemur hér fyrir í einhverju formi til umr. í sambandi við staðgreiðslukerfið, að ræða um þær breyt., sem æskilegt væri að gera á tekjustofnalögunum að öðru leyti.