21.11.1966
Neðri deild: 18. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

2. mál, síldarflutningaskip

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin í maímánuði í sumar í sambandi við ósk, sem ríkisstj. þá barst frá stjórn Síldarverksmiðja ríkisins um að veita aðstoð til kaupa á síldarflutningaskipi. Athuganir verksmiðjustjórnarinnar bentu til þess, að það væri hagkvæmt að kaupa stórt skip til síldarflutninga, fyrst og fremst til verksmiðja fyrirtækisins á Siglufirði, og jafnframt lá fyrir, að verksmiðjurnar yrðu að ráðast í allverulegar endurbætur á löndunartækjum með hliðsjón af allsherjarbreytingu, sem gerð var á mælitækjum allra síldarverksmiðja. Það þótti rétt, þar sem hér var um mikið fyrirtæki að ræða, að veita þá ábyrgð, sem hér er um að ræða, á þann hátt að heimila sjálfskuldarábyrgð á láni, sem annars er, eins og hv. þdm. vita, ekki venja, heldur að ábyrgðin sé almenn, og jafnframt að binda ekki ábyrgðina sérstaklega við ákveðna prósentutölu. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. geti fallizt á, að þetta sé eðlilegt sjónarmið, þar sem hér er um algert ríkisfyrirtæki að ræða, og mátti því að vísu eins hugsa sér það, að ríkisstj. jafnvel hefði tekið umrætt lán sjálf og endurlánað verksmiðjunum.

Þetta skip hefur síðan verið keypt og verið í gangi í sumar og ég hygg, að það hafi skilað allgóðum árangri, enda þótt enn sé ekki séð fyrir um rekstrarafkomu þess að fullu.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þetta frv. Það var einróma samþykkt í hv. Ed., og ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið. Ef hv. n., sem fær það til meðferðar, telur sig þurfa nánari upplýsinga við um skipið og heildarkostnað af þessum framkvæmdum, er það að sjálfsögðu til reiðu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2, umr. og hv. fjhn.