10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

122. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á því í sambandi við þetta frv., að upphaflega var svo til ætlazt, að allar tekjur af viðtækjaverzluninni rynnu til ríkisútvarpsins, og hélzt sú skipan allmörg fyrstu árin. En það gerðist hins vegar um skeið, að fjárhagsafkoma ríkisútvarpsins var sæmilega góð, og þá var horfið að því að svipta ríkisútvarpið þessum tekjum, sem það hafði af viðtækjaverzluninni, og þeim skipt á milli Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Nú er hins vegar sú breyting á orðin hjá ríkisútvarpinu, að í staðinn fyrir, að það var áður rekið með allverulegum tekjuafgangi, hefur það seinustu árin verið rekið með verulegum tekjuhalla. Á árinu 1965 var hallinn á rekstri ríkisútvarpsins nærri 2 millj. kr., og mér skilst, þó uppgjör liggi ekki endanlega fyrir, að á síðasta árí, 1966, hafi hallinn á rekstri ríkisútvarpsins alltaf orðið 5–6 millj. kr. og jafnvel meiri. Þess vegna er nú þannig komið, að mínum dómi, að útvarpið hefur orðið fullkomlega þörf fyrir þær tekjur, sem það hafði áður af viðtækjaverzluninni. Það er ekki aðeins, að það hafi verið rekstrarhalli á útvarpinu þessi 2 ár, heldur er fyrirsjáanlegt, að óbreyttum ástæðum, að verulegur rekstrarhalli muni verða á útvarpinu á þessu ári, nema dagskrá þess verði stórkostlega skorin niður. Þar við bætist, að útvarpið þyrfti, á allra næstu misserum, að ráðast í mjög dýrar framkvæmdir til þess að bæta hlustunarskilyrði úti um land. Hlustunarskilyrði eru nú mjög slæm á mörgum stöðum, eins og t.d. í Skagafirði, í Þingeyjarsýslum, í Skaftafellssýslu og á Vestfjörðum, og útvarpið hefur engar tekjur til að ráðast í þessar framkvæmdir, nema því verði séð fyrir einhverjum nýjum tekjustofnum.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað fara inn á þá braut að hækka afnotagjaldið, þó að kannske væri ekki að öllu leyti óeðlilegt, að það væri heldur hærra en það er nú, en það hefur hins vegar áhrif á dýrtíðarvísitöluna og hana vill ríkisstj. ekki láta hækka, og þess vegna er afnotagjaldinu haldið niðri. Á meðan svo er, er óhjákvæmilegt, að útvarpinu verði séð fyrir einhverjum nýjum tekjustofnum, til þess að það geti haldið uppi fullnægjandi dagskrá, sem þarf helzt að geta batnað, eftir að sjónvarpið kom til sögunnar, það þarf að heyja samkeppni við það, og til þess að geta ráðizt í þær framkvæmdir, sem mjög aðkallandi eru til að bæta hlustunarskilyrði úti um land. Þess vegna mundi ég telja eðlilegt, að þær tekjur, sem skv. þessu frv. eiga að renna til Sinfóníuhljómsveitarinnar, renni til ríkisútvarpsins. Ég hef alltaf talið það óeðlilegt, að Sinfóníuhljómsveitinni væri aflað tekna með þessum hætti, að það sé tekið frá útvarpinu, sem ríkið á raunverulega að greiða til hennar. Þess vegna ætti að breyta 3.gr. þessa frv. á þá leið, að þær tekjur, sem þar er ætlazt til að renni ekki í ríkissjóð, renni í framkvæmdasjóð útvarpsins, eins og upphaflega var gert ráð fyrir um tekjurnar af viðtækjaverzluninni. En ég legg aftur áherzlu á það, að það er mjög mikil nauðsyn á því, að tekjuöflunaraðstaða útvarpsins sé bætt, ef dagskráin á ekki að verða fyrir verulegum skakkaföllum og versna frá því, sem nú er, og ef útvarpið á að geta tryggt sæmileg hlustunarskilyrði um allt land. Mér finnst það ekki boðlegt gagnvart þeim, sem úti á landsbyggðinni búa, eftir að við hér í bænum erum búin að fá okkar sérstaka sjónvarp, að það sé þá ekki sýnd einhver viðleitni til þess að bæta hlustunarskilyrðin, þar sem þau eru enn mjög slæm úti um landið. En það hefur legið fyrir í útvarpsráði eins og ég sagði hér áðan, að á vissum svæðum í Skagafirði eru hlustunarskilyrði mjög léleg, einnig á vissum svæðum í Þingeyjarsýslum og í V.-Skaftafellssýslu. Einnig er kunnugt um, að oft eru miklar truflanir á útvarpssendingum á Vestfjörðum, eða Ísafirði, og þarf að gera ráðstafanir til að bæta úr því.

Ég vildi þess vegna beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að taka það til athugunar, hvort það sé ekki rétt, að þær tekjur, sem sérstaklega er ráðstafað skv. 2. gr., verði látnar renna í framkvæmdasjóð útvarpsins, eins og upphaflega var til ætlazt með tekjurnar af viðtækjaverzluninni, en Sinfóníuhljómsveitinni verði séð fyrir tekjum á annan hátt, því að sannast sagna borgar útvarpið núna sjálft til Sinfóníuhljómsveitarinnar svo stóran hluta, eða í kringum 30% af öllu sínu dagskrárfé, að það er óeðlilegt að þessi tekjustofn sé einnig tekinn af útvarpinu og látinn ganga til hennar. Ríkið verður að afla upp í sinn hluta af kostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar með öðrum hætti en að taka það þannig af útvarpinu.

Ég vildi sem sagt beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi þetta sérstaklega, því það má ekki svo til ganga, að útvarpið sé rekið ár eftir ár með miklum halla og hafi ekki fjármagn til að bæta hin vondu hlustunarskilyrði, sem eru víða úti um landið.