08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

36. mál, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Frsm. meiri hl (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum er eins konar fylgifrv. við það frv, sem n. hafði til umr. rétt áðan. Varðandi þetta frv. gegnir sama máli, að áliti meiri hl. sjútvn., um þær breyt., sem hann hefur leyft sér að flytja till. við frv. um og sem fram koma á sérstöku þskj. nr. 395. En þær eru í aðalatriðum til samræmingar við frv. um bátaábyrgðarfélögin. Í fyrsta lagi er það breyt. á 2. gr. frv., sem felur í sér víðtækari tryggingaheimild. 2. brtt. fjallar um stjórn Samábyrgðarinnar, á hvern hátt hún sé skipuð. Efnislega er ekki þar um aðra breyt. að ræða en þá, að í stað þess að ráðh. skipi form. stjórnarinnar er lagt til, að stjórnin velji sér form. og varaform. Þá kemur næst till. um tryggingaskylduna. Þegar svo stendur á, að skip hefur ekki, vegna ágalla, haft haffærisskírteini í tvö ár samfleytt, sé heimilt að fella niður tryggingu, en þá skal skylt að tilkynna það veðhöfum með minnst 14 daga fyrirvara. Við 12. gr. frv. er um þá breyt. að ræða, að gert er ráð fyrir, að matsmenn Samábyrgðarinnar, þ.e. þeir menn, sem meta skipin til verðs og einnig þau tjón, sem fyrir koma, skuli einnig fylgjast með því, hvort um fúaskemmdir sé að ræða í bátunum. Skal sú framkvæmd fara eftir reglum, sem stjórn Samábyrgðasinnar setur hér um, en hafa skal hún samráð við Skipaskoðun ríkisins að því er varðar reglurnar um fúaskoðunina. Skv. frv. segir í 13. gr. með leyfi forseta:

„Skipaskoðun ríkisins skal einu sinni á ári láta fara fram sérstaka rannsókn á hverju tréskipi til þess að leiða í ljós, hvort um sé að ræða fúaskemmdir þær, sem tryggt er fyrir í l. þessum. Ber að tilkynna Samábyrgðinni, ef vart verður slíkra skemmda.“

Í erindi, sem n. barst frá skipaskoðunarstjóra varðandi þetta atriði frv., bendir hann á, að þetta ákvæði l. hafi aldrei komið til framkvæmda. Segir skipaskoðunarstjóri m.a. svo: „Þessi árlega rannsókn á bráðafúaskemmdum á hverju tréskipi, sem getið er um í l., hefur ekki farið fram“, enda minnist hann þess ekki, að rn. né annar aðili hafi rætt um slíka skoðun við hann né Skipaskoðun ríkisins. Þetta atriði l., sem einnig er í því frv., sem hér liggur fyrir, hefur því ekki verið framkvæmt og telur skipaskoðunarstjóri, að slík árleg skoðun sé starfsliði skipaskoðunarinnar algerlega ofvaxin og auk þess geysikostnaðarsöm fyrir eigendur. Ef slík fúaskoðun, sem hér um ræðir, ætti að fara fram árlega, er talið nauðsynlegt að rífa allverulega af innsúð bátanna og byrðingi þeirra einnig. Þetta væri nauðsynlegt til þess að geta kannað bönd og aðra máttarviði, en jafnhliða því þurfi svo einnig að rífa upp vélar, tæki, vatnsgeyma o.fl. til þess að komast að stöðum til skoðunar. Sé meiningin að halda sig við þessi ákvæði l. og láta þau koma til framkvæmda, telur skipaskoðunarstjóri, að setja þurfi sérstakar reglur um þessa árlegu skoðun. Enn sem komið sé, hafi ekki verið gefin út reglugerð um skoðunina né gjaldskrá fyrir hana: Meiri hl. n. leggur til, að 13. gr. verði efnislega n,ý gr. og kveði hún á um það, hver skuli bera kostnað við fúaskoðun í þeim tilfellum, sem skoðun leiðir það í ljós, að ekki er um fúaskemmdir að ræða. Er þá lagt til, að í þeim tilfellum greiði eigendur og Samábyrgðin kostnaðinn að jöfnu.

Að síðustu er brtt. við 15. gr., en hún felur það í sér, að iðgjaldaprósentan skuli ákveðin árlega af ráðh. í samráði við Samábyrðina og þá ekki tilskilið, eins og nú á sér stað, að lagðar séu til grundvallar þriggja ára tjónagreiðslur. Það er talið heppilegra að hafa þessa ákvörðun ekki meira bundna en fram kemur í till. meiri hl. n.

Ég hef þá lokið við að lýsa þessum till., sem meiri hl. sjútvn. flytur við frv. Ég vænti þess, að hv. þdm. samþykki till. og frv. þannig breytt og því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 3. umr.