14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

151. mál, listamannalaun

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara fáeinum orðum um þetta mál almennt í sambandi við þessa umr. Skömmu fyrir síðustu aldamót byrjaði Alþ. að veita einstaka manni listamannalaun eða skáldalaun, eins og það var þá orðað. Þá var varla um aðrar listgreinar að ræða hér á landi en orðsins list, sem hafði verið þjóðinni öldum saman „ljós í lágu hreysi og langra kvelda jólaeldur“, eins og Matthías kvað. Um þetta leyti voru að opnast augu manna fyrir því, hve hörmulega hafði farið um suma ljóðsnillinga landsins, eins og t.d. Bólu-Hjálmar og Sigurð Breiðfjörð, vegna skorts á „hinum þétta leir“, eins og meistari Jón nefnir fjáraflann. Það er nú svo, að listin á sjaldnast samleið með því, sem í askana verður látið, og örðugt fyrir flesta að þjóna tveim herrum. Þótt við getum að vísu minnzt dæma, sem eru aðdáanleg, manna, sem ekki létu vinnudag, sem var helmingi lengri en nú er talið við hæfi, smækka sig, eins og t.d. Stephan G. Stephansson o.fl. Íslendingar. En listamenn geta verið miklir listamenn, þótt þeir séu ekki ofurmenni eins og Stephan G. Stephansson. Þegar Alþ. tók upp þessa nýbreytni, olli skáldastyrkurinn strax miklum deilum og má þar jafnvel til nefna nöfn eins og Þorstein Erlingsson, að ekki sé nú talað um ýmsa aðra sem miklu minni hylli nutu hjá þjóðinni fyrir list sína.

Síðan þetta var, hafa listamannastyrkir eða listamannalaun verið veitt í einhverju formi fram á þennan dag og jafnan þó valdið miklum ágreiningi og deilum, er hnigið hafa fyrst og fremst að því, hverjir væru verðugir og hverjir óverðugir. Framan af veitti Alþ. sjálft þessi listamannalaun eða skáldastyrki, og urðu oft deilur á þ. og í blöðum út af nöfnum einstakra manna, sem var mjög hvimleitt öllum, sem fyrir urðu. En er stundir liðu fram, var úthlutun þessi fengin þingkjörnum n. Eigi kann ég né hirði að telja upp öll fyrirbæri slíkra n. næstliðna áratugi, en allar hafa þær orðið næsta skammlífar og safnast til feðra sinna eða mæðra saddar lífdaga, að því er ég hygg.

Um eitt skeið var úthlutunin falin listamannasamtökunum sjálfum og þótti gefast ákaflega illa, þ.e.a.s. valda þar misklið mikilli. Eins og ég sagði var í fyrstu einkum ætlazt til að styrkir þessir gengju til skálda og rithöfunda, sbr. heiti á fjárlagalið: Til skálda og rithöfunda. Listamönnum mun síðar hafa verið bætt við. En er fram liðu stundir, komu myndlistarmenn mjög fram á sjónarsviðið hér á landi, og hafa margir gert ágæta vel, tónlistarmenn, leikarar o.fl. listamenn mætti telja. Stækkaði því sá hópur, sem skipting þessa fjár náði til, sem til umráða var hverju sinni. Allar þær n., sem úthlutað hafa listamannalaunum í umboði Alþ., hafa átt við þá erfiðleika að etja að hafa minna fé til umráða en þær hefði kosið. Þegar litið er yfir skrár hinna einstöku listamannasamtaka, kemur í ljós, að fjöldi einstaklinga, er við listsköpun fæst, er undarlega mikill og gleðilega mikill mætti raunar segja. Þar er þó auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. En margir hafa til síns ágætis nokkuð, þótt dómarnir þar um verði að sjálfsögðu alltaf mjög sitt á hvað. Í framkvæmd hefur það því orðið svo, að öllum úthlutunarnefndum hefur þótt ástæða til að veita fleiri einstaklingum einhverja viðurkenningu fyrir það, sem vel hefur þótt gert, en fjárhagurinn hverju sinni leyfði, svo að smærra hefur verið skipt en æskilegt var, einkum í lægri flokka. — Lágar upphæðir hafa þó í mörgum tilvikum orðið ýmsum efnilegum byrjendum til mikillar uppörvunar og gleði, en öðrum oft til mikillar gremju, þeim er sjá sjálfa sig mjög stóra. Fyrir slíkt er auðvitað ómögulegt að girða, að óánægja rísi á eftir hverri úthlutun. Ofan á hefur svo bætzt það, að við hverja úthlutun hafa komið til álita a.m.k. þriðjungi fleiri nöfn en mögulegt hefur verið að sinna vegna fátæktar.

Til þessara róta allra má sjálfsagt rekja með vorkunnsemi sum blaða- og tímaritakrif, sem aðallega eru þannig vaxin, að enginn vildi skrifað hafa, þegar frá liður, öfugt við það, sem sagt var um Lilju Eysteins Ásgrímssonar áður fyrr. Ég drep aðeins á þetta til þess að sýna, upp úr hvaða jarðvegi þetta frv. er sprottið. Hvað eftir annað hafa úthlutunarnefndirnar óskað löggjafar um þetta efni, ef á annað borð á að halda áfram styrkveitingum í svipuðu formi og verið hefur, sem er sannast sagt álitamál, laga, sem gætu verið rammi utan um starfssvið n. og helzt að fundin yrðu einhver ákveðin form að fara eftir, en slíkt er að sjálfsögðu ekki auðvelt, því að listin verður ekki mæld af lengdarkvarða né vigtuð á sauðavogir. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gengur nokkuð í þá átt, sem úthlutunarn. hafa óskað, en samt í allra stytzta lagi. Það, sem tvímælalaust er til bóta í þessu frv., er, að nú skuli kosin n. til 4 ára í staðinn fyrir til 1 áður, og að fækka eigi flokkum í 2, þ.e.a.s. þeim flokkum, sem úthlutunarn. hefur með að gera.

Fyrra ákvæðið tryggir fastara form, sem engin n., kosin til 1 árs, hefur treyst sér til að skapa. Síðara ákvæðið leysir einnig vanda, sem of langt er upp að telja eða útskýra, en hefur þó þann galla, að þeim, sem listalauna njóta, hlýtur að fækka frá því, sem áður hefur verið, miðað við þær tölur, sem talið verður að lægstar megi vera í flokkunum. Þriðja atriðið í þessu frv. er alveg nýtt, að Bandalag ís1. listamanna á nú að útnefna fulltrúa, tvo fyrir hvert bandalagsfélag, til ráðuneytis og tillöguflutnings á fundum úthlutunarnefndarinnar. Ég skal játa, að mér er þetta ákvæði nokkur þyrnir í augum og finnst það í ætt við fyrirkomulag, er gilti, þegar listamannasamtökin úthlutuðu sjálf og gafst ekki vel, eins og ég drap á áðan. En þar sem hæstv. menntmrh. hefur upplýst, að einmitt þetta ákvæði sé sett inn að ósk og vilja bandalagsins, tel ég rétt að gera tilraun með þetta og ef til vill tekst val þessara fulltr. samtakanna svo vel, að þeim takist að leiða hina eiginlegu úthlutunarn. inn á brautir réttlætis, betur en ella.

Menntmn. hefur orðið sammála um, að rétt sé eftir atvikum að mæla með frv. Þó hafa sumir nm. hitt og annað við það að athuga, og er sennilegt, að fyrir því verði gerð grein hér á eftir.

Þess skal að lokum getið, að n. hefur borizt bréf frá einu félagi listamanna, sem nefnist Myndlistafélag og er ekki í Bandalagi ísl. listamanna, og er það félag að vonum óánægt yfir því, að það hafi ekki rétt til að kjósa fulltrúa til skrafs og ráðagerðar við úthlutunarn. Þetta bréf er dags. 4. apr. N. sá sér ekki fært að gera brtt. við frv. til samræmis við óskir Myndlistafélagsins, en var sammála um það, að hún lýsti því yfir sem skoðun sinni, að eðlilegt sé að væntanleg úthlutunarn. bjóði þeim félögum listamanna, sem ekki eru í bandalaginu, að senda fulltr. á fund n. til að gera grein fyrir sínum skoðunum og óskum, áður en úthlutunarn. lýkur störfum hverju sinni.

Í öðru lagi kom það fram við athugun á þessu frv., að þar er ekki fram tekið beinum orðum, að úthlutunarn. skuli vera kosin hlutbundinni kosningu. Ég hef rætt bæði þessi atriði við hæstv. menntmrh., og hann hefur tjáð mér, að það hafi engum annað til hugar komið en að n. yrði kosin hlutbundinni kosningu, og einnig telur hann sjálfsagðan hlut, áð sú úthlutunarn., sem væntanlega verður kosin í lok þessa þings, bjóði Myndlistafélaginu að senda 2 fulltr., ef það óskar þess, eins og önnur listamannafélög, sem eru í Bandalagi ísl. listamanna, hafa rétt til. Ég held, að það sé ekki ástæða til, þar sem þetta kemur fram hér við umr., að gera brtt. við þetta atriði um kosninguna, þar sem yfirleitt gildir sú regla hér í hv. Alþ.,n. sem þessi eru kosnar hlutbundinni kosningu, og þessi yfirlýsing liggur fyrir hjá hæstv. ráðh.

Svo að lokum vil ég geta þess, að hér er fram komin á sérstöku þskj. brtt. frá þeim hv. menntmnm., sem skrifuðu undir frv. með fyrirvara, sem þeir gera sjálfsagt grein fyrir.