27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er nú ekki nóg með það, að þau frv., sem boðuð hafa verið sem fylgifé með gengislækkuninni, tínist hér fram eitt og eitt og Alþ. eigi þess engan kost að gera sér grein fyrir málinu í heild með skoðun á frv. öllum í senn, heldur bætist það ofan á, að það virðist vera alveg útilokað að fá svarað einni einustu spurningu um einstök efnisatriði málsins frá hæstv. ráðh. Ég vil þó freista þess að spyrja hérna um eitt eða tvö atriði.

Ég á sæti í fjhn. þessarar hv. d. og vissulega er það til nytja fyrir nefndarstörfin að fá sitthvað upplýst, sem máli skiptir. Í fyrsta lagi: Hvað er fyrirhugað að gera í sambandi við ákvæðin, sem tekin voru inn í húsnæðismálalánin eftir júní-samkomulagið, ákvæðin um vísitölutryggingu lánanna? Hvað er fyrirhugað að gera í þessu efni? Er það meiningin að láta þau standa áfram, þó að vísitölugreiðslur á laun séu afnumdar eða á að gera þarna á einhverja breytingu? Þetta var hið fyrra.

En hið síðara er varðandi verðlag á landbúnaðarframleiðslunni. Það hafa verið viss tengsl á milli þess og kaupgjaldsins í landinu eins og öllum hv. þm. er kunnugt. Og það væri fróðlegt nú þegar við meðferð þessa máls að fá að vita svona í stórum dráttum, hvað fyrirhugað er í þeim efnum, hvort einhver slík tengsl verða áfram eða hvort meiningin er að afnema þau. Og ef þau verða áfram, á hvern hátt þeim yrði þá fyrir komið. Hér er um tvíþætt atriði að ræða, annars vegar hvað snertir vinnulið í verðlagsgrundvelli, þ.e.a.s. kaupgjald bóndans þá fyrst og fremst, en það er mjög stór liður í grundvellinum og vinnuliðurinn allur er töluvert mikið meira en helmingur af kostnaði við búreksturinn. En þessi liður hefur í grundvelli verið látinn hækka ársfjórðungslega. Hins vegar er það þetta, hvernig verðhækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins eiga að koma inn í verðlagið. Það eru þessi tvö atriði, sem mig fýsir mjög að fá einhverjar upplýsingar um, ef kostur væri.