09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

171. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til l. um stofnfjársjóð fiskiskipa er flutt til að fullnægja einu ákvæði þess samkomulags, sem gert var, þegar fiskverð fyrir yfirstandandi ár var ákveðið í janúarmánuði s.l. Eins og kunnugt er, hækkaði fiskverð á þorski og öðrum bolfiski um 10%. Talið var, að sú verðhækkun gæfi sjómönnum þá tekjuhækkun, sem nægði til þess, að þeir fengju leiðréttingu eða tekjuaukningu til jafns við aðrar starfsgreinar. Það var hins vegar mat Efnahagsstofnunarinnar, að þessi fiskverðshækkun ein út af fyrir sig nægði ekki til að tryggja rekstur vertíðarbátsins. Var því talið óhjákvæmilegt, að ríkissjóður veitti nokkurn viðbótarstyrk til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins. Einn þáttur þeirra framlaga úr ríkissjóði, sem hér um ræðir, er fólginn í þessu frv. um stofnfjársjóð fiskiskipa.

Sjóður þessi, sem ákveðið er að fái 124 millj. kr. úr ríkissjóði á árinu 1968, skal vera sérstök deild við fiskveiðasjóð. Fjárupphæðinni skal skipt milli fiskiskipa eftir aflaverðmæti og í hlutfalli við heildaraflamagn fiskveiðiflotans, og eignast skipin innstæðu í stofnfjársjóðnum í samræmi við það. Eins og fram kemur í 2. gr. frv., er það meginhlutverk stofnfjársjóðsins að veita eigendum fiskiskipa aðstoð til þess að standa straum af stofnfjárkostnaði fiskiskipa sinna og þá fyrst og fremst með því að greiða afborganir og vexti af lánum þeim, sem veitt hafa verið úr fiskveiðasjóði og tryggð eru með veði í skipunum. Eignist skipseigandi hins vegar meiri innstæðu í stofnfjársjóðnum en þarf til þess að gera full skil við fiskveiðasjóð, þá er einnig heimilt að verja inneigninni til greiðslu gjaldfallinna afborgana og vaxta af stofnlánum vegna skipsins eða til greiðslu annarra skulda vegna þess hjá öðrum opinberum sjóðum. Samkv. 9. gr. frv. er enn færð út heimildin fyrir skipseiganda til þess að notfæra sér innstæðu í sjóðnum að fullnægðum þeim greiðslum, sem um getur varðandi stofnlánin. Þá er heimilt að leyfa skipseiganda að nota það, sem þá kann að vera fyrir hendi, til þess að standast kostnað við að skipta um vél í bátnum eða við aðrar verulegar endurbætur á skipinu. Þá er einnig heimilt að verja, þegar þannig stendur á um innstæðu í sjóðnum, upphæðum til kaupa á öðru fiskiskipi eða til greiðslu kostnaðar við meiri háttar framkvæmdir í sjávarútvegi.

Eins og fram kemur í nál., leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hún hefur leyft sér að flytja og fram koma á þskj. 553. Fyrri brtt. kveður á um það, að Fiskifélagi Íslands beri að senda Fiskveiðasjóði Íslands skýrslu um afla og aflaverðmæti allra fiskiskipa ársfjórðungslega í stað þess, sem í frv. segir: „eigi sjaldnar en misserislega.“

Fiskifélag Íslands safnar slíkum skýrslum eigi sjaldnar en mánaðarlega. Þess vegna er ekki talið óeðlilegt, að þessi skýrslugerð fari fram eins og hér er lagt til. Seinni brtt. er í því fólgin, að aftan við 12. gr. komi ný mgr., sem kveður á um það, að þegar svo stendur á, að skip ferst eða verður dæmt ónýtt, hvort heldur sem er af völdum þurrafúa eða af einhverjum öðrum ástæðum, þá skuli innstæða hjá stofnfjársjóði falla til skipseiganda. Um þetta efni eru engin ákvæði í frv. og því taldi n. rétt að flytja þessa brtt.

Ég hef nú í stórum dráttum getið þess helzta, sem máli skiptir varðandi afgreiðslu þessa máls, en ég vil þó að lokum láta það álit mitt í ljósum frv.,að ég tel, að hér sé um mikið og gott málefni að ræða fyrir íslenzkan sjávarútveg, og enda þótt tekjur sjóðsins í framtíðinni séu í dag óráðnar, hygg ég, að með þessu frv. sé lagður grundvöllur að því að tryggja einn veigamesta þáttinn í okkar áhættusama sjávarútvegi.

Herra forseti. Ég vil að svo mæltu leyfa mér að vænta þess, að brtt. n. verði samþ. og frv., þannig breyttu, verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.