06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

13. mál, vörumerki

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar og afgreiðslu og óskað umsagnar allmargra aðila um frv., og flestir aðilar, sem til var leitað, hafa sent umsögn um það, og allir, undantekningarlaust, mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt. Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga, enda kom það fremur seint fram, en það er samið af n., sem skipuð var árið 1958 til að endurskoða löggjöf um vörumerki. Sú n. lauk störfum í okt. 1966 með því að senda frá sér þetta frv. ásamt ítarlegri grg., sem því fylgir. Fyrsta löggjöfin um vörumerki var sett árið 1903 og var sú löggjöf að verulegu leyti þýðing á dönsku vörumerkjalöggjöfinni. Á þessari löggjöf hafa aðeins verið gerðar smávægilegar breytingar tvisvar sinnum, svo að það var mikil þörf fyrir að semja hér nýtt frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, og er allshn. sammála um að mæla með samþykkt þess.