16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar ég hlustaði á síðasta ræðumann, datt mér í hug, „að bragð er að, þá barnið finnur.“ Hann þarf nú að kvarta svona alvarlega undan vinnubrögðum sinnar eigin ríkisstj. En ég er honum sammála um, að það er lítt viðunandi að gera þá kröfu til þm. að samþykkja frv. sem þetta og láta þeim ekki í té frekari upplýsingar en liggja hér fyrir. En ég vil beina orðum mínum engu síður til hv. frsm. minni hl. n., sem sjálfsagt er búinn að fá meiri upplýsingar í þessu máli en við hinir, jafnframt því sem ég beini því til hæstv. fjmrh., sem ég vil spyrja um. Ég geri ráð fyrir, að hv. n. hafi leitað sér upplýsinga um skiptinguna á þessu lánsfé, sem í þessu frv. felst. Ég ætla ekki að gera margt hér að umtalsefni, þó að ég hefði mikla löngun til þess að fá að heyra t.d., hvað á að vinna mikið í raforkumálum á Vestfjörðum á þessu ári fyrir það lánsfé, sem til raforkumálanna er ætlað. Fyrir hve mikið og hvar á að vinna að hafnarframkvæmdum fyrir lánsfé? Það er eins um flugmálin. En það eru allar horfur á því, að við fáum ekkert um þetta að vita, þó að við séum að ræða þetta frv. A.m.k. bólar ekki neitt á slíku enn. Mér dettur í hug svona af tilviljun, að það stendur, held ég, í 11. gr., að til jarðborana á Reykjanesi eigi að fara 3.6 millj. Nú hef ég ekki hugmynd um, hvaða Reykjanes þetta er, sem menn eru að tala þarna um. Ég veit, að það eru til a.m.k. tvö Reykjanes í Vestfjarðakjördæmi og einhver eru þau fleiri annars staðar, ég hef t.d. heyrt talað um Reykjanes í Reykjaneskjörd. Hvaða Reykjanes er þetta, sem hæstv. ríkisstj. er að láta skrásetja þarna? Það er bágt að þurfa að spyrja um svona hluti, en þetta er nú svona.

Um vegina var ég að spyrja um daginn og fékk heldur þokukennd svör hjá hæstv. ráðh., það verð ég að segja. Ég ætla að reyna að spyrja samt aftur.

Það segir svo á bls. 5 í töflu þeirri, sem fylgir þessu frv., að framkvæmdir eigi að nema 79.9 millj., mér skilst framkvæmdir af því lánsfé, sem hér er gert ráð fyrir. Í neðanmálsgrein undir 6. lið stendur: „Vegaframkvæmdir á Vestfjarðaáætlun, 19.7 millj. kr., og skuldagreiðslur þeirra vegna, 2.1 millj., eru taldar hér með.“ 19.7 millj. samkv. Vestfjarðaáætlun á árinu 1968. Á að skilja þetta þannig, að það sé verið að auka þarna alveg stórlega við vegaféð á Vestfjörðum úr flóttamannasjóðnum, er við köllum flestir svo? Eða hvernig eru þessar 19.7 millj. til komnar? Það eru nefnilega ekki nema 8 millj. í núgildandi vegáætlun í sambandi við Vestfjarðaáætlun á þessu ári. En þarna eru 19.7. Ég fagna því og tek því með miklum þökkum, ef þetta er svo, að þarna á ríflega að tvöfalda upphæðina.

En ætli þetta sé svona? Mér þætti mjög vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti svarað þessu. Þetta er frekar einföld spurning. Það fóru aftur á móti á árinu í fyrra um 11.5 millj. af þessum svo kölluðu Vestfjarðalánum til vega. Og það er dálítið einkennilegt, að þetta er hér um bil nákvæmlega sama upphæð, sem þarna vantar á, að fjárveiting vegáætlunar í ár sé 19.7 millj. En ég get þó ekki ímyndað mér, að þannig sé þessu varið.

En ég spyr sem sé að þessu: Fyrst 19.7 millj. af þessari upphæð eru til Vestfjarðavega og það er árið 1968, sem þessi framkvæmdaáætlun gildir fyrir, eru þetta þá ekki rúmlega 11 millj., sem á að bæta við það, sem áður var búið að ákveða? Og ef svo er, til hvaða vega eiga þær millj. að fara?

Ég veit ekki, hvort það er ástæða fyrir mig að spyrja að fleiru, til þess að rugla ekki þetta mál. En þetta er einfalt. Auðvitað langar mig til þess að fá að vita, hvort eitthvað verður breytt þeim lánum, sem búið var að samþykkja á Alþ. í fyrra til vega á Vestfjörðum, eða m. ö. o., hvort þau lán, sem þar standa, falla nú öll niður og þessi komi í staðinn. Eru vegalánin, sem ákveðin voru í vegáætlun í fyrra fyrir árið 1968, öll úr sögunni með þessu frv., en þessi lán komin í staðinn? Og ef þau koma í staðinn, hvernig skiptast þau þá? Ég get gjarnan getið þess, að mér hefur verið tjáð af manni, sem á sæti í fjhn. Ed., sem búin er að fjalla um þetta mál eitthvað, að t.d. einn vegur á Vestfjörðum, sem í vegáætlun er nú með 1.8 millj. kr. á þessu ári, það er Gemlufallsheiði milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar, falli nú niður og eigi að nota fjárhæðina annars staðar. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt athugað eða ekki. En um þetta vil ég t.d. spyrja. Hvernig liggur í þessu? Og er ómögulegt að fá fulla vissu um þetta, hvernig lánin skiptast til hinna einstöku framkvæmda og að hve miklu leyti þau brjóta í bága við ákvæði vegáætlunar, sem er enn í gildi? Mér sýnist, að þetta sé síðasta tækifærið til að spyrja um þétta, og alveg hreinasta tilviljun, að umr. var ekki lokið áðan.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti nú svarað þessu, en ef hann á erfitt með að svara þessu við þessa umr., þá er 3. umr. eftir, en e. t. v. á að hespa hana af í kvöld. Það væri kannske betra fyrir hann að svara þessu þá, því að það er ekki hægt að ætlast til þess, að hann hafi allt fyrir framan sig á borðinu, sem maður kann að spyrja um.