19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst það sæta furðu, að ein ríkisstj. skuli afhenda hlut eða afhenda jörð án þess að vera búin að ganga frá því örugglega áður, hvort um slíkt geti verið að ræða eða ekki. Og því var ekki þessi beiðni um heimild lögð fram strax í haust í frv., um leið og málið var lagt fram á Alþ.? Hvernig stóð á því, að þessu er potað hérna inn á síðustu stundu? Hver var ástæðan? Hvers vegna var ekki búið að afla heimildar löngu áður, því að mér skilst, að jörðin hafi verið afhent í fyrra, án þess að hafi verið orðið samkomulag um eða vitað um, hvort hún fengist eða ekki. Mér finnst það sæta furðu, að ein ríkisstj. og hæstv. fjmrh. skuli gera slíka hluti. Og ég vil enn á ný beina þeim tilmælum til hæstv. forseta d., að þessu máli verði frestað, því að það hefur upplýstst í hvert sinn, sem einhver hefur staðið hér upp og rætt málið, að það er margt óupplýst enn í þessu máli, sem þarf upplýsinga við. Og ég held, að ef ríkisstj. hefði viljað hraða sér í þessum efnum og afla heimildar, hefði hún farið fram á heimild til að afhenda BSRB hluta af Saurbæ þegar í haust, þegar hún lagði frv. fram, en draga það ekki fram á síðustu stundu. Eða hver var ástæðan fyrir því? Mér skilst, að það sé komið þó nokkuð á annað ár síðan búið var að afhenda bandalaginu jörðina með bréfi, eftir því sem fjmrh. hefur upplýst, eða tilkynna bandalaginu, að það gæti fengið þarna jarðarafnot. En hver er þá ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið hafður meiri hraði á en þetta að afla heimildar fyrir þessari afhendingu? Hver er ástæðan fyrir því? Hún hlýtur einhver að vera. Þetta mál er búið að liggja hér í Alþ. í allan vetur og hvernig stóð á, þegar ríkisstj. leggur þetta frv. fram, að hún aflaði ekki þessarar heimildar strax í frv., en potar því inn hér á síðustu stundu? Hver er ástæðan fyrir því? Það væri gott að vita það. Og mér finnst það sæta furðu að fara að afhenda hluta úr jörð án þess að vera búinn að afla heimilda fyrir því áður, hvort hún fengist eða ekki og án þess að vita, hvort samkomulag var um það eða ekki. Þetta er alveg furða og þetta er eitt af þeim mýmörgu dæmum um hegðun þessarar ríkisstj., að hún veit ekkert, hvað hún er að gera.