19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. sjútvn. þá hefur n. ekki orðið fullkomlega sammála um afgreiðslu þessa máls. 2 nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, og er ég annar þeirra og hv. 2. þm. Reykn. hinn. Það er þó ekki hægt að segja, að innan n. hafi verið mikill ágreiningur um efni þessa máls. Þvert á móti mátti segja, að það var allgóð samstaða þar um málið, en það, sem á milli skildi undir lokin, var það, að meiri hl. n., eða þeir sem skrifuðu undir nál. fyrirvaralaust, töldu, að ekki yrði undan því vikizt að afgreiða málið á þessu þ., en við, sem skrifuðum undir nál. með fyrirvara, töldum ekki aðstöðu nú til þess að afgreiða þetta stórmál á þann hátt, sem skylda ber raunverulega til. Það kom hér fram í framsögu af hálfu meiri hl., að raunverulega þá líta þeir svo á, eins og við sem skrifum undir nál. með fyrirvara, að það hafi ekki fengizt eðlilegur tími til þess að skoða þetta mál eins og þó hefði átt að gera. Ég vil benda á það, að hér er um býsna viðamikið mál að ræða. Fiskmat okkar er í allmörgum greinum og býsna viðamikið, og það hefur þótt nauðsynlegt að vinna að endurskoðun á því um langan tíma, og eins og

fram kemur í grg. fyrir þessu frv., var það ákveðið strax árið 1960, að fiskmatsráð skyldi taka að sér að endurskoða I. um fiskmat og eftirlit með fiskafurðum. Sú endurskoðun stóð yfir í nokkur ár, og þegar fiskmatsráð loksins skilaði sínum till. til rn., þá ósammála, þá tókst þannig til hjá sjútvmrn., að þar lágu þessar till. í nærri 2 1/2 ár, áður en þær eru lagðar fram hér á Alþ., og þá þó nokkuð breyttar frá því, sem fiskmatsráð eða meiri hl. þess hafði gert till. um. En þegar málið er loksins lagt fyrir Alþ., þá liggur svo mikið á að afgreiða málið rétt í þinglokin, að það vinnst ekki tími til þess í n. að lesa málið, bera það saman við eldri lög eða skoða það á annan hátt, sem skylda alþm. stendur þó til.

Ed. Alþ. fékk þetta mál fyrst til athugunar, og hafði það nokkurn tíma og gerði á því talsverðar breytingar, eins og fram kemur hér í nál. frá þeirri d., en afgreiðslan þar tókst ekki betur en svo, að sjálft rn. sendir bréf í tilefni af afgreiðslu málsins þar og varaði við því að senda frv. í þeim búningi, á því þurfi enn að gera allmiklar breytingar. Og auk þess komu svo fram eftir afgreiðslu málsins í Ed. umsagnir frá ýmsum aðilum, sem starfa að þessum málum, og mótmæli gegn ýmsum ákvæðum frv., eins og þau voru orðin eftir afgreiðsluna í Ed. Eftir að sjútvn. þessarar d. hafði athugað málið, komst hún brátt að þeirri niðurstöðu, að það væri langæskilegast, að þetta mál fengi að liggja til næsta hausts og væri þá tekið til rækilegrar afgreiðslu. Þetta var álit allra nm., vegna þess að þeir gerðu sér strax grein fyrir því, að hér voru uppi mjög deildar meiningar um mörg ákvæði þessarar löggjafar og að málið væri allt þannig vaxið, að það þyrfti meira en part úr degi eða þá einn eða tvo daga, eins og frekast gat veeið um að ræða vegna starfstíma þingsins í þetta skipti, til þess að hægt væri að ganga frá þessu máli á viðunandi hátt. En þó að þetta væri álit sjútvn., þá fór það nú svo, að frá hæstv. ríkisstj. komu enn á ný tilmæli um það, að frv. yrði afgreitt og því þá borið við, að það yrði ekki hægt að koma fram ráðgerðum sparnaði í fiskmatinu á þessu ári, nema frv. yrði gert að lögum. Og það var þessi endurtekna beiðni frá ríkisstj., sem réð úrslitum um það, að meiri hl. n. taldi rétt, þrátt fyrir allar þessar aðstæður, að afgreiða frv. N. var svo öll sammála um þær brtt., sem talið var óhjákvæmilegt að gera á frv. og fluttar eru hér á sérstöku þskj., 650. Allir nm. voru sammála um það, að rétt væri þó að gera þær breytingar á frv., en það þýðir að sjálfsögðu það, að þetta frv. gengur aftur til Ed., hvernig sem því reiðir af þar á þeim fáu stundum, sem eftir eru af starfstíma þingsins að þessu sinni. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að ýmsir þýðingarmiklir aðilar að þessum málum hafa eindregið lagt það til, að frv. yrði látið liggja. Þannig barst slík umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og frá Samb. ísl. samvinnufélaga, en báðir þessir aðilar töldu rétt, eins og málið liggur fyrir, að það yrði látið bíða og athugað nokkru nánar. Það kom einnig fram í viðtali, sem n. átti við dr. Þórð Þorbjarnarson og Sigurð Haraldsson, sem er annar af aðalforstöðumönnum Ferskfiskeftirlisins, að þeir töldu báðir, að það væri mjög æskilegt, ef hægt væri að láta málið bíða og það fengi nokkuð frekari athugun.

En þrátt fyrir það, að svona væri ástatt, þá sem sagt hefur þetta gengið þannig til, að lagt er til hér af meiri hl. að afgreiða málið, þó að það liggi þannig fyrir, að sjútvn. Nd. hefur ekki haft tíma til þess að lesa frv. og bera það saman við eldri l., og þó að hún sjái á því ýmiss konar annmarka og þó að það sé einnig ljóst, að það sé mjög hæpið, að hægt sé að koma fram nokkrum verulegum sparnaði í sambandi við rekstur Fiskmatsins á þessu ári, þó að frv. verði samþykkt nú á þessu þingi, umfram það, sem hægt væri þá að koma fram með því að lögfesta málið t.d. á næsta hausti.

Ég vík þá að nokkrum efnisatriðum þessa máls en verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma eða aðstöðu til þess að kynna mér málið ýtarlega, en reynt þó að gera mér grein fyrir aðalatriðum þess. Það sem hér er fyrst og fremst um að ræða með þeirri lagabreytingu, sem hér er stefnt að, er það, að gert er ráð fyrir því, að hið svonefnda Ferskfiskeftirlit, sem starfað hefur nokkuð sjálfstætt og hefur haft með höndum sérstakt eftirlit með stærðarflokkun og gæðaflokkun á nýjum fiski, verði lagt niður eða öllu heldur, að verkefni þess verði lagt undir hið almenna Fiskmat ríkisins.

Sé gengið út frá nýlega afgreiddum fjárl., þá er talið, að þetta ferskfiskeftirlit kosti orðið um 9 1/2 millj. kr. á ári, og tekjur hefur Ferskfiskeftirlitið af sérstöku útflutningsgjaldi á sjávarafurðum. En hið almenna fiskmat, Fiskmat ríkisins, kostar aftur á móti skv. fjárl. yfirstandandi árs í kringum 7 1/2 millj. kr. Það er sá hluti reksturskostnaðar hins almenna fiskmats, sem ríkið á að greiða, en auk þessa er svo auðvitað um allmikinn kostnað við fiskmatið að ræða, sem fiskeigendur verða að greiða, þ.e. fyrir störf fiskmatsmanna ýmist í hinu almenna eftirliti, sem á sér stað í frystihúsunum, eða þá í sambandi við útflutningsmatið á saltfiski og skreið og öðrum slíkum útflutningsvörum.

Þá vaknar spurningin: Hvaða möguleikar eru þá fyrir hendi á því að spara útgjöld með því að fela hinu almenna Fiskmati ríkisins þau störf, sem Ferskfiskeftirlitið hefur haft með höndum? Forstöðumenn Ferskfiskeftirlitsins draga það mjög í efa, að hægt verði að spara nokkuð með þessari sameiningu, nema þá að gripið verði til þess að draga úr því eftirliti, sem Ferskfiskeftirlitið hefur með höndum. En hins vegar er það tekið fram af þeim, sem að málunum standa, að til þess sé þó ekki ætlazt. Menn reikni með því, að uppi verði haldið áfram sams konar eftirliti með nýjum fiski, stærðarflokkun hans og gæðaflokkun, sem er undirstaða verðlagningarinnar, bæði gagnvart sjómönnum og bátaútvegsmönnum, eða útvegsmönnum almennt. Það er sem sagt lögð á það áherzla, að haldið verði uppi áfram sams konar starfsemi varðandi ferskfiskeftirlit og verið hefur, en það eigi hins vegar að vinnast af annarri stofnun. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að það séu ekki miklir möguleikar án verulegrar breytingar í vinnubrögðum til að spara mikið fé á því að ætla að leggja yfir á hið almenna Fiskmat ríkisins þau verkefni, sem Ferskfiskeftirlitið hefur haft með höndum, því að ég vil ógjarnan trúa því, að á vegum hins almenna fiskmats hafi verið margir starfsmenn fastráðnir, sem ekki hafa haft nema lítið eitt að gera. En hitt er ég alveg sannfærður um, að það er engin leið að ætla að fela hinum almennu fiskmatsmönnum, sem stunda mat á saltfiski og skreið og taka aðallega kaup sitt hjá fiskeigendum, og fyrst og fremst í formi tímavinnukaups — það er engin leið að ætla að leggja á þessa aðila verkefni Ferskfiskeftirlitsins, án þess þeir fái þá fyrir það fulla greiðslu.

Því fer því alveg fjarri, að það hafi komið hér nægilega skýrt fram í sambandi við þetta mál, hvernig er hugsað að ná fram þeim sparnaði, sem mest er talað um í sambandi við þessa skipulagsbreytingu. Ég vil taka það fram sem mína skoðun, að ég er ekki á móti því, að Ferskfiskeftirlitið og hið almenna Fiskmat verði sameinað, að það verði allt rekið undir einum hatti, mér finnst það á margan hátt eðlilegt og það sé sjálfsagt að reyna það, en ég held hins vegar, að það sé mikil þörf á því að athuga þessi mál miklu betur en gert hefur verið, ef það á að verða líklegt, að það sé hægt að ná einhverjum viðhlítandi árangri til sparnaðar í sambandi við þessa skipulagsbreytingu.

Ég fyrir mitt leyti vil þó taka undir það, að það er mjög lofsvert að reyna að spara í þessum rekstri, og ég vil ekki á neinn hátt setja fótinn fyrir það, að hægt sé að koma þarna fram sparnaði, ef það verður þá ekki á kostnað sjálfs eftirlitsins og fiskmatsins, sem er okkur vissulega mjög þýðingarmikið. En þá verður þetta líka að vera raunverulegur sparnaður, sem kemur til skila. Nú er það svo, eins og ég sagði hér áður, að það hefur verið í lögum ákvæði um það, að greitt hefur verið sérstakt gjald af öllum útfluttum fiskafurðum til þess að standa undir kostnaðinum við ferskfiskeftirlitið. Þetta gjald nemur 11/2 % og er talið, að það muni skila á árinu 1968 í kringum 9 1/2 millj. kr. Ef nú er ætlunin að spara á ferskfiskeftirlitinu með því að fela hinu almenna Fiskmati ríkisins að vinna þessi verk, vil ég líka fella niður þetta gjald, sem útflutningurinn þarf að greiða nú. Ég aðhyllist ekki þann sparnað í sambandi við þessi mál, að það verði gerð sú skipulagsbreyting, að í stað þess að ríkið hefur um áraraðir borgað meginhlutann af kostnaði hins almenna fiskmats, þ.e.a.s. eftirlits með útflutningsafurðum okkar, verði þeim kostnaði velt af ríkinu með ákveðinni skipulagsbreytingu og yfir á fiskeigendur, bæði yfir á sjómenn og útvegsmenn, og þeir látnir með sérstöku gjaldi standa undir þessum kostnaðarliðum, því að í mínum augum hefur það ekki annað að segja en það, að það rýmkast þá um hag ríkissjóðs við þau útgjöld, sem hann hefur haft af hinu almenna fiskmati árum saman og fengið sína tekjustofna áður til að standa undir, en ríkið ætlar svo að losa sig við það að sinna þessu verkefni og koma því raunverulega yfir á bak sjómanna og útvegsmanna í gegnum það gamla gjald, sem áður hafði verið lagt á í sérstöku augnamiði.

Vegna þessa höfum við, tveir af nm. í sjútvn., ég og hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, flutt brtt. við frv. á þskj. 648, um það, að síðari mgr. 19. gr. frv. skuli falla niður, en þessi síðari mgr. felur í sér ákvæði um það, að innheimta skuli af öllum útfluttum sjávarafurðum sérstakt gjald sem nemur 1 1/2 % og er áætlað að nemi í kringum 9—10 millj. kr. Ég vil spara þessi útgjöld, létta þessum álögum af útflutningsframleiðslunni. Verði þessu gjaldi létt af, er það hins vegar verðugt verkefni fyrir ríkið að reyna að sjá um, að kostnaðurinn af hinu almenna fiskmati og ferskfiskeftirlitinu fari ekki stórt yfir það, sem áætlað er í fjárlögum. Þá væri hér um einhvern raunverulegan sparnað að ræða. Annars er hér fyrst og fremst um það að ræða, að það sé verið að létta tilteknum útgjöldum af ríkissjóði og koma kostnaðinum raunverulega yfir á aðra. Þessi aðferð af hálfu þeirra, sem fara með fjármál ríkisins, er að verða býsna algeng.

Fyrir rúmu ári eða svo stóðum við hér frammi fyrir till. um það, að það skyldi létta af ríkissjóði greiðslum í sambandi við rekstur Rafmagnsveitna ríkisins, en á þeim hafði verið nokkur hallarekstur um áraraðir, og ríkið hafði borgað þennan halla og fengið auðvitað tekjustofna til þess, en svo var framkvæmdur sparnaður á þann hátt, að ríkið þurfti ekki að borga hallann, en lagður var á sérstakur rafmagnsskattur og gjaldið fyrir þetta sama innheimt af rafmagnsnotendum öllum í landinu, almenningi í landinu og fyrirtækjum í landinu. Þetta kalla ég fyrir mitt leyti engan sparnað. Þetta skapar aðeins fé í aðra hluti, en þannig hefur þetta verið hér í fjölmörgum tilfellum.

Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí í sumar, en 1. júlí í sumar verða nú sennilega komin á land, miðað við fyrri reynslu, svona 70—80% af þeim nýjum fiskafla, sem fellur undir verksvið Ferskfiskeftirlitsins, og sem sagt til fallinn allur meginkostnaðurinn í sambandi við rekstur Ferskfiskeftirlitsins. Það er því alveg augljóst mál, að þó þetta frv. yrði ekki samþ. nú, heldur í lok okt. eða á haustþinginu, getur hér ekki verið um mikla fjármuni að ræða í sambandi við hugsanlegan sparnað á framkvæmdinni við ferskfiskeftirlitið. Mér sýnist því allt mæla með því, að frv. yrði látið liggja að þessu sinni og efni þess athugað nokkuð nánar, en ekki flaustrað að þessari afgreiðslu nú á þessum síðustu starfsklukkutímum þingsins.

Ég vil einnig benda á það, að sjútvn. hefur lagt hér fram allmargar brtt. við frv., vegna þess að hún telur, að það sé með öllu útilokað að ætla að afgreiða málið í þeim búningi, sem það kom frá Ed. í þessum brtt. er fjallað um allmikilvæg atriði, m.a. lagt til að fella alveg niður 17. gr. frv., en efni hennar var tekið upp í Ed. En þessi 17. gr. frv. fjallar um það, að sjútvmrh. skuli skipa sérstaka 5 manna ráðgjafanefnd, sem starfi við Fiskmat ríkisins og gert er ráð fyrir því, að ýmsir aðilar, sem eiga hér hlut að máli, skuli tilnefna af sinni hálfu menn í þessa ráðgjafanefnd og að hún eigi síðan að fylgjast með rekstri Fiskmats ríkisins og vera tengiliður milli þess annars vegar og sjávarútvegsins hins vegar, eins og segir í þessari 17. gr. Margir aðilar hafa snúizt gegn þessu ákvæði frv. og bent á, að það gæti verið hættulegt. Það mundi verða litið svo á af ýmsum aðilum, og þá ekki síður af aðilum erlendis, að þetta fyrirkomulag benti til þess, að Fiskmatið væri ekki óháð ríkisstofnun, heldur væri það að verulegu leyti í höndum framleiðendanna sjálfra, sem þarna hefðu jafnvel úrskurðarvald um ýmis deilumál, sem upp geta komið um framkvæmd fiskmatsins. Þannig kemur t.d. fram í umsögn frá SÍF, að þeir eru á móti þessari gr., eins fiskmatsmenn ýmsir, sem sent hafa frá sér umsögn, eru þessu ákvæði andvígir, og það kom líka greinilega fram í sjútvn. Nd., að þar voru allir nm. á móti því að hafa þetta ákvæði í l. Brtt. sjútvn. eru einnig um ýmis önnur atriði mikilvæg, eins og t.d. niðurlag 10. gr. eftir afgreiðslu í Ed., en orðalag í þeirri gr. er þannig, að það virðist hafa fremur ill áhrif á ýmsa þá, sem starfa í fiskmatinu og telja, að með því orðalagi sé gert upp á milli fiskmatsmanna, eftir því við hvers konar fiskmat þeir starfa, og ýmsir þeirra telja, að þeir muni verða að athuga það, hvort þeir starfi áfram í þjónustu Fiskmatsins, ef þeir eigi að lúta þar lakari kjörum en aðrir starfsbræður þeirra, sem þó vinna hjá sömu stofnun að hliðstæðum verkefnum.

Þessar breyt. og aðrar, sem hér hefur verið gerð grein fyrir áður, eru það mikilvægar, að þær sýna greinilega, að það hefur ekki farið fram eðlileg eða fullnægjandi athugun á þessu máli í Ed., og um það er ekkert að villast, að sú athugun hefur heldur ekki farið fram hér í Nd. Ég tel fyrir mitt leyti enga ástæðu til þess að verða við þeim kröfum ráðh., fjmrh. og sjútvmrh., að hespa þetta mál af nú. Það er nú t.d. býsna athyglisvert, að hæstv. sjútvmrh. lætur ekki einu sinni sjá sig hér í d., á meðan er verið að ræða þetta mál og hefði nú kannske ekki verið óeðlilegt, að hann hefði fylgzt nokkuð með því, hvaða álit menn hafa á því, sem hér er verið að gera. En þessi vinnubrögð eru að vísu í fullu samræmi við önnur, sem nú gerast æði algeng hér á Alþ., að ráðh. kasta fram málum á síðustu dögum þingsins, jafnvel breyt. á stórum lagabálkum, jafnvel breyt., sem hefur verið unnið að árum saman og mikill ágreiningur er um, og þess er síðan krafizt, að alþm. geri lagabreyt., sem þannig eru undirbyggðar, á örfáum dögum eða eftir nauðalitla athugun.

Sé það eitthvað óþægilegt, sem ekki hefur nú komið fram nein frambærileg skýring á, að þetta mál sé nú látið liggja fram á næsta haust, geta ráðh. kennt sjálfum sér um og engum öðrum. Hvers vegna var t.d. ekki hægt að leggja fram þetta frv., sem þó hafði verið undirbúið og komið í hendur sjútvmrn. fyrir 2 1/2 ári síðan, fyrr en núna rétt í þinglokin? Hvaða ástæður voru til þess að liggja þarna á málinu allan þennan tíma, en krefjast þess svo af alþm., að þeir afgreiði málið hér á einum eða tveimur starfsdögum þingsins? Það er vitanlega ekki hægt að ganga inn á svona vinnubrögð. Vinnubrögð sem þessi leiða auðvitað til þess, eins og því miður er orðið býsna algengt, að samþ. eru hér ákvæði á Alþ. inn í löggjöf, sem ekki fá staðizt með neinu móti, ákvæði, sem jafnvel eru hrein endileysa. En stundum eru hafðar uppi afsakanir eins og þær að það verði nú að samþykkja vitleysuna, jafnvel þó menn sjái hana, vegna þess að það vinnst ekki tími til þess að senda málið til hinnar d. og Ijúka málinu þannig. Þetta nær auðvitað engri átt.

Þar sem hæstv. sjútvmrh. er nú kominn hér í þingið, og það hefði nú kannske átt að gefa mér tilefni til að endurtaka alla ræðu mína (Gripið fram í.) Út af fyrir sig væri það nú hægt, en þá vildi ég þó a.m.k. fara þess á leit við hann, að hann gerði hér grein fyrir því, hvað það er í raun og veru, sem gerir það endilega nauðsynlegt að Ijúka þessu máli á þessu þingi. Ég hef bent á það hér áður, að það er gert ráð fyrir því í frv., að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí í sumar. Þá verða komin á land a.m.k. 70—80% af þeim fiskafla, sem Ferskfiskeftirlitið þarf aðallega að vinna við. Allur meginkostnaðurinn af verkefnum þess verður því þegar áfallinn. Þó að þetta frv. yrði ekki afgr. á þessu þingi, en tekið hins vegar til afgreiðslu í byrjun næsta þings eða í októberbyrjun, væri þó stórum meiri tími þá til að ljúka afgreiðslu málsins t.d. fyrir októbermánaðarlok. Þá getur ekki verið um mikinn kostnað að ræða, sem fellur til á þessu stutta tímabili, sem hægt er þá að sleppa við, nema þá að menn hugsi sér algera breytingu á sjálfu eftirlitinu í sambandi við Ferskfiskeftirlitið. En nú er það beinlínis tekið fram af öllum aðilum hér, m.a. þeim meiri hl. í sjútvn., sem stendur að afgreiðslu þessa máls skv. þrábeiðni ríkisstj., að til þess sé ætlazt, að það verði alls ekki dregið úr Ferskfiskeftirlitinu á neinn hátt frá því, sem verið hefur, að sams konar vinna verði þar innt af höndum og nú hefur verið innt af höndum.

Ég get ekki séð, að ástæða sé til þess að reka þetta mál í gegn, svo lítið unnið eins og það er hér í þinginu, nema þá að fram komi frá hæstv. ráðh. einhverjar frambærilegar skýringar um það, að með því að afgreiða málið nú skapist möguleikar til þess að spara einhver umtalsverð útgjöld. En auðvitað hlýtur hæstv. ráðh. að taka nokkurt tillit til þess, að hans rn. er búið að liggja með þetta frv. í sínum höndum í meir en tvö ár og hefur ekki unnizt tími til að leggja það hér fyrir þingið fyrr en starfstíma þess er að verða lokið.

Ég hef hér bent á það einnig, að sjútvn. Nd. hefur ekki haft tíma til að lesa frv., hún hefur ekki haft tíma til að bera það saman við gildandi lög. Hún hefur orðið að láta sér nægja að krafsa í nokkrar greinar, þar sem alveg augljóslega liggur fyrir, að málið fær ekki staðizt í þeim búningi, sem það hefur nú, þegar það kemur frá Ed. Því er það, að n. hefur flutt hér allmargar brtt. við frv., svo að það verður að fara til Ed. Það er því í rauninni alveg óútséð um það, hvort tekst að afgreiða málið, þrátt fyrir þessa pressu.

En ég vil taka það enn fram í áheyrn hæstv. ráðh., að ég fyrir mitt leyti vil þó reyna að greiða fyrir því, að hægt sé að koma fram sparnaði í fiskmatinu, séu þess einhverjir möguleikar, ég vil vinna að því. En ég held hins vegar, að það verði erfitt að koma fram þeim sparnaði nema breytt sé að verulegu leyti til um vinnubrögð, sérstaklega í sambandi við framkvæmdina alla á ferskfiskeftirlitinu. Ef það á að vinnast eins og það hefur verið unnið í aðalatriðum, þó að önnur stofnun eigi að gera það getur hér ekki orðið um neinn verulegan sparnað að ræða. Það er a.m.k. álit þeirra, sem hafa gegnt forstöðu fyrir Ferskfiskeftirlitinu fram á þennan dag. Og ég álít líka, að það verði að koma hér fram í viðræðum, með hvaða hætti eigi að koma þessum sparnaði við, ef á að vinna að ferskfiskeftirlitinu með sama hætti og gert hefur verið.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi líka veitt því athygli, að mjög þýðingarmiklar stofnanir, sem láta sig auðvitað fiskmat og eftirlit með fiskafurðum skipta, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga og fleiri aðilar, og formaður Ferskfiskeftirlitsins, Sigurður Haraldsson, þessir aðilar hafa allir látið það uppi, að þeir teldu mjög æskilegt, að málið yrði látið bíða og það gæti fengið nokkru frekari athugun. Og það vinnst aldrei vel fram úr vandamálum með því að ætla að setja löggjöf, þar sem flestir þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, eru meira og minna óánægðir með skipulagið og una því kannske mjög takmarkað í framkvæmd. Ég hef sagt hér, að ég hef ekki á móti því, að sú skipulagsbreyting fari fram, sem er eitt meginatriði þessa frv., þ.e.a.s. að ferskfiskeftirlitið verði lagt í rauninni undir hið almenna Fiskmat ríkisins og það verði allt rekið þannig undir einum hatti. Ég tel, að með þessu sé stefnt í rétta átt og það beri að vinna að þessu. Ég er því ekki andvígur þessu meginatriði, sem stefnt er að með þessu frv. En ég tel hins vegar, að þegar á að breyta okkar löggjöf um þetta efni, svo vandasamt sem það er, verði að standa að afgreiðslunni hér á Alþ. með öðrum hætti en gert hefur verið. Það er alveg útilokað að bjóða alþm. upp á það að afgreiða þetta svo að segja athugunarlaust, jafnlangan tíma sem bæði fiskmatsráð hefur haft til athugunar á þessum málum og ekki orðið sammála, og eins rn. sjálft til sinnar athugunar á málinu. Ég held hins vegar að það gætu verið allmiklir möguleikar á því, að takast mætti víðtæk samstaða hér á Alþ. um afgreiðslu þessa máls á næsta hausti og vildi ég þá greiða fyrir henni, en hins vegar væri rétt að láta málið liggja núna. Það held ég að væri miklu eðlilegra.