28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

66. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem komið er frá hv. Nd., var samþ. þar við þrjár umr. í gærkvöldi. Efni þess er einfalt. Eins og komið hefur fram hér á hinu háa Alþ. er það stefna ríkisstj. að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna í því skyni, að sú gengislækkun á krónunni, sem nýlega hefur verið ákveðin, þurfi ekki að rýra hlut launþega meir en óhjákvæmilegt reynist. Fyrir skömmu var af hálfu Alþýðusambands Íslands borin fram sú ósk við ríkisstj., að fulltrúar frá ASÍ hlytu sæti í verðlagsnefnd, þeirri n., sem fer með opinberar verðákvarðanir, í því skyni að geta fylgzt með því og átt hlut að því, að álagningarreglur íþyngdu ekki launþegum, hefðu ekki meiri áhrif til hækkunar á verðlagi en óhjákvæmilegt væri. Að vandlega athuguðu máli taldi ríkisstj. rétt að verða við þessum óskum. En jafnframt þótti þá eðlilegt, að Vinnuveitendasamband Íslands, Verzlunarráð Íslands og Samband íslenzkra samvinnufélaga fengju hliðstæða aðild að verðlagsnefndinni. Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að til ársloka 1968 skuli 9 manna n. fara með opinberar verðlagsákvarðanir. Fjórir í nefndinni skulu tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, tveir af Vinnuveitendasambandinu, einn af Verzlunarráði Íslands og einn af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga. En ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. skal vera níundi maður í n. og formaður hennar eins og hann er nú form. verðlagsnefndar.

Það var talið rétt að hafa þessa skipan tímabundna, fyrst og fremst vegna þess, að ástæðan til þess að breytingin er gerð, er ósk, sem fram hefur komið af hálfu ASÍ um það, að það fái sérstaka aðstöðu til þess að hafa áhrif á það, hver áhrif gengisfellingarinnar verða á verðlag í landinu. Út af fyrir sig kæmi vel til greina að hafa skipun opinberrar verðlagsnefndar til frambúðar þannig, að annars vegar ættu þar fulltrúar neytenda sæti og hins vegar atvinnurekenda og þeirra, sem verzlun og viðskipti annast. En ef skipa ætti þessum málum til frambúðar, þá þyrfti að hugleiða, hvort ekki geti verið um að ræða önnur samtök, sem með eðlilegum hætti gætu talizt eiga aðild að verðlagsnefndinni. Í þetta skipti var óskin fram borin af ASÍ og þess vegna var talið rétt, að fulltrúar neytenda, ef svo mætti segja, væru eingöngu valdir af því.

Í hv. Nd. kom sú brtt. fram af hálfu minni hl. fjhn., að fulltrúar ASÍ skyldu ekki vera nema þrír, en BSRB skyldi fá einn fulltrúa í staðinn. Þetta var fellt með atkv. stjórnarflokkanna, fyrst og fremst vegna þess, að óskir höfðu verið uppi frá ýmsum öðrum launþegasamtökum og neytendasamtökum um það að fá fulltrúa í nefndina, og treystu menn sér ekki til að gera upp á milli óska aðila um þetta efni og halda því fast við upphaflegu hugmyndina, að það væri Alþýðusambandið eitt, sem tilnefndi þarna fulltrúa neytenda, ef ég mætti svo til orða taka. Hins vegar gefur það auga leið, að ef ASÍ óskar eftir því að taka tillit til óska opinberra starfsmanna, óska neytendasamtaka eða annarra launþegasamtaka, sem nefnd hafa verið í þessu sambandi, þá er ASÍ það að sjálfsögðu frjálst. Það ræður alveg vali sinna fjögurra fulltrúa og getur í vali sínu tekið þar tillit til annarra launþegasamtaka eða neytendasamtaka, sem það telur ástæðu til.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., en ég vildi leggja á það áherzlu, að frv. hljóti sem greiðastan gang gegnum þingið, vegna þess að fyrir dyrum stendur að taka mikilvægar ákvarðanir í verðlagsmálum, og fyrst ákvörðun hefur á annað borð verið tekin um það, að fulltrúar ASÍ annars vegar og samtakanna, sem nefnd hafa verið, hins vegar skuli fá sæti í verðlagsnefndinni, þá tel ég rétt, að þessir aðilar taki allar ákvarðanir, sem máli skipta í tengslum við gengisbreytinguna og í framhaldi af henni. Fram til þessa hefur núv. verðlagsnefnd engar „princip“-ákvarðanir tekið, sem neinu máli skipta, heldur aðeins afgreitt það, sem óhjákvæmilegt var að afgreiða, en frá og með morgundeginum má búast við því, að taka þurfi aðrar og stærri ákvarðanir en teknar hafa verið undanfarna daga, og þá tel ég rétt, að hin nýja n. takt þær ákvarðanir, en ekki hin, sem nú starfar.