28.03.1968
Neðri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það situr kannske ekki á mér að vera að taka til máls aftur um þetta, og segja má, að við, sem deilum hér, munum ekki sannfærast af ræðum hvers annars. A. m. k. hef ég ekki sannfærzt af því, sem hv. þm., sem mælt hafa með frv., hafa haft um það að segja. Þeir hafa ekki breytt í neinu skoðun minni á þessu frv. og á þessum málum í heild, sem ég lýsti í ræðu minni hér áðan, sem ég vil nú leyfa mér að halda fram, að hafi verið fullkomlega málefnaleg, þó að hv. 10. þm. Reykv. hafi verið að væna okkur, sem erum hér í andstöðu við hann um málið, um að við gerum það af einhverjum persónulegum ástæðum og óvináttu við þann hv. þm., sem flytur málið með honum. Þetta er auðvitað á hreinum misskilningi byggt, ef ekki verri hvötum, því að slíkt kemur auðvitað ekki til mála. Við höfum enga ástæðu til þess að fara að agnúast þannig persónulega við hv. 9. landsk. þm., þó að hann sé pólitískur andstæðingur okkar. En ég vil minna á það enn, sem var höfuðatriði í ræðu minni, að ég vildi sýna fram á, að í sambandi við húsnæðismál aldraðs fólks eru uppi tvær meginstefnur. Það má vel vera, að sú skipting sé nokkuð gróf, þar séu fleiri, en mér virðist, að þær muni vera fyrst og fremst tvenns konar. Og ég kallaði þetta elliheimilisstefnuna og einkaíbúðastefnuna til þess að gera málið skýrara og skiljanlegra.

Nú kom það fram hér hjá hv. 4. þm. Austf., sem er einn af þeim, sem mælir með frv., að í okkar málflutningi hefðum við lagt á það einhliða áherzlu, að það skyldi byggja yfir aldrað fólk einvörðungu þannig, að það væri einkaíbúðir, sem byggðar væru. Þessu vil ég algerlega mótmæla, það er engin ástæða til þess að lesa það út úr ræðum okkar hér áðan. Við lögðum báðir, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég, á það áherzlu. að það yrði að gera hvort tveggja að byggja elliheimili og einnig að fara þá leið að byggja einkaíbúðir yfir aldrað fólk. Það, sem ég vil leggja áherzlu á, er það, að þetta tvennt sé haft í huga, þessar tvær stefnur séu hafðar í huga og þeim sé báðum gert jafnhátt undir höfði. Og það, sem ég var að benda á, var þetta, að ef þessum lögum verður nú breytt á þann hátt, sem hv. flm. hafa lagt til, er verið að ganga gegn þeirri stefnu, sem hér var upp tekin með l. um byggingarsjóð 1963. Það er í raun og veru að ganga gegn þeirri stefnu og láta hana þoka einhliða til hliðar fyrir því, sem ég hef kallað elliheimilisstefnuna og virðist eiga ákaflega miklu fylgi að fagna meðal þeirra hv. þm., sem annars hafa tekið til máls um þetta hér í hv. þd., þó að ég viti hins vegar ekkert um það, hvort afstaða Alþ. hefur breytzt síðan þetta mál var hér til umr. fyrir 5 árum.

En þetta er engin uppfinning af minni hálfu eða af hálfu hv. 5. þm. Norðurl. e., þetta að leggja nokkra áherzlu á það, að byggðar séu einkaíbúðir yfir aldrað fólk. Mig langar í þessu sambandi að minna á það, að lög um Byggingarsjóð aldraðs fólks eru tilkomin á þann hátt, að árið 1959 var samþ. þáltill. um kosningu sérstakrar n. til þess að rannsaka málefni aldraðs fólks, og þessi n. skilaði síðan áliti eftir nokkur ár. Þar kom m. a. fram þetta sjónarmið, að ekki væri rétt að byggja elliheimili, stór elliheimili einvörðungu, heldur ætti að leggja mikla áherzlu á það að byggja einkaíbúðir fyrir aldrað fólk og gefa fólki kost á því að búa að sínu, svo lengi sem þess væri kostur. Og það er á þetta, sem ég hef viljað leggja mikla áherzlu í þessum umr., fyrst og fremst á þetta. Mig langar í þessu sambandi til þess að vísa hér í nál., sem birtist í þingtíðindum árið 1962–1963. Þar er m. a. í þessu nál. þessarar n., sem ég var að minnast á, kafli, sem fjallar um húsnæðismál. Og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa nokkrar setningar hér úr þessum nál. til þess að benda hv. þdm. á, að ég er ekki að búa hér til neina sérstaka kenningu og er ekki höfundur að henni, né neinn annar hv. þm., sem hér situr, heldur er það nefnd manna úr öllum flokkum, sem hefur markað þessa stefnu og lagt á hana mikla áherzlu, og ég tel ástæðu til, að henni sé haldið fram. Ég vil leyfa mér að lesa m. a., með leyfi hæstv. forseta, úr þessu nál.:

„Þegar fólk er orðið aldurhnigið og líkamsþrek tekið að þverra, þarfnast það þægilegs og notalegs húsnæðis af hæfilegri stærð, sem ekki ofbýður þreki þess. Eigi það kost á slíku húsnæði, getur það lengur séð um sig sjálft heldur en ef það verður að sætta sig við óhaganlegt húsnæði.“ Nú segir hér m. a. svo áfram: „N. leggur til, að flutt verði frv. um byggingasjóð aldraðs fólks með það fyrir augum, að hafizt verði handa um byggingu einstakra íbúða eða íbúðasamstæða fyrir aldrað fólk, en nánari grein er gerð fyrir því í grg. frv.“ Þar er átt við frv., sem n. samdi, en var síðan, að ég hygg, breytt nokkuð í meðförum rn., sem síðan lagði það fyrir Alþ. „Vill n. benda á þá staðreynd, að byggingarkostnaður hverrar smáíbúðar fyrir tvo íbúa mun nú vera álíka mikill og stofnkostnaður fyrir hvert rúm á vistheimili fyrir aldrað fólk. Ætti því tvennt að mæla mjög með byggingu slíkra íbúða: Þær yrðu ódýrari en vistheimili, og þær gerðu þeim, sem óskuðu þess, fært að búa lengur að sínu og lifa ánægjulegri elli.“

Þessar setningar sýna, hvað vakti fyrir nm. þá, og það var einmitt þetta sjónarmið, sem l. um byggingarsjóð, eins og þau nú eru, spegla, og ég tel það lítið þarfaverk að breyta þeim algerlega. Og enn fremur segir n. í áliti sínu:

„Svo sem fram kemur í því, sem fyrr er ritað, telur n. ákjósanlegt, að aldrað fólk, sem þess æskir, geti sem lengst dvalizt á eigin heimilum. Sá hópur hlýtur þó alltaf að verða allstór, sem af ýmsum ástæðum þarfnast hælisvistar.“

Og þetta er vitanlega alveg rétt. Það, sem við þurfum því að gera, er þetta tvennt, við þurfum að hafa það í huga, að það þarf að leysa þessi mál á tvennan hátt, annars vegar með því að byggja elliheimili, og hins vegar með því, sem ég hef kallað einkaíbúðastefnuna, eða þannig að leitazt sé við að byggja einkaíbúðir, litlar íbúðir fyrir aldrað fólk, eða gera fólki á annan hátt kleift að komast yfir slíkar íbúðir, þar sem það getur unað á sínu eigin heimili svo lengi sem kraftar leyfa og skilyrði eru til. Ég vil aðeins víkja að orðum hv. 4. þm. Austf., er stóð hér upp til þess að andmæla því, sem við hv. 5. þm. Norðurl. e. höfðum um þetta mál að segja, og taka undir frv., eins og það liggur fyrir. Hv. 4. þm. Austf. gerði mikið úr erfiðleikum þess að koma upp einkaíbúðum fyrir aldrað fólk og taldi, að það væri e. t. v. framkvæmanlegt í Reykjavík og líklega hvergi annars staðar. Ég er síður en svo viss um, að hann fari hér með rétt mál, vegna þess að það liggur ekkert fyrir um þetta í raun og veru. Það hefur í raun og veru lítið sem ekkert verið gert til að framkvæma þessa stefnu, eins og byggingarsjóðslögin gera ráð fyrir. Mér er t. d. ekki kunnugt um, að á Akureyri hafi neitt sérstakt verið gert af bæjaryfirvaldanna hálfu til þess að hvetja til slíkrar lausnar. Ég veit ekki til þess, og væri þó full ástæða til þess að gera það og þá mundi það sannast, ef eftir því yrði leitað, hvort þessi kenning hv. 4. þm. Austf. er rétt eða ekki. Nei, sannleikurinn er sá, að þeim hefur þótt það þægilegra yfirleitt, sem hafa staðið í þessu, af einhverjum ástæðum að halla sér að því að gera stór elliheimili, þannig að þetta eru að verða gífurlega miklar og stórar stofnanir og allt að því í sumum tilfellum óhugnanlegar stofnanir, því að að því kemur, að séð frá mannlegu sjónarmiði eru þetta mjög óæskilegir bústaðir og óhæft að kakka þarna saman gömlu fólki, sem sumt hvað býr við allgóða heilsu og svo aftur fólki, sem er sjúkt og þarf umönnunar við, en því miður er það víðast svo á þessum elliheimilum, að þessu fólki er öllu blandað meira og minna saman. Það má vera, að það sé fjárhagslega rétt að viðhalda þessu og einblína á þetta, en frá mannlegu sjónarmiði er það ekki.

Það hefur komið hér fram, að æskilegt væri að gera áætlun um þessi mál fram í tímann og gera sér grein fyrir því, hvað þurfi að gera í þessum málum, og vitanlega tek ég alveg undir það. Það er mesta nauðsyn, að það verði gert. Ég tek alveg undir það, sem hér hefur verið sagt, að það er nauðsynlegt að byggja elliheimili, það er nauðsynlegt að byggja slík elliheimili í öllum landsfjórðungum og í mörgum byggðarlögum, og þess vegna er auðvitað full ástæða til þess að slík heildarathugun fari fram og menn geri sér grein fyrir því, hvar slík elliheimili ættu að vera og hversu stór þau ættu að vera o. s. frv. Undir það vil ég taka, en ég vil þó ekki, að menn einblíni á það, að öll þessi mál skuli leyst eftir þessari leið, því að hitt, sem sú n., sem ég minntist á áðan frá 1959, lagði til um þessi efni og lög um byggingarsjóð endurspegla, sú stefna, sem þarna kemur fram, er þess virði, að henni sé fylgt, að svo miklu leyti sem nokkur kostur er og að fullu jafnhliða elliheimilisbyggingunum.

Hv. 4. þm. Austf. hélt því fram, að það mundi verða miklu dýrara að framkvæma þá stefnu, sem ég hef kallað einkaíbúðastefnuna, en ég er ekki viss um, að svo sé, og sú n., sem um þetta fjallaði, taldi hið gagnstæða, það mundi sízt verða dýrara að byggja þannig en stór elliheimili. Mér þykir rétt, að það komi líka hér fram. En sem sagt, ég mæli með þeim till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur flutt við þetta frv. Ég álít, að þær séu til bóta, og ég vil benda á það enn, sem ég sagði fyrr í ræðu minni, að hv. flm. ættu vel að geta unað við till., a. m. k. fyrri till., vegna þess að þar er tekið undir þeirra málflutning um, að dvalarheimilin séu láns- eða styrkhæf úr þessum sjóði, þó svo að einkaíbúðirnar hafi forgang. Á þetta vil ég benda, og ég er sannfærður um það, að hv. flm. átta sig á því, að þetta er réttur skilningur hjá mér, og það er ekki ástæða til þess fyrir þá að ganga þannig gegn þessari till.