17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar Alþ. lýkur nú senn störfum að þessu sinni, þá er bæði rétt og skylt að ræða störf þess í ljósi staðreyndanna, því þar hlýtur að speglast ástand þjóðmálanna gleggst hverju sinni. Ef hliðsjón er höfð af þeim nú ört vaxandi erfiðleikum, sem við hefur verið að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar, verður ekki með nokkrum sanni annað sagt en að störf Alþ. hafi gengið vonum framar, en um afgreiðslu einstakra mála munu að venju birtast fréttir frá skrifstofu Alþ. í sjálf þinglokin. Það er ekki óeðlilegt, að þeir, sem takmarkaða aðstöðu hafa atvinnu sinnar vegna eða af öðrum ástæðum til að fylgjast með gangi almennra þjóðmála, geri þá kröfu til þeirra, er þau ræða eða um þau rita, að þeir segi sannleikann undanbragðalaust.

Á þessu hefur þó því miður viljað vera allmikill misbrestur. Hvaða tilgangi getur það t. d. þjónað að nota öll sín útbreiðslutæki til að sanna þjóðinni, að lítið verðfall hafi átt sér stað á útflutningsafurðum okkar? Og að versnandi aflabrögð séu varla umtalsverð? Þrátt fyrir þær ísköldu staðreyndir, sem hver einasti þjóðfélagsþegn hefur því miður fengið að þreifa á í ýmsu formi, svo sem samdrætti í atvinnu og beinu atvinnuleysi. Óhjákvæmileg afleiðing þessa eru svo mismunandi lækkaðar tekjur allra fjölskyldna og einstaklinga í landinu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir reyna hv. stjórnarandstæðingar að halda því fram í pólitísku ofstæki einu saman, að nánast þurfi enginn að fórna neinu, m. ö. o. að við getum áfram haldið þeirri iðju okkar að skipta gróða, sem fyrirfinnst ekki, og enginn þurfi að taka á sig það tap, sem sannanlega er fyrir hendi. Ofan á þessar blekkingar mega menn svo hlusta á það, að engir séu sannari og betri Íslendingar en þessir sömu menn, og enginn standi betri vörð um allt, sem þjóðlegt er. Hvern er verið að svíkja, þegar slíkum ósannindum er fram haldið? Það skyldi þó ekki vera, að þeir, sem hæst hrópa um svik við þjóðfélagsheildina, séu sjálfir að framkvæma þau svik á milli hinna stóryrtu fullyrðinga um þjóðfélagssvik annarra í ræðu og riti. Hún endurtekur sig stundum sagan af manninum, sem hrópaði: „Grípið þjófinn!“

Á árunum 1963–1965 og allt fram til ársbyrjunar 1966 verður að telja, að mjög hagstæð þróun hafi verið í afurðasölumálum okkar, enda sagði það til sín samstundis í þjóðlífinu öllu. Þrátt fyrir byrjunaráföllin á árinu 1966 stóðu þó allvel rökstuddar vonir til, að um stundarerfiðleika væri að ræða, sem bráðlega mundi úr rætast. Því miður fór þetta á annan veg, sem sannast kemur fram í því, að á árinu 1967 hélt þessi þróun áfram, og reyndist árið erfiðara en nokkurn hafði órað fyrir. Kom þarna einkum þrennt til, sem stærstum búsifjum olli. Í fyrsta lagi miklar verðlækkanir erlendis, í öðru lagi stórlega breyttar fiskigöngur, þannig að framan af síldarvertíð voru það eingöngu stærstu skipin, sem gátu til aflans náð, og í þriðja lagi eindæma erfið veðrátta við sjávarsíðuna, nánast allt árið. Um allt þetta gátu Íslendingar eða íslenzk stjórnvöld engu ráðið. Stjórnarandstæðingar segja hins vegar, að ráðið gegn aðsteðjandi erfiðleikum sé breytt stjórnarstefna. Ætli afurðaverðið erlendis mundi ekki hækka við slíka aðgerð, síldin færast nær landinu og veðrið batna? Hafís mundi náttúrlega forðast landið, ef farið væri eftir ráðum hv. stjórnarandstæðinga? Það sjá allir í gegnum slíkan blekkingarvef. Verði haldið sig við verðlag ársins 1966, þá lækkaði verðmæti útflutningsframleiðslunnar um 30% á árinu 1967. Í þessari lækkun voru veigamestu liðirnir þeir, að síldarlýsi lækkaði um 20%, síldarmjöl um 15% og fryst fiskflök um 16%. Þessum áföllum til viðbótar kom svo lokun skreiðarmarkaðsins í Nígeríu, vegna þeirrar borgarastyrjaldar, er þar geisar og enn verður ekki séð fyrir endann á, með þeim afleiðingum, að nú eru um 6 þús. tonn af skreið liggjandi í landinu óseld, að verðmæti 300 millj. kr., ef miðað er við síðasta söluverð skreiðar til Afríku. Og ekki er öll sagan sögð með þessum staðreyndum. Sjávaraflinn minnkaði árið 1967, miðað við árið á undan, um 344 þús. lestir eða um 28%. Niðurstaðan varð því sú, að á árinu lækkaði útflutningsverðmæti okkar í krónutali um 1700 millj. kr. Þegar hliðsjón er af því höfð, að yfir 90% vöruútflutnings okkar Íslendinga eru sjávarafurðir, þarf ekki langskólagengið fólk til að sjá, að 30% lækkun á framleiðsluverðmæti þessara afurða hlýtur að segja til sín í efnahag landsmanna, hvað og gerzt hefur.

Þær raddir heyrast oft, að hagur vinnslustöðva og veiðiflota hér á landi sé mun lakari en hjá öðrum þjóðum og er þá oftast vitnað til Norðmanna. Án þess að hafa þar um öll nauðsynleg gögn, þá má áreiðanlega telja, við fyrstu sýn a. m. k., að af almannafé sé í Noregi lagt hlutfallslega meira til fiskvinnslu og fiskveiða í ýmsu formi en gert er hér á landi, sem tvímælalaust bætir aðstöðu þessara aðila þar, miðað við hliðstæðan rekstur hér. En þegar menn gera slíkan samanburð og liggja íslenzkum stjórnendum á hálsi fyrir að vera of sparir á almannafé eða opinber framlög í þessu skyni, þá er nauðsynlegt að hafa það jafnframt í huga, að fiskafurðir í heildarútflutningi Norðmanna eru nú aðeins 15% og hafa lækkað á síðustu árum úr 20%. En sambærileg tala hjá okkur er árlega yfir 90% og hefur komizt upp í 95%. Norðmenn eiga því mun hægara með að velta þunganum af opinberum stuðningi sínum við hinn sveiflukennda fiskiðnað yfir á aðrar atvinnugreinar, svo sem timburframleiðslu sína og ýmsa allmjög fjölbreytta stóriðju, sem hér á landi er enn ekki til að dreifa. Þetta er ein meginforsenda þess, að íslenzk stjórnvöld eru nú að leggja grunninn að fjölbreyttara atvinnulífi með stórvirkjunum fallvatna, á meðan reynt er að nýta alla möguleika til að komast yfir ríkjandi erfiðleika í sjávarútvegi og efla hann eftir þeim leiðum, sem skynsamlegastar þykja í ljósi reynslunnar. Íslenzkum sjávarútvegi, eins og þjóðinni allri, er því brýnust nauðsyn á því nú, að allt verði gert, sem í mannlegu valdi stendur, til að auka fjölbreytni íslenzks atvinnulífs. Takist okkur þetta meginverkefni, þá ætti að vera lagður traustasti hornsteinninn að því að koma í veg fyrir, að slíkar stórsveiflur eins og á s. l. einu og hálfu ári á efnahag okkar eigi sér stað.

Þegar ég tala um hér, að verið sé að treysta nauðsynlega fjölbreytni í atvinnuháttum okkar, þá á ég við stórvirkjun þá, sem nú er að unnið við Búrfell og álsamningarnir um Straumsvíkurframkvæmdirnar gerðu mögulega. En þá er einnig rétt að minnast þess, að hv. stjórnarandstæðingar voru þessum ákvörðunum andvígir. Svör þeirra nú eru þau, að þeir hafi samþykkt virkjunina við Búrfell, en verið á móti álsamningunum við Straumsvík. Þetta er sagt í algerri nauðvörn, þar sem öllum landsmönnum er nú ljóst, að hér var rétt að staðið af hálfu ríkisstj. og að álverksmiðjan gerði virkjunina við Búrfell mögulega. Þegar ákvörðunin um álsamningana og virkjunina við Búrfell var tekin á Alþ., sá að vísu enginn fyrir verðfallið á sjávarafurðum okkar og verðfall þess, m. a. samdráttinn í atvinnumálum. En nú geta menn auðveldlega séð, hvert viðbótaráfall það hefði verið, ef þeir, sem í Straumsvík og við Búrfell vinna, hefðu á s. l. hausti bætzt í hóp þeirra, er vinnu skorti.

Á sama tíma og hv. stjórnarandstæðingar gerðu hvað harðasta hríð að ríkisstj. fyrir að veita ekki umbeðið almannafé til þeirra atvinnugreina, sem sannarlega áttu í erfiðleikum, eins og reyndar þjóðarbúið í heild, þá lýstu þeir með hástigs-lýsingarorðum andúð sinni á hvers konar tekjuöflun ríkisins við samþykkt fjárl. á s. l. hausti. Þegar deila verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda hófst svo í byrjun marz s. l., þá var af þeirra hálfu sagt að allt væri þetta sök ríkisstj., vegna þess að hún hafði m. a. ekki við samningu fjárlaga viljað samþykkja útgjaldahækkunartill. stjórnarandstöðunnar til tryggingar hinum ýmsu atvinnugreinum. Það sýndi sig í þessum málflutningi, eins og stundum áður á s. l. árum, að enn þá vantaði sjóðinn, sem allir geta tekið úr, en enginn þarf að láta nokkuð í. Og hvílíkur hvalreki fyrir þessa hv. herra! Stærsta og víðtækasta vinnustöðvun í sögunni hafði átt sér stað, og lausnin að þeirra dómi var enn hin sama. Breytt stjórnarstefna og ný ríkisstj. var lausnarorðið. Þeir kröfðust á Alþ. útvarpsumr. um þá till. sína að leggja auknar byrðar á þær atvinnugreinar, sem þeir sjálfir höfðu í umr. á Alþ. fullyrt að væru í fjárhagsþröng og gætu engum útgjöldum á sig bætt. Forystumenn sjálfra verkalýðssamtakanna voru hins vegar annarrar skoðunar, enda var enginn þeirra í hópi flm. till., en þeir eru þó nokkrir hér á Alþ., þótt enn þá séu þeir allt of fáir. Forystumenn verkalýðssamtakanna voru að löglegum hætti að framkvæma vilja sinna umbjóðenda og töldu sig ekki eiga samleið með neinni pólitískri ævintýramennsku á kostnað þess sama fólks, sem þeir voru kjörnir til að vinna fyrir. Þess vegna leystist þessi alvarlega vinnudeila á giftusamlegan hátt, að því er nú verður bezt séð. Það var því afneitun forystumanna sjálfra verkalýðssamtakanna á pólitískri handleiðslu foringja stjórnarandstöðunnar ásamt tilkomu yfirlýsingar ríkisstj. að þakka, að verkalýðssamtökin komu sem félagsleg heild og ósundruð út úr vinnudeilunni. Þar leysti sameinuð forystusveit verkalýðssamtakanna stærri vanda miðað við aðstæður en hægt er að meta til fullnustu nú, en sagan mun síðar sanna.

Þetta heitir, að forystumenn verkalýðssamtakanna nú sem áður láti sig þjóðarhag nokkru skipta. Það sama verður vart með nokkrum sanni sagt um þá sem teygðu sig eftir höndum þeirra og vildu taka stjórnvölinn úr þeirra höndum, en tókst ekki. Það er mat mitt á niðurstöðu umræddrar vinnudeilu, að brýnust nauðsyn sé nú á því að sætta, a. m. k. um ákveðið tímabil, þau öfl, er að baki standa sjávarútvegi, bæði veiði og vinnslu hans annars vegar og verkalýðssamtakanna hins vegar, og á ég þá bæði við landverkafólk, er að fiskvinnslu vinnur, og sjómennina, er aflann flytja að landi. Í einstökum atriðum tel ég ekki unnt nú að skýra þessar hugmyndir, en sú nauðsyn, sem til þessa ber, ætti þó öllum að vera ljós. Svo mikið á alþjóð undir því, að á þessum vinnumarkaði verði tryggður sem mestur vinnufriður. Hver mundu örlög annarra starfsgreina, ef í sjávarútvegi yrði langvarandi stöðvun? Hefur ekki undangengið verðfall þessara afurða erlendis fært okkur heim sanninn um, hvað þá mundi gerast? Ég ætla mér ekki þá dul að meta, hverra störf séu mikilvægust í þjóðfélaginu, til þess er sú samstarfskeðja of margslungin. Hitt getur enga greint á um, að enn um langa framtíð mun efnahagsleg afkoma þjóðarinnar byggjast á veiði og vinnslu sjávarafurða, þótt unnið sé nú að því að lina nokkuð þá einhæfni, sem of lengi hefur varað í atvinnuháttum okkar. Þótt við höfum áður mætt og yfirstigið hliðstæða örðugleika og nú er við að etja, eins og á árunum eftir 1930, þá erum við í raun og sannleika þeim ávallt jafnóviðbúnir.

Fyrstu skrefin í þá átt að ná meiri ró í þessari starfsgrein tel ég vera að eyða þeirri tortryggni, sem þar hefur of lengi ríkt, og þá m. a. um að afkoma veiðiflotans sé ekki miðuð við aflaminnstu skipin, og sömuleiðis að hráefnaminnstu vinnslustöðvarnar í landi séu ekki viðmiðun um afkomu þeirra allra. En þessi hugsun er enn í of margra huga, og því er þörf að eyða slíkum efasemdum. Með því ætti að opnast leið til frekari aðgerða um raunhæft samstarf aðila í stað baráttu, sem er ef til vill að of miklu leyti byggð á óþarfa tortryggni, baráttu, sem þjóðarheildin þolir efnahagslega verst af öllu, næst á eftir þeim erlendu verðsveiflum á þessum afurðum, en í þeim efnum munum við seint verða spurðir ráða. Okkar skyldur eru þær að gera það, sem í okkar valdi stendur til að leysa þann hluta vandans, sem á herðum okkar hvílir, og við höfum umráð yfir.

Stöðug og hæfileg endurnýjun hinna ýmsu stærða veiðiflotans er okkur lífsnauðsyn. Smíði fiskiskipa hlýtur þó ávallt að stórum hluta að byggjast á eftirspurn útgerðarmanna og skipstjóra, ásamt hugsanlegum og nauðsynlegum rekstrargrundvelli skipa. Þessir aðilar verða þó ekki skyldaðir til að gera út skip, sem þeir vilja ekki, og telja að ekki geti borið sig. Útgerð á slíkum skipum getur því vart átt sér stað, nema ríki og bæjarfélög standi þar að viðbúin að mæta tímabundnum eða hugsanlegum taprekstri með framlögum af almannafé.

Þrátt fyrir miklar hrakspár um bæjarútgerð á sínum tíma, hefur útgerð ýmissa bæjarfélaga, m. a. á togurum, haft ómetanlega þýðingu fyrir atvinnulíf þeirra staða, þótt sannanlegur taprekstur hafi orðið á skipunum sjálfum undanfarin ár og þrátt fyrir tilkomu allverulegrar opinberrar aðstoðar. Á sama hátt ber að meta að verðleikum þrautseigju þeirra einstaklinga, sem þrátt fyrir verulega skerta rekstrarmöguleika hafa haldið þessari nauðsynlegu útgerðargrein við. Þegar menn í dag telja eftir þá fjárhagsaðstoð, sem ríkið veitir íslenzkri togaraútgerð, þá skyldu menn minnast þess, að ekki er langur tími liðinn síðan togarar voru aðaluppistaða útgerðar hér á landi, og enn geta tímar breytzt. Togararnir voru einnig um áratugaskeið skólaskip íslenzkra sjómanna, og strax og nú herðir að á vinnumarkaðnum er á ný horft vonaraugum til togaranna.

Á stöðuga og jafna endurnýjun í hinum ýmsu greinum veiðiflotans hefur nokkuð skort og þar viljað verða nokkrar sveiflur, sem svo á sínar skýringar í efnalegum möguleikum þjóðarinnar hverju sinni. Þannig höfum við tvímælalaust misst af ýmsum nýjungum, sem ávallt eru að koma fram með hinum ýmsu skipategundum og veiðiaðferðum. Togaranefndin, sem nú vinnur að tillögugerð um endurnýjun þeirrar greinar flotans, hefur þegar látið vinna úr mikilvægum atriðum til stuðnings tillögugerð sinni, og er þess að vænta, að ekki líði langur tími, þar til álit n. liggur fyrir og hægt er að bjóða smíði skipanna út. Sérstök n. vinnur að undirbúningi að till. um stöðlunarsmíði fiskibáta, en hefur skilað bráðabirgðaáliti og vinnur nú að fullnaðartill. sínum.

Ég minntist hér að framan á þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. gaf út við lok vinnudeilunnar í marz s. l. Í umræddri yfirlýsingu var, svo sem kunnugt er, lýst vilja til að vinna að úrbótum á ýmsum þáttum atvinnu- og félagsmála, sem brýnust eru talin. Um endanlega framkvæmd hinna einstöku liða yfirlýsingarinnar er allt of snemmt að spá nokkru um, þar sem n. sú, er verkefnin voru falin, hefur aðeins haldið sína fyrstu þrjá fundi, og er því rétt að hefja sín störf. Engum vafa er það þó undirorpið, að n. er mikill vandi á höndum, en jafnframt, að mikla nauðsyn ber til, að vel takist til með úrlausn þessa verkefnis. Með yfirlýsingunni og síðan skipun samstarfsnefndarinnar hafa skapazt þau tækifæri, sem nota verður til hins ýtrasta. Náið og heils hugar samstarf ríkisvalds og samtaka vinnumarkaðarins um úrlausnir á þeim vandamálum, þar sem spilin eru lögð á borðið, er æskilegasta leiðin til þess að koma í veg fyrir þau átök, sem á annað borð er með mannlegu valdi hægt að afstýra. Ríkisstj. hefur á undanförnum árum sýnt vilja sinn til að feta þessa leið, og vitna þar e. t. v. gleggst um ýmsar þær úrbætur, sem átt hafa sér stað í húsnæðismálum og aukinni fjáröflun til þeirra. Enn er þó fjár vant til þeirra hluta, og munu þau mál sérstaklega tekin fyrir í fyrrgreindri n. samkv. fyrrnefndri yfirlýsingu ríkisstj. Veigamestu verkefni atvinnumálanefndarinnar eru þó tvímælalaust sjálf atvinnumálin og nýting vinnuaflsins. Af hinum ýmsu ríkisstj., sem setið hafa við völd undanfarna áratugi, hefur með margvíslegum hætti verið reynt að ná því samstarfi, sem hér hefur verið rætt um. Margt hefur vel tekizt til um, annað miður, og e. t. v. getur sú reynsla kennt okkur nokkuð til verka. Alþfl. hefur ótrauður bent á þessa leið, að þessi leið samstarfs yrði til þrautar reynd, þrátt fyrir ýmis vonbrigði og mistök frá fyrri tímum. Flokkurinn er enn þeirrar sömu skoðunar og treystir því enn, að aðilar leggi sig alla fram um, að sem bezt megi til takast. Það á enginn einn aðili sérstakra hagsmuna hér að gæta. Öll þjóðin er þar í einum báti. Við ætlum okkur öll að lifa á Íslandi. Þess vegna verðum við að koma okkur saman um nýtingu þeirra auðæfa, er landið hefur að bjóða. — Góða nótt.