26.03.1968
Neðri deild: 83. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. taldi mig hafa komið hér fram sem beinan málsvara bandarískra stjórnvalda, en ekki vegna okkar eigin þarfa. Ég vil í því sambandi minna á, að nú fyrir nokkrum dögum var hér til umr., hvort varnarliðið væri þess megnugt að verja okkur, ef til átaka kæmi, og var það dregið mjög í vafa af þessum hv. þm., sem hér hafa talað. Til þess að þær séu færar um þetta eða þeir, varnarliðsmenn hér, hef ég haldið, að þessi þáttur varnanna, sem þessar þotur eiga að gegna, þyrfti að vera í fullkomnu lagi, og til þess að geta verið það, þurfa þær að æfa sig og vera tilbúnar með augnabliks fyrirvara til þess að fara á loft. Þetta er gert daglega að ég ætla, og allt gert sem í þeirra valdi stendur, til þess að þessir hlutir séu í sem beztu lagi. Ég held þess vegna, að þetta flug þessara bandarísku þota sé nauðsynlegt, til þess að þeir geti stundað það verkefni, sem þeim er falið að inna af hendi.

Hv. þm. spurði síðan, hvort íslenzk flugmálastjórn hefði eftirlit með þessu flugi. Því er til að svara, að íslenzk flugmálastjórn hefur eingöngu eftirlit og tekur aðeins til þess flugs, sem er borgaralegt flug, en ekki til herflugsins, og hefur aldrei komið til mála, að þeir hefðu það. Þá spurði hann, hvort þetta flug væri í samræmi við reglur, og það hygg ég, að það sé. Þá spurði hann enn í þriðja lagi, hvort það hefði verið athugað, af hverju slysið hefði stafað. Það er í athugun, og við búumst við að fá skýrslu um það, þegar þetta hefur verið athugað af þeirra mönnum. Ég geri ekki ráð fyrir því, að Íslendingar verði þar, en hins vegar verði þar þeir menn, sem að þessu flugi standa.