16.01.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

Atvinnuleysi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Á þeim tíma, sem liðinn er, síðan alþm. fóru í jólaleyfi, hafa verið að berast mjög uggvænlegar fréttir af atvinnuleysi í mörgum byggðarlögum landsins. Það er ljóst, að það atvinnuleysi, sem þar hefur verið skýrt frá, hefur ekki aðeins verið núna nokkrar síðustu vikurnar. Það hefur verið að grafa um sig a. m. k. síðustu mánuðina í mörgum byggðarlögum landsins, og er nú orðið það mikið, að alvarlegt verður að teljast. Það er ljóst á því, sem þegar hefur fram komið, að nákvæmar fréttir liggja ekki fyrir um það, hvað atvinnuleysið er í rauninni víðtækt og mikið. Atvinnuleysisskráning er rétt nýlega byrjuð á ýmsum stöðum og stendur þar yfir. Í jafnmörgum byggðarlögum er skráningin enn ekki hafin, en vitað er þó um það, að þar er atvinnuástandið sízt betra. Það leikur því enginn vafi á því, að þegar er orðið um allverulegt og mjög alvarlegt atvinnuleysi að ræða í þorpum og kaupstöðum landsins. Þetta atvinnuleysi, sem nú gerir vart við sig, kemur auðvitað þeim mun verr við fólk, sem fyrir því verður, þegar þess er gætt, að mikið af þessu fólki hefur þegar orðið fyrir miklu tekjulegu áfalli á s. l. ári. Tekjurnar hafa alveg óumdeilanlega hjá mörgum þessum aðilum stórminnkað. Mest hafa tekjurnar auðvitað minnkað hjá mörgum sjómönnum, en einnig hjá því verkafólki, sem vinnur aðallega að störfum, sem tengd eru útgerðarrekstri í landi. En einnig er þarna um að ræða stórminnkandi atvinnutekjur hjá svo að segja öllum þeim, sem vinna í einhverjum þeim fyrirtækjum eða stofnunum, sem þjóna okkar framleiðslulífi að einhverju leyti. Það er ljóst, að það er ekki hægt að tengja þetta atvinnuleysi, sem nú hefur komið hér fram, við það, að nokkuð hefur dregizt, að bátar færu á vetrarvertíð. Ég hygg, að í þeim upplýsingum, sem þegar hafa fram komið, sé lítið um það, að sjómenn, sem hugsa sér að stunda vetrarvertíð, hafi látið skrá sig eða þeir, sem nánast standa að þeim störfum. Atvinnuleysið hefur greinilega komið fram í fjölda mörgum atvinnugreinum, sem verða að teljast nokkuð langt frá okkar aðalframleiðslustörfum einnig. Hér er um mjög alvarlegan samdrátt að ræða, samkrepping að ræða, og ég ætla ekki hér við þetta tækifæri að gera sérstaka grein fyrir því, hvaða ástæðu ég tel liggja til þess, að svona er komið. En ég minnist þess, að sérstaklega hæstv. forsrh. hefur hér á Alþ. æði oft látið falla mjög ákveðin ummæli um það, þegar atvinnumál og efnahagsmál hafa verið rædd, að atvinnuleysi yrði alls ekki þolað, að það yrðu gerðar ráðstafanir til þess að bægja slíku böli frá vinnandi fólki í landinu, hvað svo sem það kynni að kosta. Ég efast ekkert um það, að allir hv. alþm. og ríkisstj. hafa hugleitt þessi mál og sjá, að hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að það leysist ekki, þó að bátar hefji nú útgerð. Það er enginn vafi á því, að fram undan er veruleg hætta á því á næstu mánuðum, að hér verði um mjög mikið og alvarlegt atvinnuleysi að ræða í mörgum greinum. Einnig ber auðvitað þess að gæta, að þó að vetrarvertíðin kunni að ganga vel, nær hún ekki til alls landsins. Þar er um að ræða marga staði, sem hún getur ekki haft nein áhrif á, en sem þegar eru komnir hér í mjög alvarlegan vanda. Ég taldi rétt að minnast hér á þetta mál utan dagskrár og hér í upphafi þessara þingstarfa, vegna þess að ég tel, að þetta mál sé þannig lagað, að það þurfi að bregðast hér mjög fljótt við. Eftir þeim starfsvenjum, sem hér eru orðnar hjá okkur á Alþ., mundi lítið gagn gera að flytja hér þáltill. varðandi þetta mál eða leggja hér fram frv. um sérstakar aðgerðir. Slíkt mundi vitanlega verða allt of seinfær leið. Af þeim ástæðum vildi ég nú þegar beina þeirri fsp. til ríkisstj. og alveg sérstaklega til hæstv. forsrh., hvað ríkisstj. hafi hugsað sér að gera í þessu alvarlega máli og hvort hún telji ekki, að það sé þörf á því, að Alþ. og ríkisstj. sameiginlega bregði hér skjótt við og geri ráðstafanir til þess að bægja atvinnuleysisbölinu frá dyrum þeirra, sem atvinnuleysið er nú að heimsækja.

Ég held, að þó að við eigum við ýmis efnahagsvandamál að glíma, ætti samt sem áður að vera létt fyrir okkur að bregðast hér þannig við, að hér þyrfti ekki að vera um atvinnuleysi að ræða, ekki a. m. k. á næstu mánuðum eða á komandi vetri. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara þessum fsp. mínum og gera hér nokkra grein fyrir afstöðu stjórnarinnar til þessa alvarlega máls.