09.12.1967
Neðri deild: 36. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þar sem þetta frv. var lagt fram hér á Alþ. nú í upphafi þessa fundar, hef ég ekki haft aðstöðu til þess að athuga það neitt nákvæmlega og mun því ekki ræða það að neinu ráði fyrr en þá við 2. umr. Hins vegar er mér ekki ljóst, hvernig það verður fundið út, hvað landbúnaðarvörur eigi að hækka mikið. Áhrif gengisfellingarinnar verða ekki komin fram 20. þ. m., og verði farið aðeins eftir fram komnum hækkunum, þá er sýnilegt, að aðeins hluti þeirra hækkana á rekstrarvörum landbúnaðarins, sem af gengisfellingunni leiðir, verður tekinn inn í verðið með því móti. Það má hins vegar vera, að hægt sé að finna út, hvað þessar hækkanir kunna að verða, a.m.k. svona hér um bil.

Nú vildi ég spyrja hæstv. landbrh., hvernig þetta sé hugsað, því að ef farið verður aðeins eftir þeim hækkunum, sem verða komnar fram fyrir 20. þ. m., er þetta frv. bara til þess að sýnast, en kemur ekki landbúnaðinum nema að mjög litlu gagni. Þetta vil ég að komi fram. Það er gert ráð fyrir því í frv., að þessi breyting komi aðeins fram 1. jan. og þá væntanlega ekki aftur fyrr en verðlagsgrundvöllurinn verður samþykktur næsta haust. Þær hækkanir, sem verða á því tímabili, koma þá ekki fram. Nú sagði hæstv. landbrh., að yfirdómur hefði lokið störfum 1. des. Ég vil því mælast til þess, að hann verði birtur, til þess að við getum athugað, hverjar niðurstöður hans eru, um leið og landbn. d. tekur þetta frv. til athugunar. Ég verð að vænta þess, að það verði gert. Það er t.d. ekki ljóst, hvort það kjarnfóðurmagn, sem bændur raunverulega eyddu á síðasta verðlagsári, hefur verið samþ. nú af yfirdómi. Sé það ekki og farið sé aðeins eftir því magni, sem var á síðasta grundvelli, er það ekki nema lítill hluti af því, sem bændur hafa eytt, og þess vegna verður þessi hækkun ekki nema að litlum hluta, miðað við það, sem gengisfellingin í raun og veru kemur niður á bændastéttinni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég endurtek það, að ég vil óska eindregið eftir því, að yfirdómurinn verði birtur, áður en við förum að ræða þetta frv. í n., og ég vil líka fá svar við því, eftir hverju eigi að fara, þegar þetta verð verður ákveðið nú.