20.04.1968
Sameinað þing: 58. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Þinglausnir

Forseti (BF):

Fyrir hönd Alþingis þakka ég forseta Íslands, herra Ásgeiri Ásgeirssyni, af alhug þessi kveðjuorð. Forsetinn var fyrst kjörinn á þing fyrir 45 árum, eins og hann gat um, og átti sæti hér á Alþ. í 29 ár. Á því árabili leysti hann af hendi ótal trúnaðarstörf sem þingmaður, þingforseti, ráðherra, fræðslumálastjóri og bankastjóri, og þegar litið er til baka, má segja, að hann hafi vaxið með hverjum vanda, sem hann tók sér á hendur. Val hans í æðsta embætti þjóðarinnar fyrir 16 árum, og endurkjör þrisvar eftir það, var því engin tilviljun, heldur rökrétt framhald þess, sem á undan var komið.

Þjóðinni hefur heldur ekki skeikað í þessu vali. Herra Ásgeir Ásgeirsson hefur sem forseti Íslands reynzt vandanum vaxinn, og þegar hann gefur nú ekki lengur kost á sér til endurkjörs og lætur af störfum fyrir aldurs sakir, á öll þjóðin honum miklar þakkir að gjalda fyrir störf hans fyrr og síðar. Það er von, að hið unga íslenzka lýðveldi hafi þurft nokkurn tíma til þess að móta embætti innlends þjóðhöfðingja, og efa ég ekki, að dómur sögunnar muni verða sá, að í því efni hafi herra Ásgeir Ásgeirsson og fyrirrennari hans, herra Sveinn Björnsson, lagt fram ómetanlegan skerf. Forsetinn hefur með lífi sínu og starfi lagt sig allan fram um að sameina íslenzka þjóð og vekja þjóðarmetnað hennar. Hann hefur haft næman skilning á samhengi nútíðar og fortíðar og jafnan brýnt fyrir þjóðinni að standa trúan vörð um þjóðerni sitt, tungu og menningararf. Hann hefur litið raunsæjum augum hins lífsreynda manns yfir miklar breytingar í atvinnuháttum og menningu síðustu áratuga og gefið þjóðinni holl ráð og aðvaranir, sem vert er að leggja á minnið.

Hin mikilvægu störf forsetans hafa öll einkennzt af virðingu hans fyrir lýðræði og þingræði og því frelsi, sem slíku stjórnarfari fylgir. Hann hefur lagt á sig mikið erfiði við það að kynna umheiminum Ísland og Íslendinga, og með ferðalögum sínum til annarra landa hefur hann aukið hróður þjóðarinnar út á við og styrkt mannorð hennar. Á tímum aukinna alþjóðlegra samskipta er þessi þáttur í starfi forseta vors mjög mikilvægur.

Að lokum vil ég nefna það, sem fremur öðru ber að þakka, að í forsetatíð herra Ásgeirs Ásgeirssonar hefur forsetasetrið að Bessastöðum verið setið af rausn og myndarskap, en án íburðar, og átti forsetafrúin, Dóra heitin Þórhallsdóttir, ómetanlegan þátt í því starfi. Störfum forseta vors, herra Ásgeirs Ásgeirssonar, hefur jafnan fylgt gifta og gengi. Ég þakka honum sérstaklega við þetta tækifæri þingstörf á þingmannsárum hans, og einkum störf hans sem forseta sameinaðs Alþingis á Alþingishátíðinni 1930. Ég þakka honum samstarf við Alþ. og margar ánægjulegar samverustundir með þm. nú á seinni árum. Ég þakka forseta Íslands, herra Ásgeiri Ásgeirssyni, öll hans ágætu störf fyrr og síðar og góðan skilning hans á hlutverki Alþingis í þjóðlífinu.