31.10.1967
Efri deild: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessa frv., 11. þm. Reykv., kom nokkuð í upphafi sinnar framsöguræðu almennt inn á húsnæðismál, auk þess sem hann gerði grein fyrir því frv., sem hér er til umr.

Það eru þessar almennu hugleiðingar hans, sem ég vildi gera örstuttar aths. við, ekki af því, að mál hans hafi ekki verið flutt af hógværð, eins og hans er vandi, heldur tel ég þar hallað nokkuð máli í einstökum atriðum, og vildi ekki láta umr. ljúka svo, að við það yrðu ekki gerðar neinar aths.

Hann skýrði frá því, sem rétt er, að byggingarmeistarar hafa bundizt samtökum og óskað eftir viðræðum við ríkisstj. eða fulltrúa hennar, með hvaða hætti þeir gætu orðið aðnjótandi hliðstæðrar fyrirgreiðslu og nú á sér við Breiðholtsframkvæmdirnar í íbúðabyggingum. Það hefur lengi verið ósk og von húsnæðismálastjórnar, að slík samtök kæmust upp, því að það var á allra vitorði, sem kynnt hafa sér byggingarframkvæmdir, þar sem þeim er bezt fyrir komið, að hinir einstöku byggingarmeistarar hér hjá okkur væru að mörgu leyti ekki færir um að taka þær að sér, svo magnlitlir sem þeir væru með nauðsynleg tæki til þeirra framkvæmda. Það er því ástæða til að fagna því, að til slíkra samtaka hefur verið stofnað, og óskandi, að þau eigi fyrir sér eðlilega og heiðarlega samkeppni við þær aðrar opinberar aðgerðir, sem nú eiga sér stað í byggingarmálum og allar eru tilraun til þess að lækka þennan gífurlega byggingarkostnað, sem hefur verið áhyggjuefni, ekki bara þessarar ríkisstj. heldur, að ég hygg, velflestra ríkisstjórna, sem hér hafa setið við völd síðan í stríðsbyrjun. Og ég vil vænta þess, að út úr þessum samtökum komi, eins og ég áðan sagði, eðlileg og heiðarleg samkeppni, sem getur orðið þáttur í þeim varanlegustu kjarabótum, sem völ er á fyrir allan almenning, þ.e.a.s. lækkun húsnæðiskostnaðarins, því að hann hefur hvílt á almenningi svo þungt, að hann er áreiðanlega að miklu leyti undirstaðan undir þeim endurteknu kröfum, sem menn gera um aukin laun og eins og hv. flm. gat um áreiðanlega einn veigamesti þátturinn í þeim verðbólgusnúningi. sem átt hefur sér stað hér á undanförnum árum. Um það er ég honum alveg sammála. En þetta hefur reynzt erfiðara verkefni en svo, að það verði leyst á örfáum árum, og ég hygg, að viðurkenna verði, að aldrei áður hafi verið gerðar jafnviðtækar tilraunir til að lækka, þennan kostnað og einmitt á undanförnum 8–10 árum og þó mest nú síðustu 2–3 árin. Það sýna bæði þær fjárhæðir, sem lagðar hafa verið til þessara framkvæmda, og svo þær nýju tilraunir, sem nú er verið að leggja út í með Breiðholtsframkvæmdunum. Ég vil þó enn einu sinni nota tækifærið til þess að vara menn við því að búast við þeim niðurstöðum af Breiðholtsframkvæmdunum, að þar muni endanlega fundin sú eina rétta lausn í húsnæðismálum og til lækkunar byggingarkostnaði, sem völ er á. Allt í kringum okkur og ekki sízt á Norðurlöndunum, sem hv. flm. vitnaði til og sannarlega eru komin langt í því að auka lán til íbúðabygginga og þá ekki síður í sjálfum byggingarframkvæmdunum, er reynslan sú, að þegar þeir lögðu inn á þessar brautir, tók það nokkur ár að komast niður fyrir hinn almenna byggingarkostnað, bæði meðan fólk var að þjálfa sig við þessi nýju vinnubrögð og eins meðan menn voru að ná tökum á þeim nýju tækjum, sem nauðsynleg eru talin til þessara framkvæmda. Það er því áreiðanlegt, að í fyrsta áfanga verður ekki unnt að sýna svo verulega lækkaðan byggingarkostnað sem á að vera hægt, ef hæfilegur aðlögunartími vinnst við slíkar framkvæmdir. Það er því jafnhættulegt að búast við of skjótum árangri í þessum efnum eins og hitt, að vinna ekki stöðugt að því, að því takmarki verði náð.

Það var einkum það atriði, sem hv. ræðumaður vék að í vanrækslu húsnæðismálastjórnar, sem hann taldi fyrst og fremst liggja í því, að hún hefði ekki gert sitt til þess að vinna að lækkuðum byggingarkostnaði, sem ég vildi hér gera aths. við.

Það er sjálfsagt alveg rétt, eins og hann lauk þeim kafla ræðu sinnar, að það hefði ekki verið nóg að gert í þessum efnum. Svo mun eflaust seint verða. En hinu vil ég mótmæla, að húsnæðismálastjórn hafi vanrækt þennan hluta laganna, sem henni er falin framkvæmd á. Það er rangt. Skal ég þá fyrst og fremst minna á það atriði, sem viðkemur teikningum, einföldum, en ódýrum teikningum, sem húsnæðismálastjórn hefur í vaxandi mæli látið af hendi við húsbyggjendur á undanförnum árum og er nú viðurkennt sem góð þjónusta við allan meginþorra landsmanna. En þegar þessi þjónusta var hafin, má segja, að nánast ekki eitt einasta hús, með örfáum undantekningum, utan Reykjavíkur og Akureyrar og ef til vill Hafnarfjarðar væri byggt samkv. fyrir fram samþykktum teikningum. Þarna hafa orðið algjör kaflaskipti með þessari þjónustu húsnæðismálastjórnarinnar. Auk þess hefur í þeim tilfellum, svo sem hefur orðið í vaxandi mæli, að þessar teikningar hafa verið nýttar, verið boðin þjónusta tæknideildar húsnæðismálastjórnar á teiknistofu til að aðstoða menn við að skipuleggja og grundvalla sínar byggingar og gera kostnaðaráætlanir, sem nú eru farnar að fylgja þessum teikningum, og framkvæmdastjóri stofnunarinnar hefur verið reiðubúinn og átt margar ferðir út á land til þess að annast slíka þjónustu, auk þess sem undir hans stjórn hefur verið unnið mikið og gott starf í þeim efnum með þjónustu beint héðan úr Reykjavík. Sérstakur eftirlitsmaður er starfandi hjá stofnuninni, sem er reiðubúinn til leiðbeiningar mönnum, meðan á sjálfum framkvæmdunum stendur. Þessi atriði vil ég að komi fram, til þess að það sé ekki hægt að fullyrða það æ ofan í æ, að ekkert sé í þessum málum gert. Auk þess hefur tæknideildin um árabil bent á nauðsyn þess, að hafizt yrði handa um framkvæmdir með því sniði, sem nú er verið að gera í Breiðholti, en þar hefur skort fjármagn allt fram undir þetta, að nýjum tekjustofnum var rennt undir byggingarsjóð. Þá fyrst opnuðust þeir möguleikar, sem nú er verið að nýta með Breiðholtsframkvæmdunum. Það verður því ekki sagt, að ekki hafi verið uppi till. um slíkar framkvæmdir. En tvennt hefur þar komið til. Annars vegar getu- og magnleysi okkar byggingarmeistara, fjárhagslegt getuleysi þeirra til þess að standa undir svo viðamiklum framkvæmdum, og svo hins vegar almennt getuleysi byggingarsjóðs til þess að stofna af eigin rammleik til slíkra framkvæmda. Þessir möguleikar hafa sem sagt nú báðir opnazt, og við skulum vona, að á sem allra skemmstum tíma sýni það árangur, en það ber að varast að ýta undir þær vonir óskhyggjumanna, að það komi fram á mjög skömmum tíma.

Þá minntist flm. á það, að sá einkennilegi háttur hefði verið á hafður að setja sérstaka framkvæmdanefnd yfir þessar Breiðholtsframkvæmdir, en láta húsnæðismálastjórn ekki annast þær. Það var einn liðurinn í því samkomulagi, sem við verkalýðsfélögin var gert, að svo skyldi á málum haldið, og bar því skylda til að framkvæma það með þeim hætti, sem gert var.

Í lok ræðu sinnar vitnaði ræðumaður til þess matsverðs, sem talið var vera á íbúðum hér fyrir 22 árum, og margföldunar á byggingarkostnaði, sem síðan hefði átt sér stað. Ég skal ekki draga í efa, að hann fari rétt með þær tölur, sem þar eiga við, en það var sá galli á, sem því miður, ber of oft á í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, að það er bara getið um aðra hlið málsins, þ.e.a.s. hvað byggingarkostnaðurinn hafi hækkað, en ekki hvað almenn laun hafi á sama tíma hækkað í landinu. Án þess að báðar hliðar séu fram dregnar um þessa hluti, er allt tal villandi, og það efast ég um, að hafi verið í huga hv. þm., og ég ber fram þá persónulegu ósk, að það verði framvegis látið fylgja, þegar slíkur samanburður er gerður, til þess að menn geti betur glöggvað sig á því, hver verðlagsþróunin í landinu hafi almennt orðið. Þar með er ég ekki, nema síður sé, að efast um það, að hér sé um að ræða raunhæfar og eðlilegar tölur, rétt með farnar. Það dreg ég ekki í efa. En höfuðástæðan til þess að ég stóð hér upp, er fyrst og fremst til að mótmæla því, að það hafi verið sofið á verðinum um tæknilega aðstoð við húsbyggjendur í því skyni að fá lækkaðan byggingarkostnað. Það er að mínu viti rangt. Hitt get ég fallizt á, að í þeim efnum verði e.t.v. aldrei nóg að gert og þurfi að efla þá starfsemi að mun, auk þess sem fram hjá þeim staðreyndum verður ekki gengið, að á s.l. árum hefur verið veitt til þessara nauðsynlegu framkvæmda meira fé en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar, jafnvel þó að menn geti lækkað gildi þeirra peninga með tilvitnunum í þá verðbólgu, sem hér hefur geisað, ekki einungis í tíð núverandi ríkisstj., heldur allra þeirra ríkisstj., sem setið hafa frá því í stríðsbyrjun.