01.02.1968
Efri deild: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Frsm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. það til l. um byggingarsamvinnufélög, sem hér liggur frammi til umr., hefur verið til meðferðar í heilbr.- og félmn., og varð n. sammála um að afgreiða það á þann hátt, sem kemur fram í nál. á þskj. 245, þ.e.a.s., að vísa málinu til ríkisstj. á þeim forsendum, sem þar eru greindar. Ég vil taka fram, af því að það vantar undirskrift eins nm. undir þetta nál., þ.e.a.s. hv. 2. þm. Reykv., að allir nm. voru viðstaddir, þegar þetta frv. var afgr. í n., og allir sammála um þessa niðurstöðu, en þessi hv. þm. var farinn af landi brott þegar gengið var frá nál., og því ekki hægt að ná til hans til undirskriftar undir nál.

Eins og kunnugt er, fer nú fram heildarendurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni, og hefur húsnæðismálastjórn þá endurskoðun með höndum. Ég hygg, að það séu nú um það bil 2 ár, síðan húsnæðismálastjórn var falið þetta sérstaka verkefni, og það mætti því vissulega fara að vænta þess, að því fari senn að ljúka. En upphafið að þessari endurskoðun á húsnæðismálalöggjöfinni í heild má að verulegu leyti rekja til yfirlýsingar ríkisstj. um húsnæðismál, sem birt var 9. júlí 1965 og var í raun og veru grundvöllur að samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, en í síðasta tölulið þeirrar yfirlýsingar segir, að unnið skuli að því af hálfu ríkis og sveitarfélaga að tryggja láglaunafólki húsnæði, sem kosti það ekki meira en hóflegan hluta árstekna, og í þessu skyni verði nú hafin endurskoðun laga um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæði um opinbera aðstoð vegna útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis með það fyrir augum að sameina til frambúðar í einum lagabálki og samræma öll ákvæði um opinbera aðstoð við húsnæðisöflun láglaunafólks, þ. á m. um þær íbúðabyggingar, sem ræðir um í 3. lið hér að framan, og verði samkomulag um nýtt kerfi á þessu sviði, væri rétt, að það tæki til framkvæmda þeirra byggingaráætlana, sem lýst er hér að framan, og ríkisstj. hafi fullt samráð við verkalýðsfélög um þessa endurskoðun laga um húsnæðismál láglaunafólks. En sú endurskoðun, sem húsnæðismálastjórn hefur nú með höndum, eins og ég gat um, er víðtækari en þarna kemur fram, því að hún nær til húsnæðismálalöggjafarinnar í heild, þótt þetta kunni að vera upphafið.

Lög um byggingarsamvinnufélög hafa staðið óhögguð í 16 ár og eru sennilega einmitt sá þáttur húsnæðismálalöggjafarinnar, sem lítið eða ekkert hefur verið hróflað við á þessum tíma, og það er því vissulega eðlilegt að menn leiði hugann að því, hvort ekki sé þörf á því að gera þarna á allverulegar breytingar. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir um byggingarsamvinnufélög, eru nokkur nýmæli, þó að flm. hafi aðallega lagt áherzlu á tvennt, sem þar kemur fram, þ.e.a.s. í 4. gr. frv., niðurlagi d-liðar, um að skylda Seðlabanka Íslands til að kaupa á nafnverði og árlega, ef þörf krefur, ríkistryggð skuldabréf fyrir eigi lægri fjárhæð en 75 millj. kr., og er þetta grundvallað á því, að byggingarsamvinnufélögum eða félagsmönnum þeirra hefur reynzt örðugt um vik að selja hin ríkistryggðu skuldabréf, sem þeir eiga rétt á að fá. Og í öðru lagi er það svo 8. gr. þessa frv., þar sem segir, að í þeim sveitarfélögum, þar sem byggingarsamvinnufélög starfa, er hlutaðeigandi sveitarstjórnum skylt að láta slík félög sitja fyrir um úthlutun lóða. Þetta eru sennilega stærstu nýmælin í þessu frv.

Ég tel, að á þessum tíma, sem byggingarsamvinnufélögin hafa starfað, hafi komið í ljós ýmsir annmarkar á þeirri löggjöf, þó að allir viðurkenni gildi byggingarsamvinnufélaganna og nauðsyn þeirra. Og þar eru tvö atriði, sem ég einkum hef í huga, og það er annars vegar, að menn geta verið aðilar í byggingarsamvinnufélagi með íbúðir sínar, þó að byggingarsamvinnufélagið hafi ekki átt neinn þátt í því að reisa viðkomandi íbúðir, þ.e.a.s. menn geta byggt sínar íbúðir sjálfir og komið svo eftir á og gengið inn í byggingarsamvinnufélag með þessar íbúðir. Þannig gæti í sama byggingarsamvinnufélagi verið ein íbúð á Ísafirði og önnur austur á Hornafirði og þriðja norður í landi o.s.frv., o.s.frv., og þessu tel ég nauðsynlegt að breyta þannig, að byggingarsamvinnufélögin taki eingöngu til íbúða og íbúðaáfanga, sem þau reisa sjálf.

Í öðru lagi hafa reglurnar í lögunum um endursölu þessara íbúða og forgangsrétt félagsmanna til að kaupa, ef einhver félagsmaður vill selja, því miður reynzt dauður bókstafur. Á þessum tveimur sviðum er, álit ég, sérstaklega endurskoðunar þörf. Og í þriðja lagi má segja, að sérstaklega 8. gr., þar sem talað er um, að þar sem byggingarsamvinnufélög starfa, sé hlutaðeigandi sveitarfélagi skylt að láta slíkt félag sitja fyrir um úthlutun lóða, — þessi gr. getur orkað mjög tvímælis. Það eru auðvitað ýmsir aðrir byggingaraðilar, sem þurfa á lóðum að halda, við skulum segja lóðum undir verkamannabústaði, lóðum undir íbúðabyggingar fyrir láglaunafólk. Auk þess eru svo einstaklingar eða byggingarmeistarar, sem fá lóðir til að byggja og selja og yrðu auðvitað að eiga rétt til úthlutunar. Bæði álít ég ákaflega vandasamt að skera úr í sumum tilfellum, hver eigi að hafa meiri rétt en annar, og eins, hvernig slíkur forgangsréttur ætti að vera, ef ætti að fara að útfæra hann nánar. Ef ætti að taka það upp að láta einhverja hafa forgangsrétt umfram aðra við lóðaúthlutun, væri sennilega bezt að miða við það, hver treysti sér til að byggja ódýrast, þ.e.a.s. þeir, sem sæktu um lóðirnar til að byggja þar tiltekin hús, og einkum á það náttúrlega við fjölbýlishús, skuldbyndu sig til þess að selja íbúðirnar, sem byggðar eru á þessum lóðum, fyrir eitthvert hámarksverð, t.d. á rúmmetra eða fermetra eða eitthvað þess háttar. Þá er auðvitað ljóst, að það þarf að greiða fyrir byggingarsamvinnufélögum að því er varðar fjáröflun og möguleika til þess að koma ríkisskuldabréfunum í verð, og getur nátúrlega sitt sýnzt hverjum, hvernig þar á að fara að.

Ég vil taka það fram í sambandi við þetta ákvæði í þessu frv., að frv. var sent til umsagnar Seðlabanka Íslands, og það kom ekkert svar þaðan, þó að maður hafi nú kannske ekki reiknað með mjög jákvæðum undirtektum, en það kom ekkert svar.

En ég vil taka það skýrt fram, að þó ég sé hér að benda á ýmis atriði í sambandi við þessa löggjöf, atriði, sem hafa ekki kannske verið tekin til meðferðar í þessu frv., eða leysa mætti á annan hátt en þetta frv. gerir ráð fyrir, er ég ekki með þessu að segja, að það þurfi endilega að vera svo mikill skoðanaágreiningur milli mín og hv. flm. þessa frv., því að ég geri ráð fyrir því, að þegar þeir fluttu þetta frv., hafi þeir verið fúsir til viðtals um það að gera breytingar, eftir því sem athuganir leiddu í ljós. En ég er fyrst og fremst að benda á þetta til þess að sýna, á hve margt þarf að líta, þegar þessi mál eru leyst. Og þar sem svo stóð nú á, að öll húsnæðismálalöggjöfin var í endurskoðun, sú endurskoðun hefur þegar tekið alllangan tíma og þess var að vænta, að henni færi að ljúka, fannst okkur, sem skipuðum heilbr.- og félmn. d., eðlilegt, að bíða eftir þessari heildarendurskoðun laganna, þar sem margt af því, sem hér kemur til álita, er auðvitað í nánum tengslum við aðra þætti húsnæðismálalöggjafarinnar. Því var það niðurstaða okkar, eins og fram kemur í nál., að leggja það til, að málinu yrði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um það, að heildarendurskoðun verði hraðað og henni lokið á yfirstandandi ári, en við þessa endurskoðun verði m.a. könnuð vandlega sú reynsla, sem fengizt hefur á starfsemi byggingarsamvinnufélaganna og þætti þeirra í lausn húsnæðisvandamálanna með það fyrir augum að skapa byggingarsamvinnufélögum heilbrigðan og eðlilegan starfsvettvang til frambúðar.

Þetta frv. var sent til umsagnar Húsnæðismálastofnunar ríkisins, og þaðan barst stutt umsögn, þar sem skýrt er frá því, að húsnæðismálastjórn muni senda umsögn um frv., þegar hún hafi fjallað um þetta mál í sambandi við endurskoðun þá um gildandi lög um húsnæðismál, er nú stendur yfir, en í þessari umsögn var ekkert skýrt nánar frá því, hvenær sú umsögn væri væntanleg eða hvenær húsnæðismálastjórn yrði búin að fjalla endanlega um þennan þátt húsnæðismálalöggjafarinnar.