27.02.1968
Neðri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

48. mál, loðdýrarækt

Ásberg Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. landbn. endaði mál sitt með því að segja, að þeir í landbn. hefðu verið mjög hóflegir í sínum ályktunum, en margir hefðu sterkar tilfinningar í sambandi við þetta mál. Þetta er tilfinningamál. Það eru leiðinleg mál og vandmeðfarin. En afstaða og rök þeirra, sem vilja ekki leyfa aftur minkaeldi á Íslandi, er tilfinningamál. Eins og menn eru á móti bjór, eru menn á móti mink.

Frv. þetta um loðdýrarækt, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að leyft verði að reisa 5 minkabú á Íslandi og að þau verði aðeins 5 á næstu 4 árum og þessi bú verði einungis staðsett í sveitarfélögum, þar sem villiminkur hefur ekki náð öruggri fótfestu að dómi veiðistjóra.

Þetta mál er ekki nýtt á hinu háa Alþingi. Vorið 1959 flutti Einar Sigurðsson frv. til l. um breyt. á l. nr. 32 1951, um loðdýrarækt, sem gerði ráð fyrir því, að bann laga við minkarækt yrði fellt úr gildi og að minkaræktin yrði heimiluð aftur. Málið dagaði uppi, en var svo flutt aftur á næsta þingi og var þá vísað til ríkisstj. með samþykki flm. Við umr. málsins þá kom skýrt fram hjá mörgum af þeim þm., sem til máls tóku, að sú málsmeðferð þýddi ekki, að þeir væru því samþykkir, að minkaeldi yrði leyft að nýju, enda þótt gert væri ráð fyrir því, að ríkisstj. undirbyggi löggjöf um loðdýrarækt. Ríkisstj. gat því lítið aðhafzt í málinu frekar en ef nál. meiri hl. landbn. nú yrði samþ. á þessu þingi, en það er aðeins að svæfa málið. Ríkisstj. hefur engin fyrirmæli, hvorki um undirbúning löggjafar né um að leyfa þetta á einn hátt eða neinn. Og mér finnst þessi niðurstaða ákaflega skrýtin miðað við það, sem á undan var gengið.

Síðan var frv. til l. um loðdýrarækt flutt af nokkrum þm. í Nd. á árunum 1965 og 1966. Á fyrra þinginu hlaut frv. ekki afgreiðslu var samþ. í Nd.. en dagaði uppi í Ed. Á þingi 1966 hlaut það einnig samþykki í Nd., en var þá fellt í Ed.

Nú er málið enn flutt nær óbreytt frá því, sem það var afgreitt í Nd. 1966. Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum. Sannleikurinn er sá, að það er engin innlend reynsla um þetta. Hér eru ekki til nein loðdýraræktarfélög, eina og áður var og í öðrum löndum er. Það er naumast hægt að gera ýtarlega löggjöf um þetta, fyrr en nokkur reynsla er fengin. Hins vegar er gert ráð fyrir að skipa þessu með reglugerð, og það er stefnt að því að reyna að stefna að hinu fyllsta öryggi með fáum búum með miklu eftirliti. Það voru sett lög um minkarækt hér áður fyrr, bæði 1933 og 1937. Þessi löggjöf kom ekki í veg fyrir það, að illa tækist til og minkurinn léki lausum hala, þannig að löggjafaratriðið er ekki nein sáluhjálp út af fyrir sig. Aðalatriðið er framkvæmd á þessu, ef leyft yrði, þessari tilraun, að bú væri í öruggum og góðum höndum.

Þegar minkarækt var hafin á Norðurlöndum skömmu fyrir 1930, tóku Íslendingar þátt í þeirri viðleitni að skapa aukna fjölbreytni í atvinnulífi sínu og reyna að auka gjaldeyristekjur sínar. Minkaræktin var alveg ný atvinnugrein, sem var að vaxa upp í norðlægum löndum, aðallega í Kanada og Bandaríkjunum. Vöxtur hennar gekk hægt, enda setti heimskreppan 1931 mark sitt á efnahag og viðskiptalíf þjóðanna allt fram undir heimstyrjöldina síðari. Minkaskinnaframleiðslan í heiminum 1940 var aðeins 650 þús. skinn, en er í dag 25 millj. skinn. 1940 framleiddu Danir 11 þús. skinn og Norðurlöndin samtals um 110 þús. Á stríðsárunum var aukning minkaskinna lítil af eðlilegum ástæðum. Fyrstu árin eftir stríð var Evrópa í sárum og öllu fjármagni beint til uppbyggingar og matvælakaupa, en markaður fyrir lúxusvörur eins og minkaskinn að sjálfsögðu lítill, nema helzt í Bandaríkjunum og Kanada. Árið 1950 var minkaskinnaframleiðslan í heiminum komin upp í 3 millj. skinna. Þar af voru Bandaríkjamenn með 2 millj., Kanada með 500 þús. og Norðurlöndin 500 þús. skinn. Talið er, að á Íslandi hafi minkaskinnaframleiðslan aldrei náð meira en 15–20 þús. skinnum. Fyrstu lífdýrin, sem voru flutt til Íslands, voru frá Kanada. Þau voru keypt fyrir lítið verð. Þau voru að sjálfsögðu léleg að gæðum. En í stríðslokin voru þó flutt inn nokkur úrvalsdýr, og fékkst þá mjög gott verð fyrir íslenzk minkaskinn á erlendum mörkuðum á árunum 1947–1950. Þannig fengu Íslendingar hæsta meðalverð allra Evrópuþjóða á uppboðum í London árið 1949–1950 Aðeins Bandaríkjamenn fengu hærra verð fyrir sín úrvalsskinn.

Íslendingar áttu því úrvalslífdýr í landinu í þeim fáu minkabúum, sem starfrækt voru þá, er bannið við minkarækt var lögboðið 1951. Var bann þetta vægast sagt undarleg ráðstöfun og vanhugsuð. Ástæðan var sú, að minkar höfðu víða vegna lélegs umbúnaðar sloppið úr haldi fljótlega eftir árið 1931 og fóru að lifa villtir í íslenzkri náttúru. Engar ráðstafanir voru gerðar af opinberri hálfu til að stemma stigu við fjölgun villiminksins. Hann fékk að leggja landið undir sig óáreittur. Eftir 1940 fer að kveða mikið að villiminknum. En þó er ekkert aðhafzt til að eyða honum. Í aldarfjórðung fær hann að leika lausum hala eða þar til lög um eyðingu refa og minka eru sett og veiðistjórastarfið stofnað 1957. Það er fyrst á árinu 1958, að skipulögð starfsemi til að eyða minkaplágunni er hafin hér á landi. Virðist óneitanlega hafa verið skynsamlegra að stofna veiðistjórastarfið árið 1951, í stað þess að banna minkaeldið í þeim fáu tiltölulegu vel útbúnu minkabúum, sem þá voru eftir í landinu, og drepa niður þann ágæta lífdýrastofn, sem þar var.

Nú hefur baráttan gegn villiminknum staðið í rétt 10 ár. Tekizt hefur að halda í horfinu, og er talið, að villiminknum hafi frekar fækkað, en ekki hefur tekizt að hefta útbreiðslu hans til nýrra landssvæða. Má heita, að villiminkur sé um land allt nema á svæðinu sunnan Vopnafjarðar að Skeiðará og á litlu svæði vestan Ísafjarðardjúps, frá Súðavík suður fyrir Önundarfjörð. Aðalatriðið er, að minkaplágunni hefur verið haldið örugglega í skefjum. Má þar sérstaklega nefna svæðið við Mývatn og Breiðafjarðareyjar sunnanvert.

Ljóst er, að villiminknum verður ekki gjöreytt úr landinu með núverandi tækni á næstu árum og sennilega aldrei. Við munum sitja uppi með hann, hvað sem hver segir og hvað sem menn gera. Þegar fyrst var flutt frv. um það að leyfa minkaeldi að nýju á árunum 1959 og 1960, lifðu sumir þm. í voninni um það, að skipuleg eyðing villiminksins, sem hófst fyrir alvöru árið 1958, yrði til þess, að villiminknum yrði algerlega útrýmt, og kom það fram skýrt í umr. á þinginu. Þessi von er nú brostin með öllu. Ef enginn minkur væri á Íslandi í dag, væri viðhorf manna til minkaræktar að nýju annað. Við munum áfram hafa tjón af villiminknum. En það er ástæðulaust að útiloka sig frá gjaldeyristekjum og hagnaði af minkarækt af þeim sökum um alla framtíð. Sú hætta, sem kann að stafa af því, að strokuminkur kunni að sleppa út úr minkabúi, er svo hverfandi lítil, að það eru ekki frambærileg rök fyrir að banna minkaeldi lengur í þessu landi. Strokuminkar eru af öllum kunnugum mönnum taldir auðveiddir, þar sem þeir þekkja ekki til í náttúrunni og halda sig í nágrenni við minkabúið um langan tíma. Þó að þeir kynnu, sem ólíklegt er, að komast undan skotum veiðimanna og hundum, eiga þeir eftir að aðlaga sig íslenzkri náttúru og lifa af íslenzkan vetur. Hugsanlegur strokuminkur getur því ekki haft neina umtalsverða þýðingu fyrir vöxt villiminkastofnsins í landinu, sem tekizt hefur að halda niðri og fækka á síðustu 10 árum.

Sumir fræði- og vísindamenn eru svo bjartsýnir að álíta, að ekki sé þörf á skipulegri starfsemi til að halda villiminknum í skefjum. Þeir telja, að villiminkurinn hafi náð jafnvægi í íslenzkri náttúru og honum muni ekki fjölga, þar sem lífsskilyrðin setji honum eðlilegar hömlur og takmörk. Ef svo væri, sem vonandi er, ætti strokuminkurinn ekki að hafa nein áhrif á vöxt villiminkastofnsins í landinu. Þegar minkarækt var bönnuð á Íslandi með lögum árið 1951, var framleiðsla minkaskinna í heiminum aðeins 3 millj. skinna, en hefur síðan rúmlega áttfaldazt og er nú rúmar 25 millj. skinna. Eru fá eða engin dæmi þess, að atvinnugrein hafi átt slíkum vexti að fagna, og er það bezta sönnun fyrir því, að hér er um blómlegan atvinnuveg og gróðavænlegan að ræða.

Minkaræktin er bundin við hin norðlægu lönd og hefur þar algera sérstöðu vegna loftslags og veðurfars. Ísland er eina landið á norðurhveli jarðar, sem hefur ekki hagnýtt sér legu sína og loftslag til að taka þátt í þessum ábatasama atvinnuvegi, og má það furðu gegna og ekki vansalaust fyrir Alþingi Íslendinga að viðhalda lengur lagabanni á þessum atvinnuvegi, sem á hér sennilega betri skilyrði en í flestum öðrum norðlægum löndum. Frændur okkar á Norðurlöndum hafa kunnað að nota sér aðstöðu sína og haft gífurlegar gjaldeyristekjur af sölu minkaskinna. Norðurlöndin hafa tuttugufaldað framleiðslu sína frá árinu 1950 eða síðan við bönnuðum minkaræktina hér. Hafa Norðurlandabúar tekið forustuna í heiminum í þessari atvinnugrein og framleiddu árið 1966 9,3 millj. minkaskinna, eða um 40% af allri heimsframleiðslunni. Næst koma Bandaríkin og Kanada með 8,6 millj. skinna og Rússland með 2 millj. skinna. Önnur lönd þ. á m. Japan, eru með 3½ millj. skinna.

Það er aðallega þrennt, sem gerir það að verkum, að Norðurlönd hafa náð þessum mikla árangri í minkarækt. Í fyrsta lagi heppilegt loftslag. Í öðru lagi aðgangur að ódýru og góðu fóðri, sérstaklega fiskifóðri. Og í þriðja lagi eiga þeir gott og verkmenntað fólk. Af Norðurlandaþjóðunum hafa Danir mesta minkarækt og hafa tekið forustu á þessu sviði. Þeir áttu 1940 aðeins 11 þús. minkaskinna, en árið 1950 framleiddu þeir 150 þús. og eru nú komnir upp í 3 millj. skinna árlega. Í Danmörku voru árið 1966 6 þús. minkabændur og meðalbúið hafði 174 læður. Það ár seldu þeir 2,4 millj. skinna fyrir 255 millj. danskra króna, og var meðalverðið 104 kr. danskar á skinn. Það ár hafði minkalæðum þeirra fjölgað um 14,5% og framleiðsluaukningin milli ára af minkaskinnum verið 400 þús. skinn, og um þetta leyti jókst framleiðsla í heiminum milli ára um 3 millj, skinna, sem sýnir, hve teygjanlegur og sterkur þessi markaður hefur verið og er. Í árslok 1966 varð að vísu mikið verðfall á minkaskinnum í heiminum, sem þó bitnaði sérstaklega á hinum lakari gæðaflokkum, sem voru nær óseljanlegir á uppboðunum. Þrátt fyrir þetta fengu Danir 201 millj. danskra kr. fyrir framleiðslu sína, og voru 44% af skinnunum seld til Bandaríkjanna, en 56% til Evrópulanda, aðallega Þýzkalands og Frakklands. Var þetta í fyrsta skipti, sem Bandaríkin keyptu ekki yfir 50% af framleiðslu Dana.

Aðalrök þeirra, sem mótfallnir eru minkarækt á Íslandi, eru þau, að hér sé um tízkuvöru að ræða, sem háð sé miklum sveiflum í verði og smekk manna og geti markaðurinn jafnvel dottið niður með öllu. Þetta voru aðalrökin, er Einar Sigurðsson flutti till. sína um að leyfa minkarækt hér 1959. Það ár seldu Danir minkaskinn fyrir 75 millj. danskra króna, en 1966 fyrir 255 millj. og höfðu þannig meira en þrefaldað gjaldeyristekjur sínar á 7 árum. Við höfum því misst af dýrmætum tíma, þegar þessi atvinnugrein hefur verið í hvað mestum vexti. Við ættum vafalítið í dag álitlegan minkastofn, ef málið hefði fengið eðlilega afgreiðslu á sínum tíma, En um það er ekki að sakast. Aðalatriðið er, að við þekkjum okkar vitjunartíma nú og leyfum þá tilraun til minkaeldis, sem frv. gerir ráð fyrir, og öðlumst þá reynslu og þá þekkingu, sem nauðsynleg er, áður en þetta getur orðið að almennum og öflugum atvinnuvegi, en á því er enginn vafi, að á þessu sviði hefur Ísland stórkostlega möguleika, ef vel tekst til.

Að ýmsu leyti hefur Ísland vafalaust betri skilyrði á þessu sviði en hin Norðurlöndin. Í fyrsta lagi er loftslag hér heppilegra, því að miklir hitar og miklir kuldar eru ekki heppilegir fyrir minkana. Í öðru lagi höfum við í landinu miklu meira og betra fóður en hinar þjóðirnar í okkar fiskúrgangi og sláturúrgangi. Norðurlandaþjóðirnar verða að flytja inn fiskúrgang í stórum stíl vegna loðdýraræktar sinnar og kaupa það fyrir gjaldeyri. Danmörk flytur t.d. inn árlega 50 þús. tonn af fiskúrgangi, og Svíar og Finnar flytja inn svipað magn. Það eru aðeins Norðmenn, sem eru sjálfum sér nógir og selja hinum þjóðunum hluta af sinni framleiðslu. Við gætum hins vegar af eigin fiskúrgangi og fiskimjöli haft meiri framleiðslu en hver þessara þjóða fyrir sig. Hér á landi falla árlega til 100–120 þús. tonn af fiskúrgangi eða nægilegt til að framleiða um 3 millj. skinna, ef öllu væri til skila haldið, ýmist í formi fiskmjöls, frysts fiskúrgangs eða fersks, sem við fáum af sumaraflanum, en sumarafli Íslendinga af þorskfiski er um 25% af heildaraflanum, sem er um 300 þús. tonn. Verðið, sem frystihúsin fá fyrir fiskúrgang sinn í fiskimjölsverksmiðjunum er aðeins um 1/10 hluti af því verði, sem minkabændur í Danmörku verða að kaupa hann á til búa sinna. Meðalverð í Danmörku er talið 60 aurar danskir eða 4,50 á kg, eða tonnið 4500 kr., en frystihúsin hér fá aðeins 450 kr. eða tæplega það, jafnvel 435 kr. Ef allur fiskúrgangur væri seldur á danska verðinu, fengjust 450 millj. fyrir ársframleiðsluna af fiskúrgangi í stað um 45 millj., sem hraðfrystiiðnaðurinn fær nú. Nú er ég viss um það, að flestir telja, að hraðfrystiiðnaðurinn og útgerðin þurfi á auknum tekjum að halda, og vænlegasta ráðið til þess er að skapa innlendan markað fyrir fiskúrgang með því að koma hér upp þeim loðdýrastofni, sem vænlegastur er, þ. e. minkarækt.

Minkaræktin er oft kölluð sorptunna fiskiðnaðarins og sláturhúsanna og það með réttu. Það, sem þessar atvinnugreinar kasta eða fá lítið verð fyrir, nýta minkabændurnir. Sláturhúsin á Íslandi henda innmat og blóði fyrir tugi milljóna. Úrgangur sláturhúsa er mjög verðmætur til minkaeldis. Það, að við slátrum fénu á haustin, eða frá 20. sept. til októberloka, er mjög þýðingarmikið atriði fyrir minkaræktina. Einmitt á þessum tíma er vetrarfeldurinn að myndast og því sérstaklega áríðandi að hafa nýtt og gott fóður fyrir dýrin. Hárvöxturinn og þar með gæði feldarins eru eingöngu fóðuratriði, en ekki erfða. Við hellum niður um 70% eða 700–800 þús. lítrum af lambablóðinu. Öllu blóði hendum við úr nautgripum, sem eru 25 þús., að sjálfsögðu úr hrossum en blóð hefur svipað næringargildi sem dýrafóður og nýmjólk. Nálega öllum innmat úr hrossum og nautum er hent út í sjó og þar alinn á því svartbakur, sem er hinn mesti vágestur í ám og æðarvörpum. Með betri nýtingu á úrgangi frysti- og sláturhúsa myndi draga úr svartbaksplágunni. Ef markaður væri innanlands fyrir fisk- og sláturúrgang, mundi margt koma að gagni, sem nú er hent, bæði á sjó og landi. Með fullkomnari vinnslu sjávaraflans eykst fiskúrgangur og að sjálfsögðu ef t.d. skreiðarverkun minnkaði og fiskur væri yfirleitt pakkaður beinlaus og roðlaus, eins og allir telja æskilegt, að þróunin verði á sviði fiskiðnaðarins.

Þá vil ég sérstaklega benda á, að dýrafeiti, eins og tólg, sem hér er í lágu verði, og undanrenna eða undanrennuduft er nauðsynlegur liður í fæðu minkanna. Ef vel á að vera þarf 5–6% af undanrennu að vera í fóðrinu. Fóðurþörf minkanna byrjar með fullum þunga í byrjun júlí, einmitt þegar mjólkurframleiðslan er mest hér á landi, og fer vaxandi allt til októberloka. Þetta er einmitt sá tími, sem offramleiðsla mjólkurinnar á sér stað. Minkaeldi væri nýr neytandi hjá mjólkurbúunum, þegar bezt stendur á.

Talið er, að um 50–60% af kostnaði við framleiðslu minkaskinna sé fóðrið. Á Íslandi höfum við um 95% af þessu fóðri innanlands, og þessu fóðri er nú ýmist hent eða selt fyrir mjög lágt verð, aðeins brot af því verði, sem minkabændur á Norðurlöndum verða að greiða fyrir það til búa sinna. Atvinnuvegir okkar eru fábreyttir, og menn eru sammála um að auka fjölbreytni þeirra. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafa minnkað stórkostlega á s.l. ári. Þýðingarmikið er því að stuðla að nýjum atvinnugreinum, sem auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Engin atvinnugrein gæti gert það í ríkara mæli en framleiðsla minkaskinna úr verðlitlum fisk- og sláturúrgangi. Minkarækt yrði í framtíðinni vænleg atvinnugrein í dreifbýli landsins í sambandi við hin fjölmörgu frystihús, sem við það fengju stóraukið verkefni og nokkuð mikinn tekjuauka. Frændur okkar á Norðurlöndum verða að byggja frystihús, eingöngu til að geyma frystan fiskúrgang, sem þeir kaupa inn frá öðrum löndum fyrir harðan gjaldeyri. Frystihúsin hér eru til staðar, og þau vantar verkefni. Þau eru kjörin til þess að vera fóðurblöndunarstöðvar fyrir minkabændur í nágrenninu, en slíkar stöðvar rísa nú upp alls staðar þar, sem minkarækt er, og létta þar með minkabændum þann mikla vanda, sem rétt blöndun á fóðrinu er. Minkaræktin er mikið hagsmunamál fyrir þorp og bæi úti á landi, þar sem fábreytni atvinnulífsins er mest.

Nú er ekki óhentugur tími til að stofna til minkaræktar að nýju, vegna þeirrar verðlækkunar, sem orðið hefur á minkaskinnum í heiminum í bili. Reynsla Norðurlandaþjóða í 30–40 ár sýnir, að verðlækkunartímabilin hafa jafnan verið stutt, mest 1–2 ár, en síðan hefur verðlagið nokkuð hækkað aftur og tryggt þessum atvinnuvegi góðan hagnað og mikinn vöxt. Nú er hægt að kaupa úrvals lífdýr fyrir hálfvirði, miðað við það, sem var áður, vegna þess að minkabændur eru hættir í bili að auka lífdýrastofn sinn.

Herra forseti. Ísland hefur sérstöðu til að hafa mikið og ábatasamt minkaeldi. Það er eitt af þeim örfáu sviðum, þar sem við höfum örugga samkeppnisaðstöðu miðað við aðrar þjóðir, sem framleiða slík skinn. Aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, þurfa á þessari starfsgrein að halda til að selja henni fisk- og sláturúrgang, sem er ýmist hent eða seldur lágu verði. Minkarækt mundi skapa aukna fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar, sem nú stendur mjög höllum fæti. Minkarækt mundi skapa mikinn gjaldeyri, sem þjóðin er nú í brýnni þörf fyrir. Þrátt fyrir dapurleg mistök, sem stöfuðu af þekkingarleysi og skorti á hæfilegum útbúnaði, sem orsakaði villimink í landinu, tókst okkur að framleiða verðmestu skinn allra Evrópuþjóða 1949. Það sýnir okkur, að við getum komizt í fremstu röð á þessu sviði, ef minkarækt verður leyfð hér aftur. Engin skynsamleg rök eru fyrir því að viðhalda banni gegn minkarækt lengur, þar sem útséð er um, að villiminknum verði útrýmt á Íslandi, þó að banninu verði viðhaldið.