14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Á þskj. 56 er birt nál. okkar, sem skipum minni hl. fjhn. í þessu mái. Í minni hl. eru auk mín 2 hv. þm. Austurl., 4. og 5. þm. þess kjördæmis. Við leggjum til, að þetta stjórnarfrv. verði fellt. Ég vísa til þess, sem stendur í nál. okkar um málið. Ég þakka hv. frsm. meiri hl. fyrir það, að hann las dálítið upp úr okkar nál., en það hefði raunar mátt vera meira.

Í alþingiskosningunum á næstliðnu vori töluðu frambjóðendur stjórnarflokkanna m.a. mikið um 3 atriði: verðstöðvun, gjaldeyrisvarasjóð og verzlunarfrelsi.

Hvað er svo að frétta af þessari þrenningu? Um verðstöðvunina er það að segja, að sjálf hæstv. ríkisstj. hefur nýlega viðurkennt, að það hafi verið rétt, sem við stjórnarandstæðingar sögðum um svonefnd verðstöðvunarlög, sem stjórnarfl. settu fyrir einu ári, að þar var aðeins um leiksýningu að ræða, sem sett var á svið fyrir kosningar í því skyni að blekkja kjósendur, en þetta hefur stjórnin viðurkennt með því að grípa til gamalla laga frá 1960 og fyrirskipa stöðvun samkv. þeim, þegar gildistími laganna frá í fyrra rann út. Verðstöðvun hæstv. stjórnar var sem kunnugt er framkvæmd með þeim hætti, að varið var fé úr ríkissjóði til þess að dylja vöxt dýrtíðarinnar fram yfir kosningar, og með verðstöðvun af þessu tagi sögðu frambjóðendur stjórnarfl., að atvinnuvegunum hefði verið bjargað, svo að rekstur þeirra væri á traustum grunni þrátt fyrir nokkra erfiðleika, er stöfuðu af verðfalli á ýmsum útflutningsvörum. Rétt var það, að nokkurt verðfall hafði orðið á sumum útflutningsvörutegundum, en þær höfðu áður hækkað mjög í verði. En fáum mánuðum eftir að kosningarnar eru afstaðnar er svo dýrtíðinni sleppt lausri og landsmönnum sendur reikningurinn yfir kostnað við kosningaævintýrið. Hann birtist í stjórnarfrv. sem hér er til umr.

Og svo var gjaldeyrisvarasjóðurinn önnur meginstoðin að sögn þeirra stjórnarflokksmanna. Þeir töluðu mikið um hann fyrir kosningarnar. Þetta var mikill sjóður. Mig minnir, að þeir nefndu 2000 millj. Vegna þessa stóra sjóðs, sögðu þeir, að verzlunarfrelsi gæti haldizt, vöruinnflutningur til landsins gæti gengið óhindrað, þó að lækkun yrði á útflutningstekjum í bili af völdum verðfalls á afurðum og minni afla. Og áfram var haldið í sumar að kaupa vörur frá útlöndum, m.a. iðnaðarvörur, sem vel hefði mátt framleiða hér heima, og greiðslur teknar úr gjaldeyrisvarasjóðnum. Alltaf mátti gefa út ávísanir á hann.

Mér kom gjaldeyrisvarasjóðurinn í hug, þegar ég las eina vísu í norðlenzku blaði, sem mér barst í hendur í vikunni sem leið. Yfirskrift hennar er: Egg ríkisstjórnarinnar. Höfundurinn nefnir sig Grím, og vísan er svona, með leyfi hæstv. forseta:

Stjórnin vor er furðu fær,

flestu snýr hún þjóð í hag:

Úr egginu, sem hún át í gær,

ungann steikir hún í dag.

Mér virðist, að þeir stjórnarflokksmenn tali heldur minna um gjaldeyrisvarasjóðinn nú í seinni tíð heldur en þeir gerðu í vor sem leið. Ef til vill hefur hann eitthvað rýrnað, því miður, enda vöruskiptajöfnuðurinn við útlönd óhagstæður eftir fyrstu 8 mán. ársins um nálægt því 2000 millj. kr. Vera má, að stjórnin sé búin að éta mikið af egginu, svo að unginn úr því, sem kemur á pönnuna hjá henni, verði heldur í minna lagi.

En þá er gripið til þess ráðs að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að kaupa fyrir vörur, m.a. kökur og epli frá Dönum, því að ekki kaupa þeir vörur af okkur á móti því, sem við kaupum af þeim.

Og þá er það verzlunarfrelsið. Enn eru sömu hömlur á útflutningi, sem hér hafa lengi verið. Og þrátt fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn og stóra lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur ríkisstj. fyrir nokkru sett á innflutningshöft í nýrri mynd, þó að hún hafi áður bannsungið þau hátt og lengi, m.a. í síðustu kosningum. Þannig er hæstv. ríkisstj. að hrekjast fyrir stormum og straumum, vesalingurinn. Og ýmsar tilskipanir hennar, t.d. á viðskiptasviðinu, eru mjög furðulegar. Þannig bannar hún mönnum að flytja til útlanda til sölu þar myndir af einum merkasta Íslendingi, sem uppi hefur verið, Jóni Sigurðssyni forseta. En hins vegar leyfir hún, að fluttar séu út myndir af mikilhæfum 19. aldar Norðlendingi, Tryggva Gunnarssyni, alþm., bónda, smið og bankastjóra, og reynt að selja þær þar. En vegna mikils framboðs má nú búast við, að myndirnar af Tryggva kunni að falla í verði á erlendri grund, jafnvel enn meira en mjöl og lýsi.

Það var stór þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á öldinni sem leið og upphafi þeirrar, sem nú er að líða, að ná verzluninni úr höndum útlendinga. Og samvinnufélögum og einstökum kaupsýslumönnum varð vel ágengt í því efni. En nú lítur út fyrir, að smásöluverzlunin sé aftur að færast úr landi. Árlega fer margt manna til útlanda, að því er virðist aðallega þeirra erinda að ganga þar í búðir til að kaupa fatnað og ýmsan annan varning og flytja heim með sér. Nærri má geta, hversu hagkvæm slík verzlun er þjóðinni — eða hitt þó heldur. En stjórnarvöldin hér heima eiga stóran þátt í þessu sölubúðarápi til útlanda. Þau hafa gefizt upp við að innheimta tolla og söluskatt af varningi, sem þannig er keyptur og fluttur inn, en ef þetta fólk væri látið borga aðflutningsgjöld, eins og aðrir innflytjendur verða að gera, mundi það ekki sjá sér eins mikinn hag í því að ganga fram hjá innlendum verzlunum og skipta við smásala í öðrum löndum. Þessi vesaldómur yfirvaldanna veldur að sjálfsögðu tekjurýrnun hjá ríkissjóði. Og nú þykist ríkisstj. hafa fundið ráð til að bæta ríkissjóði tapið að einhverju leyti. Hún ætlar að leggja á svonefndan farmiðaskatt. Sá skattur á að vera þannig, að þeir íslenzkir ferðamenn, sem aldrei fara inn fyrir dyrastafi á útlendum verzlunum og eyða litlum peningum á ferðum sínum, eiga að borga jafnháan farmiðaskatt og hinir, sem aðallega fara til að verzla og flytja inn vörur án þess að borga aðflutningsgjöld af þeim. Stjórnin vill umfram allt halda áfram að veita þeim forréttindi, sem hafa aðstöðu til að rápa í sölubúðir í öðrum löndum.

Við höfum oft heyrt nefnt júnísamkomulag. Það var samningur, sem gerður var milli ríkisstj. og stéttasamtakanna fyrir fáeinum árum. Stjórnarfl. hafa fram að þessu túlkað þetta samkomulag sem einn af merkustu viðburðum þjóðarsögunnar. En nú gerir stjórnin allt í einu tillögur um að rifta þessu fræga samkomulagi og stofnar til ófriðar í því sambandi.

Við, sem skipum minni hl. fjhn., viljum ekki eiga hlut að þessu og leggjum til, að frv. verði fellt. Enda er það svo, að þó að þetta frv. verði samþykkt, er eftir sem áður óleystur sá vandi, sem nú steðjar að undirstöðuatvinnuvegum okkar. Í frv. er gert ráð fyrir, að framlengd verði núgildandi lög um aðstoð við sjávarútveginn, en allir vita, að það er algerlega ófullnægjandi til að sjá útgerðinni borgið og tryggja rekstur fiskiðnaðarstöðvanna. Nú þegar er búið að loka mörgum frystihúsum og stöðvun vofir yfir hinum. Landbúnaðurinn er þannig á vegi staddur, að bændur eru tekjulægsta stétt þjóðfélagsins, og stjórnarstefnan er búin að leika iðnaðinn svo grátt, að þar hefur orðið mikill samdráttur og enn meiri yfirvofandi, ef áfram verður haldið á sömu braut. Stjórnin hefur alls ekki hirt um að búa þannig að innlendri iðnaðarframleiðslu, að hún geti þolað samkeppni við erlendar iðnaðarvörur. Og stjórnarfl. hafa veitt útlendu stórfyrirtæki, sem er að hefja rekstur hér, mikil fríðindi, sem innlend fyrirtæki fá ekki að njóta. Þannig er það eitt af stefnuskráratriðum núv. stjórnar, að Íslendingar skuli vera 2. flokks menn í sínu eigin þjóðfélagi.

Hér þarf að taka upp nýja stjórnarstefnu og það án tafar til þess að koma innlendri framleiðslustarfsemi á réttan kjöl og tryggja landsmönnum þar með viðunandi lífskjör. En þetta verður vitanlega ekki gert undir forustu núv. hæstv. stjórnar. Hún neitar að yfirgefa þá óheillagötu, sem hún hefur gengið, hún getur því ekki leyst vandann, sem við er að fást, og hana skortir líka traust þjóðarinnar til að standa fyrir málum. Stjórnarfl. fengu að vísu lítið eitt meira en helming atkvæða í kosningunum í vor. Þennan litla meiri hl. fengu þeir með því að beita miklum blekkingum, sem nú hafa verið afhjúpaðir, að nokkru leyti af þeim sjálfum, og aðgerðir stjórnarinnar nú á haustdögum ásamt því frv. hennar, sem hér liggur fyrir, hafa mælzt mjög illa fyrir hjá almenningi og vafalaust orðið til að rýra fylgi stjórnarfl. Má því telja mjög sennilegt, og er þá ekki of mikið sagt, að sá litli meiri hl., sem stjórnarfl. höfðu í síðustu alþingiskosningum, sé nú rokinn út í veður og vind.

Hin nýja stjórnarstefna, sem þjóðin hefur mikla þörf fyrir, verður að byggjast á víðtæku samstarfi stjórnmálaflokka og stétta. Og núverandi stjórn á að segja af sér, því að hún ræður ekki við verkefnin, sem brýn þörf er að leysa. Ef hæstv. ráðherrar hafa þann manndóm og kjark, sem þarf til þess að segja af sér, eftir hrakreisurnar og þau óhöpp, sem röng stefna þeirra hefur valdið, ættu þeir að gera það. Hér gef ég þeim hollt ráð. Geri þeir þetta, munu eftirmæli þeirra í þjóðarsögunni verða lítið eitt skárri en þau hljóta að verða, ef þeir reyna að rorra í stjórnarstólunum eitthvað lengur.