15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessar umr. hafa að ýmsu leyti verið mjög lærdómsríkar. En e. t. v. er eftirtektarverðast, hversu þar hefur skipt í tvö horn. Sumir hv. þm. hafa ýmist talað í gaman- eða fjarstæðutón, eins og þeir væru ekki kunnugir aðstæðum á Íslandi, hvorki nú né á síðustu árum, og fer ekki á milli mála, að í þeim hópi eru flestir hv. framsóknarmenn, einnig síðasti ræðumaður. óneitanlega var nokkuð gaman að heyra ummæli hans eftir það, sem flokksbróðir hans hafði sagt á undan um það, að ekki væri tekið af þeim ríku, en þessi hv. þm. gerði það að sérstöku ásökunarefni á frv., að það væri einmitt verið að vega að þeim, sem safnað hefðu sér eignum og hefðu þar að auki efni á að fara til útlanda.

Þannig rekst eitt á annars horn hjá þessum hv. þm., og skal ég ekki elta ólar við það. Það er þó rétt að viðurkenna, að einn hv. þm., hv. 5. þm. Norðurl. e., talaði á allt annan veg um málið sjálft og virtist gera sér grein fyrir, að hér væri um raunveruleg vandamál að ræða. Hið sama verð ég að segja um þá hv. Alþb.-menn, sem hér hafa um þetta mál talað, að þó að ég sé þeim ekki sammála efnislega, þá játuðu þeir, að hér væri úr miklu vandamáli að leysa, og ræddu málefnalega bæði um vandann sjálfan og þær till., sem fram hafa verið bornar. Nú hefur það verið margtekið fram og þarf í sjálfu sér ekki frekari ítrekunar við, að á þessu síðasta ári og eftir því sem á árið hefur liðið hafa í vaxandi mæli komið í ljós örðugleikar, sem við höfum ekki átt við að etja í sama mæli á undanförnum árum. Með þessu er engan veginn sagt, að ekki hafi bæði fyrr og síðar verið misæri á Íslandi, mismunandi mikill afli og misjafnt verðlag. Þetta er engin nýjung, það er alveg rétt, og það er einmitt af þessum sökum, sem við í ríkisstj. og okkar stuðningsmenn höfum talið það höfuðnauðsyn að skjóta fleiri stoðum undir íslenzkt atvinnu- og efnahagslíf, vegna þess að við vorum okkur einnig á góðæristímabilinu meðvitandi um, að erfiður dagur kemur eftir góðan og menn verða að hafa í mörg hús að leita, ef vanda ber að höndum. Einmitt þessi mismunandi skoðun á þörf á aukinni margbreytni í íslenzku atvinnulífi hefur verið eitt af helztu deiluefnum í íslenzkum stjórnmálum nú síðustu árin og er enn þá mjög mikið deilumál.

Ég hef sagt það annars staðar, en ég get ítrekað það hér, að hvort sem okkur gengur vel eða illa að leysa þann vanda, sem nú steðjar að okkur, hefur mér aldrei komið til hugar, að hann yrði auðleystur né hann yrði leystur án þess, að ríkisstj. yrði skömmuð í bak og fyrir Það hefur mér verið alveg ljóst frá upphafi. Ég er hins vegar sannfærður um það, að við kröflum okkur fram úr þessum vandamálum með einum eða öðrum hætti, þjóðin í heild. Það mikilsverða er hins vegar, að við lærum af þessum örðugleikum, að við lærum það, að við megum ekki í jafnríkum mæli og á undanförnum árum treysta á einhæfa atvinnuvegi, að við verðum að nýta allar landsins auðlindir þjóðinni til heilla. Það er sá stóri frambúðarlærdómur, sem við eigum af þessum bráðabirgðaörðugleikum að leiða, jafnframt því sem við að sjálfsögðu verðum að leitast við að leysa þessa bráðabirgðaörðugleika á þann veg, að þeir verði alþjóð sem léttbærastir og leiði ekki til þess að torvelda um of sókn til betri tíma og bættra lífskjara, sem við allir að sjálfsögðu óskum þjóðinni til handa og enginn ágreiningur er um út af fyrir sig, þó að okkur greini á um leiðir. En fram hjá þeirri staðreynd verður ekki með nokkurn móti komizt, ekki með neinum tölum, gamansemi, vísnaupplestri eða hverjum ráðum sem menn vilja þar viðhafa, — fram hjá þeirri staðreynd verður ekki komizt, að árið í ár mun, eftir því sem við sjáum í dag, veita okkur minni útflutningstekjur en síðasta ár, þannig að nema muni fjórðung til þriðjungs minnkunar. Og þetta eru meiri viðbrigði á einu ári en við höfum áður orðið fyrir á okkar starfsævi, þeirra sem nú eru á þingi, — meiri en voru á árunum 1930–1931. Það var upphaf kreppunnar miklu. En þau viðbrigði, sem við verðum nú fyrir, sýnast ætla að verða nokkru meiri eða í minnsta lagi ámóta mikil og þessi miklu viðbrigði, sem urðu upphaf kreppunnar.

Hitt er svo allt annað mál, og það sannaði hv. 1. þm. Vestf. glögglega í gær, að íslenzkt þjóðfélag þolir þessi viðbrigði nú miklu betur en við höfum þolað nokkur önnur viðbrigði í okkar sögu, bæði viðbrigðin frá 1930–1931 og önnur áföll, sem við höfum orðið fyrir. Við þolum þetta miklu betur vegna þess, hversu íslenzkt þjóðfélag í heild er nú orðið vel stætt. Og þrátt fyrir allt tal okkar um örðugleika, — og þessir örðugleikar eru mjög miklir og þeir lenda á þeim atvinnugreinum, sem við viðurkennum, að eru að vissu marki undirstöðuatvinnugreinar í okkar þjóðfélagi, afla þess gjaldeyris, sem er skilyrði þess, að við getum flutt inn lífsnauðsynjar frá öðrum löndum, þá verður þó munurinn á heildartekjum þjóðarinnar allt annar og miklu minni en nemur tekjuminnkun þeirra. Það var í sumar talað um, að sú rýrnun mundi nema 4–5%. Ég álít, að það sé of lágt metið. En það er einhvers staðar þar nærri, við skulum segja um eða yfir — sennilega yfir 5%, sem þjóðartekjurnar í heild rýrna. Og við erum ekki að tala um rýrnun á kjörum almennings samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Sú rýrnun má ekki verða nema milli 4 og 5% samkv. þeim mælikvarða, sem verkalýðshreyfingin nú hefur viðurkennt, að sé til frambúðar og hagkvæmari fyrir sig en sá mælikvarði, sem áður hefur verið fylgt. Og jafnvel sú kjaraskerðing gerir ekki meira að verkum heldur en að almenningur verði ámóta vel settur og hann var um áramótin 1965–1966. Það er þess vegna hér ekki verið að vísa til neinna sultar- eða hörmungartíma. Það er ekki verið að segja, að við komumst aftur niður í það eymdarástand, sem við vorum í á kreppuárunum miklu, og við biðjum allar góðar vættir um að forða okkur frá, að annað eins ástand skapist aftur. En viðbrigðin núna eru fyrir þessa atvinnuvegi, sem þarna eiga hlut að máli, sannanlega jafnvel meiri en þau voru í upphafi þessarar kreppu.

Nú er um að gera fyrir okkur að læra af reynslunni. Nú er um að gera fyrir okkur að láta ekki náttúruöflin blind og grimm ráða, heldur reyna að haga málum þannig, að þetta verði okkur að sem minnstum skaða og byrðarnar komi sem réttlátast niður. Alþýðusambandið telur, að þarna skorti töluvert á. Þegar borið er saman það, sem þarna ber á milli, skal ég ekki segja, hvort munurinn er eins mikill á þeirri raunverulegu lífskjaraskerðingu og ýmsir vilja vera láta. Ríkisstj. hefur borið fram þá till., að 3 stig verði bætt upp á 1½ árs bili, þannig að varanleg skerðing af þessum sökum verði ekki eins mikil og samkv. hennar upphaflegu till. Því hefur verið haldið fram og blákalt fullyrt, að í þessu fælist kaupbinding. Það hefur aldrei staðið til og er á misskilningi byggt. Á þeim fundi, sem þetta var borið fram við samtalsnefnd launþega Alþýðusambandsins og ríkisstarfsmanna, var það alveg fyrirvaralaust flutt af mér, ekki settur neinn fyrirvari á þetta tilboð, þannig að fullyrðing eins þeirra, sem þar var staddur, um, að þetta hafi verið sett sem skilyrði um kaupbindingu af minni hálfu, sprettur ekki af því, sem ég sagði þar. Ég hygg hins vegar, að hann styðjist við ummæli manna, sem höfðu talað við mig utan fundar, og eitthvað blandazt í meðförum. Hitt er rétt, að við höfum gert ráð fyrir, að ef verkalýðsfélögin bættu sér upp þessa skerðingu, ef þau bættu sér þessa skerðingu upp með grunnkaupshækkunum, væri ekki líka hægt að borga uppætur og vísitöluuppbót, og vænti ég, að allir hv. þm., sem um þetta mál vilja hugsa, geri sér fulla grein fyrir, að það er ekki sanngjarnt. Einmitt þess vegna er þetta sett sem heimild, en vitanlega er það byggt á því, að ef menn una, — sem við skulum segja í dag, að séu ekki miklar líkur til, — ef menn una þeirri lagasetningu, sem hér er sett fram, án þess að grunnkaupshækkanir verði, sé það skuldbinding af hálfu ríkisvaldsins, að þetta skuli greitt. Um þetta má ekki vera neinn vafi, og efniságreiningur getur verið nægur á milli okkar, þó að við séum ekki að búa til ágreining algerlega að tilefnislausu. Eins vil ég algerlega mótmæla því, sem hér kom fram í umr, í dag, að þess mætti vænta samkv. þessum till., að skerðingin sökum vísitölubindingarinnar yrði mun meiri en gert er ráð fyrir í frv. Það hefur einmitt verið glögglega tekið fram, að þessi upptalning er gerð vegna þess, að ríkisstj, vildi láta það ljóst koma fram, hverrar skerðingar væri að vænta, og ef einhver ný skerðing yrði, kæmi hún launþegum til bóta. Þetta veit ég, að viðsemjendur mínir úr stjórn Alþýðusambandsins staðfesta, vegna þess að þetta hefur hvað eftir annað verið fram tekið og einmitt staðfest af formanni Alþýðusambandsins á fundi í stjórnarráðinu nú í vikunni, að um þetta var út af fyrir sig enginn ágreiningur.

Hitt er svo annað mál, að þeir segja, að hér sé um meiri skerðingu að ræða heldur en þeir telja sanngjarnt, að á launþega sé lögð. Það er allt annað mál. Það er efniságreiningur, sem er sjálfsagt að skoða til hlítar og ekki hafa neinar fullyrðingar um, fyrr en allar hugsanlegar leiðir eru kannaðar. En ég hef ekki talið fært, og ríkisstj. er um það sammála, að við höfum ekki talið fært, að ríkisstj. skuldbyndi sig til þess, að engin vísitöluskerðing kæmi til álita. Það væri að vísu hægt að ná samningum um það nú og sleppa út úr þeim vandræðum, sem eru í dag, með því að gefa slíkar yfirlýsingar. En ef slíkt ákvæði væri sett inn, sé ég ekki með nokkru móti samkv. neinni þeirri till., sem enn hefur verið nefnd, hvernig ætti að leysa vanda sjávarútvegsins eftir áramótin.

Það má vel vera, að það þurfi eitthvað meira til, en því hefur verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að ef þetta frv. yrði samþ. og ef það næði efni sínu samkv. fram að ganga, mundum við hafa þær álögur, sem við teldum þörf á og umfram þyrfti að leggja til sjávarútvegsins með þeim hætti, að vísitöluákvæðið tæki þar til. Ef menn hins vegar neita þessu í dag, að slík skerðing gæti komið til greina, getur enginn stjórnandi eða sem ætlar að taka á sig ábyrgð á meðferð mála hér í framtíðinni, gefið slíka yfirlýsingu, vegna þess að hann fer í beina ófærni. Ég tel, að þetta frv. sé forsenda þess, að vandi útgerðarinnar verði leystur, það sé forsenda þess, og þótt það sé ekki öruggt, að allur vandi hennar sé þar með leystur, þá sé þetta stórt og mikilsvert skref áleiðis. Ef menn neita að stíga það skref eða gera það ónýtt, magna þeir vandann, og þá skiptir engu máli, hvort það er núverandi stjórn, samstjórn allra flokka, sem yrði kölluð þjóðstjórn eða hvaða nafni sú stjórn gengi undir, sem við tæki, að samkv. þeim till., sem enn hafa komið fram, sleppa menn ekki hjá einhverri svipaðri kjaraskerðingu og af þessu leiðir.

Með þessu segi ég engan veginn, að það sé endilega útilokað, að önnur en þessi leið ein komi til greina. Ég lýsi því enn og aftur yfir, að ég er reiðubúinn til þess, bæði meðan á meðferð þessa máls stendur og eftir á, hvenær sem menn fást til alvarlegrar viðræðu, að athuga ekki sízt við verkalýðshreyfinguna og hennar fulltrúa, en einnig aðra aðila, sem þar koma við sögu, alla þá möguleika, sem geta leyst vandann. En ég og ríkisstj. erum ófáanleg til þess að fallast á till., sem hljóta að auka vandann og stefna í algera ófæru.

Við skulum láta vera allar hótanir á báða bóga. Málið er allt of alvarlegt til þess. Við skulum bara nota þann tíma, sem við höfum, til þess að íhuga alla þá möguleika, sem eru fyrir hendi, öfgalaust, en með málefnalegum rökum og íhugun þeirra leiða, sem til greina koma, og kanna, hvort hægt sé að ná því, sem ná þarf. Út af fyrir sig er ríkisstj. ekki keppikefli að slíta vísitöluna í sundur, ef hægt er að ná því, sem þarf að ná, með öðrum hætti. Það skulum við kanna enn þá betur en okkur enn hefur tekizt.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði í gær, að ríkisstj. hefði ekkert viljað gera með till. viðræðunefndarinnar, formanns n., um þessa 6 punkta, sem voru settir í allt, og þá 5 punkta, sem settir voru til viðbótar þessu fyrsta óhnekkjanlega skilyrði varðandi vísitöluna. Ég vil ítreka það, sem við höfum marglýst yfir og kemur fram í hinni sameiginlegu stefnuyfirlýsingu, að ríkisstj. lagði til, að frekari viðræður færu fram um ráðstafanir til að bæta innheimtu söluskatts og skatteftirlits yfirleitt, og þetta er varðandi annan punktinn. Við erum fúsir til þess, ef verkalýðshreyfingin vill í raun og veru setja menn til þess að athuga með okkar fulltrúum þau vandamál, sem þarna þarf að leysa. Þá erum við fyllilega fúsir til þess að kanna það til hlítar. Hitt vil ég segja, að það leysir ekki okkar vanda, þó að menn fullyrði hér, að það muni skipta hundruðum millj., sem misfari vegna slaklegrar innheimtu söluskatts og tekju- og eignarskatts. Þetta eru fullyrðingar, sem enginn getur sannað. Hitt er hins vegar hægt að sanna og er óhnekkjanlegt, að innheimta þessara gjalda hefur farið batnandi og mjög batnandi hin síðustu ár, bæði varðandi söluskattinn og tekju- og eignarskatt. Og varðandi tekju- og eignarskatt er nú komið miklu strangara eftirlit heldur en var nokkru sinni áður, þ. á m. þegar okkar hv. stjórnarandstæðingar höfðu meiri áhrif í málefnum ríkisins og ríkisstj. en þeir hafa nú. Ég er ekki að ásaka þá fyrir þetta. Það er eðlilegt, að menn læri smám saman af reynslunni. En það er óhnekkjanlegt, að það er miklu strangara eftirlit heldur en var áður. Við viljum kanna það með öllum góðviljuðum mönnum, hvaða umframráðstafanir er hægt að gera. En við bendum jafnframt á, að hinir fróðustu menn telja, að það séu ekki rök fyrir því að telja, að afföll af söluskattinum séu nema nokkrir tugir milljóna. Þeir tala um 50 millj., það er mikil upphæð líka, en hitt vitum við, að fullkomin verður skattheimta aldrei. Það er talað um 5%. Það getur vel verið, að það sé meira, ég hef ekki þekkingu á þessu. En við erum reiðubúnir til þess að gera í þessu strangari ráðstafanir heldur en hingað til hafa verið gerðar, ef menn telja að athuguðu máli, að líklegt sé, að þær nái ætluðum tilgangi. En skriffinnskan ein stoðar þar ekki. Og það er ljóst, að slíkar ráðstafanir verka ekki nema á löngu tímabili. Það þarf að herða smám saman að, það tekur langan tíma. Eins og ég segi, menn læra þarna af reynslunni. En það er eðlilegt, að þeir, sem ekki hafa undanskotsmöguleika, ætlist til þess, að þessar reglur gangi jafnt yfir alla, þó að við sleppum almennum siðferðisbollaleggingum og löghlýðni og öðru slíku.

Þá höfum við líka fallizt á að taka til athugunar, hvort spara mætti verulegar upphæðir á gjaldabálki fjárl., og við létum stuðning við þá viðleitni koma fram í viðræðum við n. á sínum tíma og lýstum enn yfir vilja okkar við menn frá Alþýðusambandinu s.l. þriðjudag um beina ósk um það, að þeir tilnefndu menn, sem athuguðu með okkur, hvað í þessum efnum væri hægt að gera. En það er hins vegar alveg vitað mál, að raunhæfur sparnaður kemst ekki á nema á löngum tíma. Það er hægt að gera samþykktir um að fella niður ákveðna styrki. Það er hægt að segja, að það eigi að spara svo og svo mikið. En ef það á að komast í framkvæmd og ekki verða glundroði úr, svo að verulegu nemi, þarf skipulagsbreytingar, og slíkt tekur sinn tíma. Fráleitt er, þegar menn eru að tala um það, að ríkið eigi að ganga á undan öðrum með sparnaði og það eigi að hafa hægara um vik heldur en hver einstakur að spara. Sannleikurinn er sá, að sparnaður hjá ríkinu kemur auðvitað fyrst og fremst fram í tvennu, annars vegar í lækkun launa eða í uppsögn manna eða þá, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. vildi, að lækka framlög til skóla, hann taldi, að það gæti betra skipulag komið þar til greina. Það má vel vera, að það mætti koma ódýrari skipulagi á skólana, en það verður ekki heldur gert á einni nóttu. Það tekur langan tíma. En flestir telja, að við þurfum að verja meiru til skóla en gert hefur verið. Og yfirleitt er það svo, að bæði hv. stjórnarandstæðingar, stjórnarstuðningsmenn og allir landsmenn vilja fá sín áhugamál fram. Þar á enginn sparnaður að koma til greina. Að vísu taldi hv. þm. að það mætti draga úr ræktun í sveitum. Ég hef séð hans stóra tún, og hann þekkir það vafalaust vel, að ræktun sé ekki bændum alltaf mjög arðsamleg, ef hún er úr hófi. Hann taldi, að það væri jafnarðsamlegt fyrir bændur að draga úr ræktunaraukningunni. Þarna vitnar hann til þess, sem hann þekkir og vill láta það lenda á sér eða sínum stéttarbræðrum. Það er virðingarvert. Þetta er sjálfsagt að skoða. En ábendingarnar verða að vera í alvöru og gerðar þannig, að það geti komið að raunhæfu gagni. Og þá verður það ekki gert, nema það komi einhvers staðar við. Það skulum við hafa alveg ljóst. Það kemur einhvers staðar við.

Það er að vísu hægt að vissu marki að taka lán til þess að standa undir vissum framkvæmdum. Það er sjálfsagt að athuga þetta einnig. En þá skulum við muna, að okkar vandræði nú, þessi stórkostlega minnkun á útflutningstekjunum, hafa ekki nýzt verkað til þess, að eftirspurnin eftir lánsfé hefur stórkostlega magnazt, um leið og fé, sem kemur inn í bankana til þess að standa undir þessari auknu eftirspurn, er miklu minna en áður, þannig að það er miklu meiri samkeppni um lánaféð en verið hefur, og vitanlega verður að halda þannig á málum nú, eins og ég sagði, þegar ég lagði þetta frv. fram á Alþ., að við eigum frekar að hnika til þeim föstu reglum, sem menn fylgja venjulega, til þess að geta haldið atvinnuvegunum gangandi, heldur en höggva þar á eða skerða. Þetta mál er því vissulega ekki eins einfalt og ýmsir vilja vera láta. Það er auðvitað ætíð svo, að sitthvað fer í súginn, bæði hjá þessari ríkisstj. og öllum öðrum. Það má benda á, að þetta hefði verið hægt að spara og þetta. Venjulega eru það svo litlar upphæðir, að þær skipta engu máli. Aðalatriðið er, að ríkissjóður er til þess bæði að halda uppi lífsnauðsynlegri þjónustu fyrir almenning, til þess að annast framkvæmdir í landinu, sem enginn okkar vill án vera, og til stórkostlegrar tekjujöfnunar einnig, bæði í tryggingum og niðurgreiðslum, eins og nú kemur fram, þegar niðurgreiðslurnar hafa verið minnkaðar, alveg gagnstætt því, sem ýmsir hafa haldið fram til þessa, þegar þeir hafa sagt, að niðurgreiðslurnar væru eingöngu til þess að skekkja efnahagskerfið og kasta ryki í augu almennings.

Þá er einnig rætt um kröfu nefndarinnar, að verðlagsákvæði verði gerð víðtækari og verðlagseftirlit. Við höfum tekið undir, að þetta væri rétt að athuga. Ég vil hins vegar segja, að það hefur margt komið fram, sem sýnir grundvallaðan misskilning á eðli þessa máls eins og margs annars í þessum umr. Í fyrsta lagi er nú það, að bæði einstaklingsverzlun og samvinnuverzlun hafa á undanförnum árum talið, að hagur sinn væri allt of þröngur, og þetta hefur átt við bæði um smásöluverzlunina og innflutningsverzlunina. Og ég veit ekki betur en að bæði stærsti innflytjandinn, SÍS, og einn stærsti eða stærsti smásalinn í landinu, KRON, kvarti hástöfum yfir því, að sinn hlutur sé allt of þröngur. Og það eru margir, sem halda því fram, að ókyrrð hv. framsóknarmanna og tal um stefnubreytingu stafi ekki sízt af því, að þeir vilji á ný geta skapað SÍS forréttindaaðstöðu, svipað og það félag hafði áður, til þess að nýr blómgunartími geti þar hafizt, sem það virðist ekki hafa haft, meðan það hefur orðið að sitja við sama hlut og önnur fyrirtæki. Þetta skal ég ekki frekar rekja.

En það er engan veginn einhlítt, þó að á það sé bent, að álagningarprósenta hafi hækkað. Það er engan veginn einhlítt. Hvorki sannar það, að slíkt hafi ekki verið nauðsynlegt til þess að fá aukinn kostnað uppbættan, en einnig hitt, sem ætíð hefur verið lögð höfuðáherzla á af öllum málsvörum verzlunar í landinu, að þeir segja: Ef prósentuálagning er höfð, þá er það til þess að ýta undir óhagkvæm innkaup, — eins og við sjáum nú af því, sem gerðist ekki alls fyrir löngu í viðureign kaupmanna og fyrirtækisins Hagkaupa. Vafalaust er Hagkaup ekki rekið sem neitt góðgerðarfyrirtæki. Vafalaust ætlar eigandi þess sér sinn ágóða af sínu fyrirtæki, ekki síður en aðrir. Vafalaust telur hann sig ná þeim ágóða með hagkvæmari innkaupum en aðrir, en út af fyrir sig ekki með lægri álagningarprósentu, a. m. k. ekki almennt. (Gripið fram í). Jú, jú, það er margt, sem þarna kemur til álita, og ég segi: Þetta skulum við skoða alveg til hlítar. Við skulum skoða þetta, ekki með lauslegum fullyrðingum, ekki með því, að menn sitji saman yfir eina helgi og velti vöngum og segi, það má reikna svo og svo mikinn sparnað þarna. Það er margt fleira, sem þarna kemur til álita, og ef þetta á að verða að gagni, þá verður það að vera raunhæf ráðstöfun, en ekki tal.

Við sáum, að jafnvel hinum allra glöggskyggnustu mönnum, tölvísum, og þeim, sem vilja að þessu sinni ræða málin með rökum, eins og hv. 4. þm. Austf., — honum skauzt mjög, þegar hann fór að ræða um þessi mál. Hann talaði um það, að fjárfesting í verzlun hefði aukizt á síðustu 5–6 árum jafnmikið og fjárfesting eða fjármunamyndun í sjávarútvegi. Þarna sleppti hv. þm. að vísu því úr, að flestir mundu, þegar talað er um sjávarútveg, halda, að þar væru fiskvinnslustöðvar einnig meðtaldar, en þær eru ekki með í þessum tölum. Fjárfestingin þar hefur verið ámóta mikil og hvor hinna um sig. Þetta er það fyrsta, sem þarna kemur til athugunar. Enn fremur er svo það, að þegar um þessa fjárfestingu í verzlun er að ræða, þá kemur inn sitthvað annað undir þeim lið. Þar eru t.d. talin ný gistihús, hótel í landinu, þ. á m. í þessum tölum, sem hv. þm. nefndi, hið nýja Loftleiðahótel á Reykjavíkurflugvelli og fleiri sams konar byggingar um landið. En það eru ekki einungis hótelin, heldur líka olíustöðvar, sem taldar eru, þ. á m. hin mikla olíustöð eða geymir, sem var reistur á Austfjörðum ekki alls fyrir löngu. Þetta verður að hafa í huga. En þá er einnig á það að líta um báta, sem keyptir hafa verið erlendis frá, að þar hefur verðlag ekki hækkað eins mikið og hér innanlands, þar sem verðlag hefur hins vegar farið, eins og við vitum, því miður stórhækkandi, við játum allir meira en góðu hófi gegnir, svo að samanburður að þessu leyti á milli ára er ekki réttmætur, nema allt sé reiknað til fasts verðlags. Ef allt þetta er tekið með í reikninginn, þá lítur þetta dæmi allt öðruvísi út en hv. 4. þm. Austf. hélt fram. Mér er nær að halda, að þá sé fjárfesting í verzlun ekki nema kannske einn þriðjungur miðað við það, sem er í sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Nú má vel vera, að þetta sé engu að síður of mikil fjárfesting, ég skal ekkert um það segja. Hitt vitum við, að það var orðin mjög mikil þörf á byggingu verzlunarhúsnæðis hér í Reykjavík vegna þess, að allt aðrar fjárfestingarreglur hafa verið látnar gilda hér árum saman heldur en úti um land, sbr. kaupfélagahallirnar, sem reistar voru úti um land, á meðan bann var við slíkum byggingum hér í bænum. Þannig má segja, að á vissu tímabili hafi komið óeðlileg eða óvenjuleg þensla í þessar byggingar til þess að bæta úr þörf, sem hafði skapazt. Nú skilst mér, að sú þörf fari minnkandi, þannig að eftirspurnin sé mun minni en áður var. Í þessu sambandi er einnig rétt að minnast á, — það mátti kannske líka varðandi tekjur ríkissjóðs, það skiptir ekki máli, það, sem ég hygg, að hv. 9. þm. Reykv. hafi drepið á í gær, — hann taldi, að hér væri mjög mikið smygl, sem m.a. lýsti sér í því, að Seðlabankinn mundi á þessu ári hafa fengið íslenzka seðla erlendis frá, sem næmi 300 millj. kr., og taldi, að skýringin á þessu væri sú, að hér væri um stórkostlegt vörusmygl að ræða, sem hann bæði lagði í vissum tilfellum verzluninni til áfellis og í öðru lagi benti á, að ríkið gæti fengið stórauknar tekjur, ef komið væri í veg fyrir það. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, námu slík kaup Seðlabankans á tímabilinu 1. jan. til 31. ágúst 100 millj. kr., einungis 100 millj. kr. Það þótti óhæfilega há upphæð, og þess vegna var sett þessi regla um bann við útflutningi þúsund króna seðla, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. drap á í gamanræðu sinni hér í gær. En það hefur komið í ljós, að eftir að þessar reglur fóru að verka, hefur mjög verulega dregið úr þessum innflutningi, ef svo má kalla. Þarna er enn eitt dæmi þess, að nýjar og strangari reglur hafa verið settar og hafa haft nokkur áhrif, í þessu tilfelli veruleg áhrif.

Það er einnig rétt, að það komi fram, — það er alveg ástæðulaust að þegja um það, — að í því viðtali, sem ég og hæstv. sjútvmrh. áttum við fulltrúa yfirmanna á farskipum nú á dögunum, var það talin ein meginástæðan fyrir því verkfalli, sem þar hefur skollið á og er mjög annars eðlis en þau viðbrögð, sem verkalýðsfélögin í heild eru nú að tala um, það skal ég játa, en þar var talið, að ein af aðalorsökunum væri nýjar og strangari gjaldeyris- og tollareglur en áður. Þetta er aðeins eitt vitni þess, að sú viðleitni ríkisstj. að framfylgja lögum betur en áður hefur þegar haft mjög veruleg áhrif. Framhjá hinu skulum við ekki ganga, að auðvitað verða bæði hér á landi eins og annars staðar einhver lögbrot, menn hafa reynt að skjóta sér fram hjá skattalögum og annarri löggjöf, það hefur verið í öllum þjóðfélögum, frá því að þau fyrst mynduðust. Það er einungis vinur vor, Brynjólfur Bjarnason, sem trúir því, að ný manngerð sé sköpuð í Rússlandi, þar sem fólkið sé orðið algott. Það var eins og goodtemplarinn, sem fór þangað austur um árið og sagði, að Sovét-Rússar væru búnir að leysa vandamál áfengisins í eitt skipti fyrir öll. A. m. k. gera þeir það ekki með því að veita ekki áfengi, það vitum við, sem höfum heimsótt þá, jafnvel hér, að þeir eru háðir mannlegum breyskleikum alveg eins og við hinir, jafnvel þótt þeir hafi haft slíka siðameistara eins og Vishinsky og aðra mannvini til þess að kenna sér manngæzku

Varðandi iðnframleiðsluna er enginn ágreiningur okkar á milli um það, að að svo miklu leyti sem hægt er með jafngóðum árangri í landinu sjálfu að framleiða íslenzka vöru, á að gera það. Þar kemur hins vegar alltaf til mat, hvað er jafngóður árangur, og það má vel vera, að stjórnvöldin hafi ekki ætíð verið nógu fljót í vöfum með að breyta tollareglum, sérataklega varðandi hráefni og fullunna vöru. Það er eitt af því, sem horfir til endurskoðunar og maður getur við mann sagt, það erum ekki við frekar en aðrir, sem undir þá sök erum seldir.

Varðandi 6. liðinn er aftur á móti það, að við höfum ekki talið verjanlegt, eins og sakir standa, — ég legg áherzlu á það, — að afgreiða fjárlög með tekjuhalla, vegna þess að slíkt mundi horfa til aukinnar eyðslu á okkar gjaldeyrisvarasjóði, sem þegar hefur mjög gengið á af þeim orsökum, sem ég hef áður gert grein fyrir og í raun og veru allir aðrir en nokkur hluti framsóknarmanna viðurkenna, að séu til þess lagaðar að skapa stórkostlega örðugleika fyrir landslýðinn.

Ég tel þess vegna, að hv. 9. þm. Reykv. hafi sagt í sinni annars hófsömu ræðu í gær of mikið, þegar hann sagði, að ríkisstj. hefði ekkert viljað með þessar till. hafa. Það er ekki rétt. Hann gat þess að vísu líka í öðru sambandi, að við hefðum lýst því yfir, að við skyldum taka til athugunar bæði varðandi nánari skoðun á álagningu og útgjöldum ríkisins, svo að okkur ber ekki svo mikið á milli, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn.

Ég endurtek það, sem ég sagði áður, að það getur engin ríkisstj., sem er sér vitandi um þá ábyrgð, sem á henni hvílir, fallizt á till., sem hún sér, að hljóti að leiða út í ófæru. Nú segja hv. stjórnarandstæðingar: En till. ríkisstj. leiða líka út í ófæru. — Ég segi: Ef það er svo, þurfum við að skoða þetta mál enn þá betur. Við þurfum að kanna það til hlítar, áður en til hins versta kemur, hvort hér eru einhverjar leiðir, sem gera fært að afstýra vandræðum í þjóðfélaginu, — ekki að afstýra því, að þjóðin taki á sig kjaraskerðingu, það er alveg vonlaust að tala um það sem möguleika. Hitt má skoða og verður að skoða, og við erum enginn of góður til þess að leggja okkur alla fram, og við eigum ekki að láta brigzl eða hótanir eða neitt verka á okkur til þess að draga úr þeim hug okkar að kanna: Er hægt að finna réttlátari leið til þess að jafna þessari byrði heldur en er í till. ríkisstj.? Við höfum ekki enn þá fengið þær till. frá hv. stjórnarandstöðu. Við færum fullgild rök að því, að hennar till. leysa ekki þann vanda, sem hér er við að etja, þó að þar sé um sumt, eins og ég hef sagt, vikið að málefnum, sem út af fyrir sig þurfa úrlausnar og verður að vinna að því, að lausn fáist á.

Ég játa, að það er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. segir og raunar hv. 4. þm. Reykv. tók undir, að það eru sumir þjóðfélagsþegnar, sem þegar hafa orðið fyrir barðinu á þessum samdrætti. En það eru ekki allir. Það er ljóst, að sjómenn hafa þegar orðið fyrir barðinu á þessum samdrætti. En þá er að vísu þess að gæta, að fyrir alla þá, sem ekki eru eingöngu háðir kauptryggingu, hefur vísitölubinding ekki þýðingu. Við skulum minnast þess, að vísitölubindingin hefur ekki þýðingu fyrir þá. En fyrir launþega, sem hafa misst vinnu vegna samdráttar, er það rétt, að þeir hafa orðið verr úti en fastlaunafólk, sem gengur að sínu á þurru. Og ég segi, að það er mjög mikilsvert að fá slíka ábendingu einmitt frá formanni BSRB, að vekja athygli á þessum mikla mun, sem er hjá fastlaunafólki, sem heldur sínu, hvað sem atvinnuástandinu í landinu líður, og verkalýðnum, sem verður fyrir skerðingu. Nú tel ég, að því miður verði ekki komizt hjá skerðingu einnig fyrir verkalýðinn í auknum mæli við það, sem þegar er fram komið. En þetta er sjálfsagt að hafa í huga, og það er sjálfsagt að skoða málið í ljósi þessarar ótvíræðu yfirlýsingar og einmitt þess, sem er höfuðkjarninn í málssókn hv. stjórnarandstæðinga, þegar þeir tala með rökum á móti þessu frv.

Ég tel, að bæði þessi hugsun, sem þeir hafa varpað fram, og fleiri atriði geti fyllilega komið til íhugunar. Ég tel, að það sé nauðsynlegt, að þetta frv. gangi sinn gang í þinginu. Við urðum við þeirri ósk að stöðva málið — eða fresta því raunar mun lengur en upphaflega var farið fram á við okkur. En þær viðræður hafa ekki leitt til samkomulags, en sem betur fer fóru þær fram í þeim anda, að við getum vel haldið áfram að tala saman um þann vanda, sem á okkur hvílir, og vanda, sem við sleppum ekki undan. Það stendur á sama, hvort einhver er í ríkisstj., hvort hann er utan stjórnar, hvort hann er með stjórninni eða á móti, hvort hann er hátekjumaður eða lágtekjumaður, undan afleiðingum þess áfalls, sem íslenzkt þjóðarbú hefur orðið fyrir, komast menn ekki. Viðurkenning á þessu hefur skýrlega komið fram í viðræðunefndinni, og ég tel þá viðurkenningu vera ákaflega þýðingarmikla. Ég tel það líka vinning, þó að það leysi ekki það vandamál, sem við verðum að leysa, að launþegar vilja nú taka upp nýju vísitöluna. Þeir gera það að vísu vegna þess, að þeir telja það sinn frambúðarhag, og það er skýrt tekið fram af þeim. En það stendur eftir óhaggað, að ef löggjöfinni væri ekki breytt, mundu atvinnurekendur nú þurfa að borga 3½% meira en þeir þurfa samkv. nýju vísitölunni, og það er strax vinningur, það gerir þetta dæmi léttara. (Gripið fram í). Það gerir dæmið léttara, það er ómótmælanlegt, en það gerir að vísu ýmsa örðugleika í framtíðinni, en sleppum þeim. En það er eftirtektarvert og sýnir, hverjir vilja leysa þetta mál og hverjir ekki, að hv. þm., sem talaði hér næstsíðast, réðst mjög harkalega á þessa nýju vísitölu, — mjög harkalega á hana og taldi, að þar væri valdboð, sem ríkisstj. væri að setja á til þess að níðast á verkalýðnum, — eftir að hann er búinn að heyra sjálfan forseta Alþýðusambands Íslands lýsa yfir því, að þetta sé verkalýðnum til frambúðar til hagsbóta, og eftir að jafnvel 4. þm. Reykv. er næstur á undan honum búinn að segja, að þetta sé launþegum til hagsbóta, þá sýnir þessi hv. þm., að hann var búinn að læra lexíuna, áður en hann fékk þessa upplýsingu, og segir, að þetta sé ein af kúgunarráðstöfunum ríkisstj. Það er ekki spanderandi mörgum orðum Á slíka herra sannast að segja.

En þó að verkalýðshreyfingin viti, að hún er að vinna sér til hags, er engu að síður sjálfsagt að viðurkenna, að hún gerir þetta líka af því, að hún veit, að það er þjóðarþörf. Hún gerir það vegna þess, að hún veit, að það er þjóðarþörf og það er hennar eigin þörf að sporna við afleiðingum þeirra örðugleika, sem nú er við að etja.

Það sýnir svo skilninginn, sem sumir hafa á því, sem hér er um að ræða, að í Tímanum er fullyrt í morgun með mjög stórum stöfum, að ríkisstj. hafi neitað að taka við 4.4% kaupskerðingu eða kjaraskerðingu hjá verkalýðnum. Þarna hefur nú eitthvað blandazt um fróðleikinn eins og oftar hjá þessum hv. andmælendum frv. Við vitum, að það er nóg af mönnum, sem nú vilja koma illu af stað, sem vilja nota þessa örðugleika í annarlegu skyni. Ég er hins vegar sannfærður um það, að þó að okkur beri á milli, aðaltalsmönnum verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj., um lausn þessa vandamáls og hvernig hægt sé að koma fyrir sem réttlátastri skiptingu þessara byrða, er okkur öllum ljós sú ábyrgð, sem á okkur hvílir, að þjóðfélagið lendi ekki í upplausn og ekki verði farið þannig að, að hörmungartímabil eins og á árunum 1930–1940 hefjist á ný á Íslandi. Þess vegna tel ég, að það sé ástæðulaust að gera meira úr því, sem okkur ber á milli, heldur en efni standa til, heldur beri enn að leita eftir leiðum til þess að kanna til þrautar, hvort hér hljóti að verða þau átök, sem allir munu tapa á.