16.11.1967
Neðri deild: 19. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú orðið alllangar og miklar, og þar sem ég veit, að gert hefur verið ráð fyrir að ljúka þessari umr. nú í dag, mun ég nú ekki fara að hefja hér umr. að nýju um þau málefni, sem hér hafa að vísu fram komið og vissulega hefði nú verið ástæða til þess að víkja að. Ég ætla því aðeins að þessu sinni að gera hér stutta grein fyrir brtt., sem ég flyt við frv., og útbýtt hefur verið og er á þskj. 64. En í þessari brtt. legg ég til, að gerð verði lítils háttar breyting á 15. gr. frv. í samræmi við það, sem samtök frystihúsamanna hafa óskað eftir. En eins og kunnugt er, er verðjöfnunarsjóður sá, sem stofnaður hefur verið til verðjöfnunar vegna verðfalls á frystum fiskafurðum og var stofnaður á s.l. ári með samkomulagi við frystihúsamenn, — hann var stofnaður með þeim hætti í fyrra, að gert var ráð fyrir því, að úr sjóðnum yrðu ekki greiddar neinar bætur vegna verðfalls á síldar- og loðnuafurðum, þó að þar væri um frosnar fiskafurðir að ræða. Þessar afurðir voru undanskildar, þegar l. voru sett í fyrra, vegna þess að í þessum tilfellum var ekki um neina teljandi verðlækkun að ræða frá því, sem verið hafði um alllangan tíma. Nú hefur hins vegar orðið veruleg breyting í þessum efnum, og svo er komið, að það er þegar farið að draga mjög alvarlega úr frystingu á síld til útflutnings vegna verðfallsins og vegna rekstrarerfiðleika í þessum efnum, og það hefur ekki þótt tiltækilegt að lækka hráefnisverðið á síldinni í þessa framleiðslu vegna þarfa bátaútvegsins, og það er því kominn upp sams konar vandi í sambandi við þessa frystivöru eins og aðrar, og því sé ég ekki ástæðu til þess að halda þeim ákvæðum áfram í l. að banna það með öllu, að það megi taka tillit til þessa verðfalls á frosnum síldarafurðum, eins og er í l. frá því í fyrra.

Í minni till. er ekki gert ráð fyrir því, að því sé slegið föstu, að úr þessum sjóði verði greiddar verðbætur út á frosnar síldarafurðir, en hins vegar gert ráð fyrir því, að ráðh. hafi heimild til þess að ákveða að bætur úr þessum sjóði geti einnig komið á þessa vöru, ef sem sagt samkomulag yrði um það á milli ráðh. og framleiðenda. Hér er ekki um það að ræða að breyta á neinn hátt þeirri fjárhæð, sem á að skipta úr þeim verðjöfnunarsjóði, sem til er, en aðeins um það að ræða að gera mönnum kleift að halda uppi þessari framleiðslu alveg eins og í öðrum greinum. Ég tel það svo alveg sjálfsagt, að ráðh. hafi þessa heimild, og því flyt ég þessa brtt., sem er hér að finna á þskj. 64. En brtt. er þannig orðuð, að við gr. skuli bætast:

„Þrátt fyrir ákvæði í 14. og 15. gr., getur ráðh. ákveðið, að verðbætur úr sjóðnum nái einnig til frystra síldarafurða.“

Þetta er sem sé till., sem mér þykir alveg sjálfsagt, að verði hér samþ. og í samræmi við óskir frystihúsamanna eða þær óskir, sem fram hafa komið í bréfi frá þeim til fjhn.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að þessu sinni um þetta mál. Hér fara fram útvarpsumr. um það við 3. umr., og ég sé því ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. meira en orðið er að þessu sinni um stefnuna í efnahagsmálum almennt, en af skiljanlegum ástæðum hafa umr. hér um þetta mál fyrst og fremst verið á mjög breiðum grundvelli um stefnuna í efnahagsmálum.