05.12.1967
Neðri deild: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

68. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju, að þessu vandamáli, sem hér er á dagskrá, sé hreyft, enda hefur hv. flm., 5. þm. Norðurl. v., gert það áður. Það fer vel á því, að einmitt hann, sem er nafntogaður og atorkusamur útvegsbóndi og hefur þar af leiðandi náin kynni af því, sem hann er hér að fjalla um, skuli flytja þetta mál nú, og ég er honum alveg sammála um, að hvorki ríkisstj.Alþ. megi koma sér hjá því að taka afstöðu til þessa mikla vandamáls, og því verður ekki á frest skotið lengur.

Landhelgin er ein af okkar dýrmætustu verðmætum, segjum við sjálfir, og við höfum allir verið sammála um að berjast fyrir því að víkka út landhelgina, fá útfærslu hennar sem mesta, og einnig leggjum við mikla fjármuni í að verja landhelgina og þetta er auðvitað frá því grundvallarsjónarmiði, að landhelgina eigum við Íslendingar sjálfir, en þá ber okkur einnig skylda til þess að hagnýta landhelgina sem bezt fyrir núlífandi kynslóð til styrktar okkar eigin efnahagslífi. En við höfum einnig skyldur gagnvart öðrum og skyldu gagnvart komandi kynslóðum að hagnýta landhelgina með þeim hætti, að við ekki göngum of mikið á fiskistofnana, að rányrkjan segi ekki til sín í það ríkum mæli, að þessi fjársjóður gangi til þurrðar, og ekki aðeins gagnvart komandi kynslóðum. Það má segja, að við höfum líka í þessu efni skyldur gagnvart öðrum fiskveiðaþjóðum um að rányrkja ekki fiskistofnana. En engu að síður er það meginsjónarmiðið, að þennan fjársjóð og þau verðmæti, sem í honum felast, landhelginni íslenzku, eigum við og til þess ber okkur skylda, að hún sé á hverjum tíma skynsamlega og réttilega hagnýtt.

Hv. flm. vék að því, að honum hefði verið tjáð, að ríkisstj. hefði þetta mál til athugunar, þetta vandamál, hvernig við bezt getum hagnýtt landhelgina, og það er að sjálfsögðu alveg rétt. Það hefur lengi verið áhyggjuefni innan ríkisstj., það ástand mála, sem nú ríkir á þessu sviði, og ég efast ekki um, að það hafi einnig verið áhyggjuefni innan stjórnarandstöðuflokka jafnt og stjórnarflokkanna. En ég hygg, að það væri, og þess vegna hefur kannske ekki málið komið eins mikið upp á yfirborðið af hálfu ríkisstj., æskilegast, að við reyndum að íhuga þetta vandamál á sem víðtækustum grundvelli, þó með það hiklaust fyrir augum, að einhver afgreiðsla málsins hljótist á þessu þingi, sú bezta, sem við getum komið okkur saman um. Og þá á ég ekki aðeins við það, að það geti orðið sem víðtækast samkomulag milli stjórnarflokka ríkisstj. og stjórnarandstöðu, heldur einnig þingsins í heild, því að við vitum, að þetta vandamál er raunar ekki þannig, að menn greinist í þessa og þessa afstöðu eftir því, hvar í flokki þeir standa, heldur fer það einnig eftir búsetu og hagsmunum hinna einstöku kjördæma. Ég teldi því, að það væri mjög æskileg meðferð á þessu máli, að það færi á þessu fyrsta stigi til n., án nokkurra verulegra umr., þannig að menn bindi sig ekki um of fyrirfram, áður en það hefur gefizt kostur á því að ræða þessi mál meira á milli flokkanna og reynt hefur verið, eins og reyndar hefur verið í hugum manna innan ríkisstj., að ná einhverri samstöðu um breytingar á framkvæmd þessara mála. Ég er alveg sammála hv. flm. um, að hún getur ekki gengið, eins og verið hefur, framkvæmdin á vissum þáttum í hagnýtingu og gæzlu landhelginnar, en inn í það bætist svo einnig það, sem hann vék mjög ýtarlega að, að við látum kannske fara fram hjá okkur stórkostleg verðmæti og hagnýtum ekki veiðitækni og veiðiaðferðir, sem e. t. v. eru þær hagkvæmustu fyrir okkur á vissum stöðum, en þó er ómögulegt að neita því, að þær hafa alltaf verið mjög umdeildar.

Ég skal þess vegna ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég vildi taka undir, að Alþ. á ekki að skjóta sér undan að taka þetta mál til alvarlegrar meðferðar nú, áður en störfum þess lýkur og afgreiða það sem fyrst, en þó þannig, að gefist tóm til þess að ná sem allra breiðastri samstöðu innan þingsins um þetta vandamál. Ég þarf ekki að skýra það fyrir þm., vegna hvers ég óska þess. Það er, held ég, af svo augsýnilegum ástæðum. Við höfum alltaf reynt að ná sem víðtækastri samstöðu í sambandi við löggjöf og framkvæmd, sem er í tengslum við landhelgina og hagnýtingu hennar, og það fer bezt á því, að það verði svo enn, en í dag erum við svo á vegi staddir, að við þurfum að taka höndum saman og leita raunhæfra úrbóta á þessu sviði.