23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

88. mál, tollskrá

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er tekið fyrir, er 88. mál á þskj. 200, sem er breyting á l. nr. 7 29. apríl 1963, um tollskrá o. fl., og l. nr. 11 24. apríl 1965 um breyt. á þeim l. Ég hef leyft mér að leggja þetta frv. fram ásamt fjórum hv. alþm. Framsfl. hér í hv. d., þeim hv. 1. þm. Austf., hv. 2. þm. Sunnl., hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 5. þm. Norðurl. v. Þetta frv. er um það, að við leggjum til, að afnumdir verði alveg tollar af eftirfarandi tækjum: Tönkum úr ryðfríu stáli, sérstaklega fyrir mjólk, heyblásurum og heyblásurum til að færa hey, ámoksturstækjum við almennar hjóladráttarvélar, plógum, herfum, áburðardreifurum, öðrum jarðræktarvélum, öðrum sláttuvélum, upptökuvélum fyrir kartöflur' og aðra garðávexti, rakstrar- og snúningsvélum, flokkunarvélum, mjólkurbúsvélum og mjaltavélum, mjólkurvinnsluvélum og almennum hjóladráttarvélum. 2. gr. frv. er svo hljóðandi:

„Á 3. gr. l. sbr. l. nr. 17 1966 er gerð þessi breyting :

Á eftir 46. tölul. komi nýr liður svo hljóðandi: Að endurgreiða ræktunarsamböndum aðflutningsgjöld af skurðgröfum og jarðýtum.“

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp grg. Hún er stutt, en segir töluvert, með leyfi forseta: „Með frv. þessu leggja flm. til, að landbúnaðarvélar verði tollfrjálsar. Í gildandi l. eru flestar landbúnaðarvélar í 10% tolli, nema sumar stærri vélar t.d. jarðýtur og skurðgröfur, sem eru í 25% tolli. Eftir breytingu á gengi krónunnar, sem gerð var í nóvembermánuði s.l., hafa tollarnir mikil áhrif til hækkunar á verði þessara véla, sem var þó nógu hátt fyrir, miðað við þann þrönga stakk, sem þessum atvinnuvegi er nú skorinn. Sýnist einnig af þeirri ástæðu fullt tilefni til þess að draga úr þeim hækkunum, sem af gengisfellingunni leiðir. Með auknum tæknibúnaði búanna mun verð þessara tækja í ört vaxandi mæli hafa áhrif á verð búvara til neytenda, og er þá lítill ávinningur að því fyrir þá eða þjóðfélagið í heild að tolla þessi tæki. Ekki er líklegt, að bændur sætti sig við það til langframa, að aðeins lítill hluti af því fjármagni, sem liggur í tæknibúnaði búanna, sé tekinn til greina við verðlagningu landbúnaðarvara, eins og nú á sér stað. Flm. telja, að hlutur landbúnaðarins verði bezt tryggður með því að lækka sem mest framleiðslukostnað búanna, og ekki er líklegt, að það verði gert á annan veg en með aukinni tækni og hóflegu verði á rekstrarvörum og tæknibúnaði ásamt viðunanlegum kjörum á stofn- og rekstrarlánum. Þegar til lengdar lætur verður neytendum bezt tryggðar góðar og ódýrar landbúnaðarvörur með því að búa þannig að bændastéttinni, að hún sé þess megnug að taka vaxandi tækni í þjónustu sína. Þar af leiðir, að þarna fara saman hagsmunir bænda og launþega, svo og í mörgu öðru, þegar vel að gætt.“

Eins og segir í grg. „mundi verð á öllum landbúnaðarvélum hækka mjög tilfinnanlega af völdum gengisbreytingarinnar, ef tollar verða óbreyttir.“

Eftir að yfirdómur úrskurðaði búvöruverðið í vetur, og fram kom, að bændur fengu enga hækkun, þrátt fyrir skýlausan lagalegan rétt þeirra til talsverðrar hækkunar, ákváðum við flm. þessa frv. að leggja þetta frv. fram og freista þess á þann hátt að draga sem mest úr áhrifum gengisfellingarinnar á þessi tæki, sem hafa mjög mikla þýðingu um afkomu og framtíð landbúnaðarins og á búvöruverðið til neytanda, þegar til lengdar lætur. Eins og nú er málum komið er útilokað að reka landbúnað án mikilla framkvæmda í byggingum og ræktun og sem fullkomnasts tæknibúnaðar. Framfarir á þessum sviðum eru svo stórstígar, að þær kalla á breytingar og meiri vélakaup að einhverju leyti næstum að segja ár hvert. Svo örar hafa framfarirnar orðið á sumum sviðum, að komið hefur fyrir, að vél, sem keypt var í fyrra, er orðin úrelt í ár, vegna þess að enn fullkomnari vél er komin 4 markaðinn, það fullkomnari, að það borgar sig að kaupa nýju vélina og leggja hina til hliðar. Þannig hefur verið með t.d. rakstrar- og snúningsvélar.

Framfarirnar í landbúnaðinum sjást bezt á því, að um aldamótin síðustu voru 71.3% af þjóðinni í sveitum landsins, en nú ekki nema 14% í mesta lagi. Á þessu tímabili hefur þjóðinni fjölgað úr 78 þús. 470 manns í um 200 þús. að talið er. Í sveitunum hefur fækkað því sem næst um helming að tölu til, þó er t.d. nautgripaeign landsmanna nú sú sama á hvern íbúa og hún var um aldamót, eða um 0,3 nautgripir á hvern íbúa. Framleiðslumagnið hefur einnig vaxið mikið á hvern grip á þessu tímabili. Sauðfé hefur fjölgað minna, eða tæplega tvöfaldast, en hrossum aftur á móti fækkað nokkuð. Slík afurðaaukning á hvern mann gat ekki átt sér stað án mikillar tækni, og enn heldur þróunin ört áfram og krefst mikilla fjármuna til enn aukinnar tækni til að minnka sem allra mest hlutfall vinnumannsins í framleiðslunni, sem hefur orðið og mun í vaxandi mæli verka á verð búvörunnar til lækkunar til neytendanna, sé rétt að verið.

Nú hefur það skeð, eins og áður var að vikið, að þrátt fyrir mjög mikinn framleiðslukostnað og minni afurðir búanna á síðasta verðlagsári, fengu bændur enga hækkun á búvöruverðinu. Síðan kom gengislækkunin, og áhrif hennar hafa ekki verið tekin inn í búvöruverðið, nema að litlum hluta. T. d. fengu bændur ekki hækkun á, nema sem svarar til helmings þess magns, sem þeir keyptu af kjarnfóðri miðað við notkun síðasta ár, og þá er víst, að kjarnfóðursgjöfin verður til muna meiri á þessu ári, en í fyrra. Magn það, sem yfirdómur úrskurðaði, að grundvallarbúið notaði, voru 4 þús. 663 kg. af kjarnfóðri, og bændur munu vera nú um 5 þús. og 700 að tölu. Þá skilst mér, að þessi hækkun sé alls ekki full hækkun að prósentutölu til, eftir upplýsingum innflytjanda þessara vara. Eftir þessu kemur þessi hækkun á um 26 þús. og 600 tonn, en innflutningurinn varð yfir 60 þús. tonn síðasta ár, en við það bætist innlent fóðurmjöl. Einhver hluti af þessu fóðri fer að vísu í hænsni, svín og hesta. Það er sjálfsagt ekki ofsagt, að bændur að meðaltali hafi notað helmingi meira magn en reiknað er með í verðlagsgrundvellinum þetta síðasta ár, og alveg víst, að á þessum vetri verður að kaupa enn meira magn, vegna fóðurskorts um allt land, sennilega ekki minna en 70 þús. tonn, að kunnugir telja.

Sé það rétt, sem innflytjendur gefa upp, að hækkunin vegna gengisfellingarinnar á fóðurmjöli sé um 30%, nemur hækkunin af völdum gengisfellingarinnar 105 millj., en sú hækkun, sem tekin var inn í búvöruverðið, mun ekki vera meira en 33.7 millj., þá vantar bændur af þessum eina lið yfir 70 millj. miðað við það, að fullt verð fáist á framleiðsluna. Áburður var seldur fyrir yfir 200 millj. á síðasta ári, þar af rúmur helmingur innfluttur áburður. Meðalhækkun á honum verður 25–30% eða 55–60 milljónir. Engin hækkun mun fást vegna hans, fyrr en næsti verðlagsgrundvöllur verður tilbúinn. Hvort það verður fyrir næstu jól eða ekki, veit enginn, en lítið verður borgað með áhrifum frá honum á þessu ári. Ótaldir eru svo allir aðrir liðir, sem hækka af völdum gengisfellingarinnar, svo sem vélar, verkfæri og varahlutir til þeirra, olíur o. m. fl.

Nú hefur komið í ljós, að útflutningssjóðurinn mun hvergi nærri geta valdið hlutverki sínu fremur en á síðasta ári. Hann mun ekki hafa til umráða nema 250 milljónir að talið er, en útflutningsstyrkjaþörfin mun vera upp í 340–350 millj., eða það vantar fast að 100 milljónum, sem sé 4% upp á að fullt verð fáist á alla framleiðsluna. Þetta er svipuð tala og verðlagsgrundvöllurinn hefur hækkað, bæði vegna vísitöluuppbóta á kaup 1. des. og áhrifa af völdum gengisfellingarinnar 1. jan., en þessar hækkanir báðar námu tæplega 5%.

Á þessu sést, að það lítur helzt út fyrir, að bændur verði að þola bótalaust með öllu þær verðlækkanir, sem af gengisfellingunni leiða. Við það bætast stóraukin kjarnfóðurskaup og hart árferði. Þeir, sem fylgjast með þessum málum, sjá, að nú er stefnt út í hreinar ógöngur, og mönnum er það algerlega hulið, hvernig bændur eiga að standa undir þessum hækkunum öllum bótalaust, þegar við það bætist svo, að þeir höfðu ekki nema hálfar tekjur viðmiðunarstéttanna árið 1966. Af framansögðu er ljóst, að full ástæða er til að draga úr öllum hækkunum á rekstrar- og fjárfestingarvörum landbúnaðarins, og þetta frv. er spor í þá átt.

Þar sem ég tel mig hafa fært full rök fyrir því, að bændastéttin hafi verið mjög afskipt að undanförnu, og þetta frv., ef að l. yrði, mundi ögn draga úr þeim órétti, sem þeir hafa orðið fyrir af hendi þjóðfélagsins, vona ég, og reyndar tel fullvíst, að það fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu. Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr., verði frv. vísað til 2. umr. og fjhn.