29.01.1968
Neðri deild: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

101. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í því frv., sem hér liggur fyrir, felast þrjú atriði. Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði niður úr l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins það ákvæði, að greiðslur afborgana og vaxta af lánum skuli hækka eða lækka skv. kaupgreiðsluvísitölu, eins og hún er ákveðin í l. nr. 63 frá 1964. Það má ef til vill segja, að það kunni kannske einhverjir að líta svo á, að það sé óþarft að flytja sérstakt frv. um þetta, vegna þess að þetta ákvæði sé raunverulega fallið niður, vegna þess að l. frá 1964 nr. 63, sem fjölluðu um verðjöfnun launa, voru felld niður hér fyrr á þinginu, og þar með hvernig sú vísitala skuli reiknuð, sem hækkanir og lækkanir á afborgunum og vöxtum skuli fara eftir, skv. þessari lagagr. í Húsnæðismálastofnunarlögunum. Þetta er hins vegar álitamál, eða getur verið deiluatriði, og til þess að enginn vafi sé um þetta lengur, er lagt til í þessu frv., að þessi ákveðna mgr. í l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem ákveður þessar vísitölugreiðslur, verði felld niður. Þetta er fyrsta ákvæði frv.

Hitt ákvæði frv. er um það, að í þeim samningum, sem Húsnæðismálastofnunin hefur gert við íbúðaeigendur og er með ákvæðum um sérstakar vísitölugreiðslur, skuli breytt þannig, að niður falli ákvæðið um vísitölugreiðslurnar.

Þriðja meginatriðið í þessu frv. er svo það, að sá halli, sem kann að hljótast af þessu fyrir Húsnæðismálastofnunina, verði greiddur af ríkissjóði. Mér finnst rétt að rifja það upp í fáum orðum, hvernig það er til komið, að vísitöluákvæði hefur verið bundið við lán húsnæðismálastjórnar. Ég hygg, að þetta hafi fyrst komizt í l. 1957, þegar sett voru ákvæðin um skyldusparnað, sem fjáröflun fyrir byggingarsjóð. Það fé, sem kemur inn skv. skyldusparnaðinum, er vísitölutryggt, og þess vegna þótti ekki óeðlilegt, að svo stór hluti húsnæðislánanna, sem svaraði skyldusparnaðinum, yrði vísitölutryggður. Mér skilst, að á þeim tíma hafi það verið um 2/7 hlutar lánanna, sem húsnæðismálastjórn veitti, sem voru vísitölutryggðir. Nokkuð seinna, eða eftir að núverandi ríkisstj. kom til valda, mun hafa verið aukin heimild húsnæðismálastjórnar til þess að helmingur lánanna væri vísitölutryggður, en mér skilst, að sú heimild hafi eiginlega aldrei verið notuð, og allt fram til ársins 1964 hafi ekki nema 2/7 hlutar lánanna verið vísitölutryggðir eða sem svaraði skyldusparnaðinum. Það gerist svo, eins og þm. er vafalaust kunnugt, að í júnímánuði 1964 eru gerðir sérstakir samningar á milli ríkisstj. og launþegasamtakanna um þessi mál. Launþegasamtökin höfðu þá farið fram á mjög verulega grunnkaupshækkun, og til þess að fá þau til þess að falla frá henni gekkst ríkisstj. inn á tvö veigamikil atriði. Í fyrsta lagi að taka upp verðtryggingu á laun, sem hafði þá legið niðri um nokkurra ára skeið og í öðru lagi að hefjast handa um verulegar umbætur í húsnæðismálum. Það, sem launþegasamtökin fengu fram í sambandi við þessa samninga varðandi húsnæðismálin, var í fyrsta lagi það, að lán til einstakra húsbyggjenda voru hækkuð úr 150 þús. í 280 þús. og svo vísitöluhækkun til viðbótar. Í öðru lagi, að það skyldi tryggt, að lánin yrðu það mörg, að það yrði hægt að byggja 1500 íbúðir árlega og fleiri, í samræmi við aukinn fólksfjölda. Og svo í þriðja lagi, að vextir yrðu lækkaðir. Þetta var það, sem launþegar fengu áunnið í húsnæðismálum í júnísamkomulaginu 1964. Það, sem þeir urðu svo að láta á móti, var í fyrsta lagi það, að lagður yrði á sérstakur launaskattur, til tekjuöflunar fyrir byggingarsjóð, og svo í öðru lagi, að það yrði tekin upp sérstök vísitölubinding á lánum húsnæðismálastjórnar skv. sérstakri kaupgreiðsluvísitölu. Launþegar gengu inn á þetta síðara atriði í trausti þess, að sú verðtrygging launa, sem hafði einnig verið samið um, myndi haldast áfram. Nú hefur þetta hins vegar farið þannig, eins og þm, er að sjálfsögðu vel kunnugt, að nú fyrir jólin voru l. um verðtryggingu launa afnumin og laun- og kaupgreiðslur njóta þess vegna ekki lengur neinnar sérstakrar verðtryggingar. Það má því segja, að með því að þetta ákvæði er niður fallið sé líka fallinn grundvöllurinn undan því, að hægt sé að vísitölubinda húsnæðismálastjórnarlánin, vegna þess að launþegar féllust á þetta á sínum tíma, vegna þess að þeir fengu launin tryggð. Og til þess að það sé samræmi í þessu, er lagt til, eins og áður segir, að það ákvæði verði látið falla niður úr Húsnæðismálastofnunarlögunum, sem fjallar um það, að afborganir og vextir af húsnæðislánum fari eftir sérstakri vísitölu, sem nánar er ákveðið í l., sem nú eru fallin niður. Það leiðir að sjálfsögðu af þessari breytingu, að eðlilegt er að breyta þeim lánum, sem húsnæðismálastjórn hefur veitt á undanförnum árum og eru bundin vísitöluhækkun. Um það fjallar annað atriði þessa frv. Það liggur hins vegar í augum uppi, að af þessu mun hljótast nokkur kostnaðarauki fyrir Byggingarsjóð, vegna þess að hann hefur tekið talsverð lán, sem eru vísitölubundin og lánað út aftur, og sama gildir einnig um það fé, sem sjóðurinn fær vegna skyldusparnaðarins. Okkur flm. hefur þótt eðlilegt, að þessi halli yrði borgaður af ríkissjóði.

Um það mun eitthvað hafa verið rætt, að ef horfið yrði frá því að vísitölubinda lánin, eins og nú er gert, yrðu vextir hækkaðir líkt því, sem áður var, en það er að sjálfsögðu engin endurbót fyrir lántakendur að fá vaxtahækkun í staðinn fyrir það, að vísitölubindingin sé felld niður. Eins og ástatt er nú í þessum málum og menn athuga þá erfiðleika, sem eru á því, að menn eignist sína eigin íbúð, mega vextir af lánum alls ekki vera hærri en þeir eru nú, og þess vegna verður ríkið að koma hér til skjalanna með sérstaka aðstoð við Húsnæðismálastofnunina eða Byggingarsjóð, vegna þess að vísitölubindingin fellur niður á lánum, sem sjóðurinn veitir. Þessi mál horfa líka þannig við, að það er óhjákvæmilegt fyrir það þing, sem nú situr, að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla Byggingarsjóði tekna. Það mun vera áætlað nú, að tekjur Byggingarsjóðs á þessu ári verði eitthvað rúmlega 400 millj. kr., en eins og var upplýst hér við umr. um þessi mál s.l. föstudag, og ég hef einnig eftir öðrum heimildum, mun vera búið að áætla að leggja til hliðar um 230 millj. af tekjum sjóðsins á þessu ári og veita til svonefndrar framkvæmdaáætlunar, og sjóðurinn mun þess vegna ekki hafa nema tæpar 200 millj. kr. til ráðstöfunar í hið almenna húsnæðislánakerfi, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að afla tekna fyrir hann. Það gefur auga leið, að þessi fjárráð sjóðsins eru allt of naum til að fullnægja því kerfi, sem honum er ætlað að rísa undir, húsnæðismálastjórnarkerfinu, og sérstaklega þegar það er takmark, að fullgera verði að minnsta kosti 1500 íbúðir á ári, eins og segir í samkomulaginu frá því í júnímánuði 1964. Skv. þessu verður nú á þessu þingi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla Byggingarsjóðnum nýrra tekna, og í sambandi við þá tekjuöflun er eðlilegt, að sé gert ráð fyrir því, að sjóðurinn taki á sig þann halla, sem myndi leiða af samþykkt þessa frv., þ. e., að hætt verður að innheimta lán sjóðsins með sérstökum vísitöluhækkunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en leyfi mér að leggja til, að að umr. lokinni verði frv. vísað til heilbr.- og félmn.