26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

169. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi ekki misskilið neitt frsm. þessa máls, frsm. allshn., hér áðan, þegar hann gat þess, að frv. væri flutt skv. beiðni ríkisstj., ég held, að hann hafi alveg sagt það berum orðum og auk þess, að einstakir nm. hefðu ekki tekið afstöðu til einstakra atriða í frv. Ég held, að það sé hreinlega rétt skilið hjá mér. Engum hlöðum er um það að fletta, að það stendur hér í grg.: „dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur með bréfi dags. 27. nóv. s.l. óskað þess að Alþ. taki mál þetta að nýju til meðferðar,“ o.s.frv. Ef það er svo, að n. hefur samið frv. og flytur það sem sitt frv., af hverju er frsm. þá að leggja til, að því verði vísað aftur til n., þar sem hún hafi ekkert athugað frv.? Ég held, að hér hljóti að vera misskilningur hjá hv. forsrh., n, á eftir að taka afstöðu til þess frv., sem hér er til umr. Það var þess vegna, að ég tók það fram í minni ræðu, að ég teldi þetta vera stjfrv., af því að ríkisstj. hafði beðið n. að flytja það, sem er algengt. (Gripið fram í.) Ég er hræddur um, að hv. frsm. n. hafi þá eitthvað sagt skakkt.

Um hitt atriðið, að varðhaldsdómum er breytt í sektardóma, þá spurði ég í ræðu minni áðan, hvort þetta væri kannski náðun. (Gripið fram í.) Já, það var spurning, og ég hef nú fengið svar við henni og hef ekkert við það að athuga. En út af fyrir sig er það ekkert sérstakt deiluefni, hvort þetta er stjfrv. eða ekki stjfrv., það er að minnsta kosti flutt skv. beiðni ríkisstj., um það er ekkert að efast. (Gripið fram í.) Það held ég sé nú alveg ljóst mál: „Dóms- og kirkjumrn. hefur með bréfi dags. 27. nóv. s.l. óskað þess, að Alþ. taki mál þetta að nýju til meðferðar.“ Ég held ég hafi ekki meira við þetta að bæta að þessu sinni.