01.11.1967
Sameinað þing: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2639)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef nú litlu við það að bæta, sem ég sagði í minni frumræðu. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína með þær umræður, sem hafa sprottið af þessari till. Og ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni yfir því, að hæstv. menntmrh. tekur með miklum skilningi á till., og hann lýsti sínum skoðunum um þetta efni.

Um margt get ég verið honum sammála, sem hann hafði að segja, þó að sumt af því sé þess eðlis, að ég get ekki að öllu leyti fallizt á það með honum. M.a. lagði hæstv. ráðh. mikla áherzlu á það, að allt frumkvæði í þessum efnum þyrfti að koma að heiman. Ég er honum sammála um það, að það þarf að vera frumkvæði heima fyrir, en frumkvæðið í þessum málum á samt ekki að vera eingöngu heimamanna í sambandi við uppbyggingu listasafnanna, heldur finnst mér, að þarna þurfi að koma á samstarfi milli nokkurra aðila, nefnilega ríkisins, heimamanna eða sveitarfélaganna og að lokum áhugamanna heima í héruðunum. Og ég teldi ákaflega mikilvægt, að ef sú stefna yrði upp tekin, sem ég hef mælt með, að listasöfn yrðu stofnuð úti um land, að sett yrði löggjöf um það efni, löggjöf, sem væri eins konar rammalöggjöf, þar sem sett væru skilyrði um það, hvers konar listasöfn ætti að styrkja, þar sem sett yrðu skilyrði um það, hvernig listasöfnin störfuðu, og einnig um það, hver hluttaka ríkisins og sveitarfélaganna og annarra aðila ætti að vera í rekstri og stofnkostnaði slíkra safna. Ég tel ákaflega mikilvægt einmitt, að slík löggjöf verði sett, vegna þess, að hér er um mikið fjárhagslegt atriði að ræða, og einmitt mjög nauðsynlegt að undirbúa þetta mál vel á frumstigi og sníða því þann stakk, sem hæfir til langrar frambúðar. Ég tel tæpast hugsanlegt t.d., að listasöfn geti vaxið upp í hverju einasta sveitarfélagi á Íslandi Þau skipta hundruðum. En það væri mjög eðlilegt, að listasöfn kæmust upp nokkur í hverjum landsfjórðungi, og það væri einmitt hlutverk n., sem fjallaði um þetta, að leggja á ráðin um löggjöf í þessu efni, að athuga það, hvar slík listasöfn ættu að vera. Ég held, að það sé óviðráðanlegt verkefni og alls ekki svo brýnt að ætla að stofna allt of mörg listasöfn, enda má nú fyrr vera að hafa ekkert eða að hafa mikinn fjölda þeirra. Eðlilegast er, að þau séu hæfilega mörg og þannig, að það sé hugsanlegt, að þau geti starfað með menningarlegum hætti. Og það á auðvitað að vera kjörorðið og grundvallaratriðið, að slík listasöfn geri háar kröfur um þau verk, sem þar verða geymd, og að listasöfnin sem sagt séu raunveruleg mynd af því, hvað bezt gerist í íslenzkri myndlist. En hitt má einnig hugsa sér, að listasöfn úti um landsbyggðina fylgist með því, sem er að gerast í listum á þeim svæðum, þar sem söfnin eru, og með því móti mætti kannske fá úr því skorið, hvort þar er um lífvænlega listiðkun að ræða, og þess vegna nauðsynlegt, að söfnin fylgist með því líka og geymi slíka list, því að hún er til. Það eru margir menn úti um landsbyggðina, sem stunda myndlist, vafalaust margir af miklum vanefnum, en eigi að síður kann að vera, að þarna sé um merkilega menningarheimild að ræða og sjálfsagt, að því sé gaumur gefinn líka.

Ég vil einnig þakka hv. 4. landsk. þm. fyrir þau orð, sem hann lét hér falla, og ég get vel fallizt á það með honum, að það megi ræða þessa till. á breiðara grundvelli en ég gerði. Það er alveg rétt. að till. fjallar fyrst og fremst um eitt afmarkað svið listanna, og að nokkru leyti er það gert í ákveðnum tilgangi að afmarka málið þannig. Málið er þá að minnsta kosti viðráðanlegra á meðan svo er, og ég er þeirrar skoðunar, að í fáu séum við jafn aftur úr, sem búum úti um landið, og einmitt í því, sem varðar dreifingu á myndlistinni. Tónlistarstarf er miklu meira og leiklistarstarf ólikt meira en það myndlistarstarf, sem unnið er úti um land, á því er gífurlegur munur, og við flm. höfum sérstaklega viljað leggja áherzlu á það, að úr því yrði bætt, en vissulega er hægt að taka undir það með hv. 4. landsk., að það þarf ekki síður að leiða hugann að hinu, að aðrar listir komist skaplega til skila til landsfólksins, sem býr hér innan við Elliðaár, og ég gæti vissulega verið til viðtals um það, að þessi till. yrði afgreidd á breiðara grundvelli, eins og hv. þm. orðaði það, frá þeirri n., sem kann að fá hana til meðferðar.