10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. er búin að liggja allengi fyrir Alþ. og hefur hún hlotið afgreiðslu í allshn. Í grg. með þessari till. benda flm. á það, að menningarlegur jöfnuður hafi áður verið með byggðarlögum og áhugi fyrir bókmenntun þá sameiginlegur með flestum landsmönnum.

Jafnvægisleysið í fjármálum og atvinnuuppbyggingu hefur lengi verið mikið áhyggju efni margra góðra manna. Fjármagnið hefur dregizt að einum kjarna hér í þessu þjóðfélagi, kannske í enn ríkara mæli heldur en annars staðar, og á sér það þó víðar stað. Og þrátt fyrir töluverða viðleitni til þess að sporna þar við fótum og hafa áhrif á þessa þróun, þá hefur löngum reynzt erfitt um vik. Fjárstraumurinn utan af landsbyggðinni og þar með fólksstraumurinn rennur vissulega um marga farvegu. Þúsundir manna þiggja uppeldi sitt í strjálhýlinu og hverfa til þéttbýlisins þegar á ungum aldri. Það framlag heyrist sjaldan rætt. Miðstöð stjórnunar, miðstöð bankakerfis, verzlunar, trygginga, og allt þetta hefur segulkraft fyrir fjármuni og fólk. Og í fjölmenninu er vissulega mikið fjölbreyttara atvinnulíf og meiri möguleikar fyrir menn með mismunandi hæfni til starfa að fá nokkuð að gera við sitt hæfi. En það er bara mikið fleira heldur en þetta, sem örvar fólksstrauminn til þéttbýlisins, miklu fleira heldur en von um betri afkomu og fjölbreyttari störf.

Í grg. með þessari till. gera flm. glögga grein fyrir hinum mikla aðstöðumun höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar varðandi listir og ýmiss menningarstarfsemi og þó einkum og sér í lagi hvað snertir myndlistina og tækifæri til þess að njóta hennar. Þessum hlutum þarf vissulega að gefa gætur samhliða því, sem unnið er að fjárhagslegri uppbyggingu um gervallt landið.

Fyrir nokkrum árum gerði Bjarni Þórðarson bæjarstjóri í Neskaupstað tilraun til þess að skýra orsakir til brottflutnings þess fólks, sem þá flutti á einu ári frá Neskaupstað og flest hingað suður. Ég man, að hann birti þessar niðurstöður í blaði sínu, Austurlandi. Þetta ár var þar allstór hópur manna, sem fluttist frá Neskaupstað, og þessi athugun var töluvert fróðleg að mínum dómi. Ég kann ekki að greina frá henni í einstökum atriðum, en mér fannst alveg augljóst af niðurstöðum hennar, að þessi hópur flutti ekki fyrst og fremst fyrir fátæktar sakir og bjargarleysis, alls ekki, heldur af ýmsum öðrum ástæðum, því að þorri þeirra, sem fluttu, bjó við góðan efnahag og virtist hafa ágæta afkomumöguleika.

Nei, hér grípur vissulega margt inn í. Skólar eru hér flestir og bezt búnir margir. Hér er menningarstarfsemi ýmiss konar og listir í ríkari mæli en í strjálbýlinu. Sjúkrahús og læknisþjónusta er hér og meiri, og aðstöðumunurinn er vissulega mikill á ýmsum slíkum sviðum, þó að ég telji raunar, að margir mikli hann fyrir sér og leggi ekki rétt mat og eðlilegt á þennan aðstöðumun.

Þáltill. á þskj. 24 fjallar aðeins um eitt þessara atriða, þ.e.a.s. um listasöfn og listsýningar. Og sennilega er það svo, að í fáum greinum eða engum er munurinn meiri en hvað þetta afmarkaða svið snertir. Málverkasýningar úti á landi - það má segja, að þær séu mjög fátíður atburður, og vísar að listasöfnum eru þar bæði fáir og smáir, þó að nokkur viðleitni hafi átt sér stað í þessu efni.

Ég get nefnt sem dæmi, þar sem ég er kunnugastur, að í Neskaupstað hefur verið starfandi menningarmálanefnd á vegum bæjarstjórnar. Hún hefur a.m.k. einu sinni gengizt fyrir mjög myndarlegri listkynningu. Þar í bæ er einnig starfandi myndlistarfélag, þ.e. félag tómstundamálara, og þegar þeir fá sína leiðbeinendur, sem þeir hafa gert árlega sér til styrktar, þá hafa þeir stundum stuðlað að því, að þeir um leið gætu sýnt þar sín listaverk. Bæjarsjóður Neskaupstaðar hefur einnig myndað vísi að listasafni í kaupstaðnum. Þar er ekki um mikið safn að ræða enn þá en þó hafa verið keypt nokkur málverk. Og mér er kunnugt um það, að a.m.k. á Ísafirði er til vísir að slíku safni. Þessi fáu dæmi, þau gefa bendingu um það hvort tveggja, annars vegar, að það er viðleitni fyrir hendi í þessa átt úti á landsbyggðinni, og hins vegar, að hún er mjög skammt á veg komin og hefur ekki getað komið miklu til leiðar. Þessi þáltill. er um það að efla þessa viðleitni. Till. flm. fjallar um það, eins og hún var lögð fyrir, að Alþ. skuli kjósa 7 manna n. til þess að gera till. um stofnun og starfrækslu opinberra listasafna utan Reykjavíkur og jafnframt till. um skipulagðar myndlistarsýningar.

Allshn. hafði þetta mál til meðferðar og sendi það til umsagnar m.a. til Listasafns Íslands. Og n. varð sammála um að afgreiða þáltill., en vildi gera á henni tvær breytingar. Annars vegar það að fela ríkisstj. þessa athugun, en ekki n. Það er töluvert áberandi á þessu þingi, finnst mér, í viðbrögðum stjórnarliðsins að vera andvígir því að fela mál til athugunar neinum öðrum heldur en ríkisstj. Við hefðum, a.m.k. sumir nm. í allshn., álitið það æskilegra, að sett hefði verið n. í þetta mál og töldum, að með því móti hefði mátt búast við viðtækari athugun á því, en gengum inn á þetta til samkomulags. Hin breytingin er sú og er raunar lítilvæg að gera listsýningarnar að aðalatriði, taka þær fram fyrir listasöfnin. Og það hygg ég, að sé ekki óeðlilegt. Það er áreiðanlega töluverður möguleiki til þess nú þegar, þegar búið er að undirbúa það mál, að taka að skipuleggja listsýningar úti um landið, Listasafn Íslands á mikið safn af málverkum, og það yrðu áreiðanlega ýmsir einstaklingar til þess að leggja því máli lið, að slíkar sýningar gætu komizt á. Auðvitað yrðu ýmsir erfiðleikar í vegi í fyrstu. En þó er aðstaðan öll önnur nú en hún var fyrir fáum árum til að taka við slíkum sýningum úti á landi. Félagsheimilin eru auðvitað ekki gerð fyrst og fremst með það fyrir augum að taka við myndlistarsýningum, en það hlýtur að mega með ekki mjög miklum kostnaði bæta aðstöðu til þess, að slíkt geti farið sæmilega úr hendi.

Um vísi að listasöfnum utan Reykjavíkur er það að segja, að mönnum virðist kannske í fljótu bragði, að það sé nokkuð langt í land, að af því geti orðið. En það er áreiðanlega enginn vafi á því, að í því efni er mjög þýðingarmikið, að menn byrji sem fyrst, þótt byrjað sé smátt. Það má að mínum dómi finna staði á flestum þéttbýlissvæðum, þar sem hægt er að varðveita listaverk og hafa þau uppi, þó að ekki séu listasafnshús. Og ég held, að ef ætti að bíða eftir því, að byggð verði hús yfir listasöfn á einstökum stöðum utan höfuðstaðarins, mundi það mál áreiðanlega seint ná í höfn. Það er sjálfsagt rétt, sem komið hefur fram í umr., m.a. í n. um þetta mál, að eðlilegast og æskilegast er, að frumkvæðið komi að heiman, og eins og ég vék að áðan, er áreiðanlega töluverður skilningur og áhugi fyrir hendi viða En það má vel hugsa sér það að leita að leiðum til þess að glæða skilning á þessum málum og örva áhugann og koma á móti með því að leita að formi fyrir skipulega starfsemi í þessum greinum. Og einkum telur n., að það væri í lófa lagið og færi vel á því að byrja á að skipuleggja listkynningu utan höfuðstaðarins með myndlistarsýningum. Um þessi efnisatriði till. varð enginn ágreiningur í allshn.

Það var nokkuð rætt um það í n. að breikka svið till. og láta hana ná til fleiri þátta í menningarstarfsemi dreifbýlisins, m.a. til starfsemi félagsheimilanna En um starfsemi þeirra hafa orðið þó nokkrar umr. áður hér í Sþ., þegar þessi till. var rædd við fyrri umr. En nm. urðu þó við athugun ásáttir um það að halda efni till. í sinni upphaflegu mynd að þessu leyti og hafa þetta mál afmarkað, sem hún fjallar um.

Menningarmál strjálbýlisins eru vissulega margþætt og vandasöm, eins og áður hefur verið að vikið. Það neitar því enginn, að það hefur verið gert mjög mikið og myndarlegt átak í þeim málum með byggingu félagsheimilanna víðs vegar um landið. Það hefur hins vegar sætt töluvert mikilli gagnrýni, og það kom m.a. fram hér við umr. þessa máls áður, hversu starfsemi félagsheimilanna hefur verið háttað. Sú gagnrýni er vissulega að nokkru á rökum reist. En að nokkru er það kannske eðlilegt, að það taki tíma fyrir þessar stofnanir að móta sína starfsemi og koma henni af stað. Ég vil segja það, að persónulega er ég ekki svartsýnn á þessi mál og mér finnst eðlilegt, að þetta taki tíma. Breytingin er óskaplega mikil á örfáum árum. Það eru t.d. ekki mörg ár síðan, að í einu byggðarlagi á Austfjörðum fóru samkomur fram í gömlum Bretaskála, og þegar hann var á sunnan, þá var opið í norðurendann, og þegar hann var á norðan, var opið í suðurendann til þess að skýlla yrði í húsinu. Þetta er kannske dæmi um það allra frumstæðasta. Og það bar við eitt sinn þar á framboðsfundi, þegar menn voru í óða önn að reifa málin, að maður nokkur, sem ekki hafði gert sér grein fyrir þessum sið og vindáttinni, barði að dyrum á öfugum enda og brauzt þar í gegn og strokan stóð í gegnum fundarsalinn og minnisblöð hv. frambjóðenda fóru í einn graut og tók æðitíma að draga þau sundur á ný. En á þessum stað er nú risið glæsilegt félagsheimili.

Það er sem sagt skiljanlegt, þó að það taki sinn tíma að átta sig á þessum breyttu viðhorfum og koma sér fyrir. En ég vil bara segja það, að þar sem ég þekki bezt til í mínu næsta nágrenni, í Neskaupstað og á Egilsstöðum, þar er þegar orðin mjög myndarleg starfsemi í félagsheimilunum. Það er jafnvel erfitt að fá tíma fyrir fundi á þessum stöðum að kvöldi Og það er ekki af því, að það sé verið að dansa þarna öll kvöld, heldur þvert á móti er þar margháttuð önnur starfsemi. Í Neskaupstað t.d. er starfandi leikfélag, sömuleiðis í sveitinni, og bæði þessi félög sýna þar í húsinu. Og þar eru auðvitað margar sýningar aðkomuflokka Í bænum eru fjölmörg félagasamtök, sem nota þetta húsnæði. Þar hefur verið tómstundastarfsemi fyrir æskufólk. Þar eru skólahátíðir haldnar. Þar er bókasafn og lestrarsalur o.s.frv., o.s.frv. Auðvitað fara þar einnig fram kvikmyndasýningar og dansleikir eins og verður að vera. Alveg sama máll gegnir um félagsheimilið á Egilsstöðum, að það er mjög mikið notað. Ég trúi, að á s.l. ári hafi þar t.d. verið 18 leiksýningar. Þar starfar, svo að dæmi sé nefnt, karlakór að æfingum. Þar er badmintonflokkur og rótaryklúbbur, æskulýðsstarfsemi hefur verið þar og margs konar önnur félagssamtök. Fundir eru þar mjög tíðir með sýslu- og fjórðungssamtökum, og það stafar nú af legu Egilsstaða. Þannig er þetta í stærri félagsheimilum, en mér er einnig kunnugt um það, að í smærri félagsheimilunum fer líka, fram, eftir því sem unnt er að koma við, ýmiss konar menningarstarfsemi auk þess sem þar er auðvitað dansað og skemmt sér.

Ég vil aðeins vekja athygli á því hérna, að það er hægt með ýmsu móti að styðja enn betur en gert hefur verið að leiklistarstarfsemi dreifbýlisins, sem töluverð gróska hefur verið í. Það gaf t.d. mjög góða raun þarna austur frá að einn ágætasti leikari Þjóðleikhússins æfði þar leikrit fyrir stuttu, Valtýr á grænni treyju, og fór með aðalhlutverk. Þetta gaf sýningunum sérstakan blæ og varð til þess, að þær voru ákaflega vel sóttar. Með þessu móti gæti Þjóðleikhúsið stutt í vaxandi mæli leiklistarstarfsemi úti á landi. Og einnig með því, að í stað þess eingöngu að halda sýningar sínar úti á landsbyggðinni yfir sumartímann, þegar menn eiga erfiðast með að sækja þær, þá að leitast við að koma þar til móts við landsbyggðina og senda leikflokka öðru hverju einnig á þeim tíma, þegar fólk yfirleitt hefur tækifæri til þess að njóta sýningarinnar. Það eru miklir fjármunir, sem þjóðfélagið leggur til ýmissa greina menningar, og það er eðlilegt, að stofnanir eins og t.d. Þjóðleikhúsið reyni að þjóna sem bezt allri landsbyggðinni.

Ég skal ekki fara frekar út í þessa sálma Það er áreiðanlega margt óunnið á þessu sviði, eins og ég hef komið að, og þó að nokkuð hafi verið rætt um þessi mál, hafa þær umr. verið tiltölulega litlar og raunar minni en maður gæti búizt við. hv. 4. landsk., Jónas Árnason, minntist á grein, sem Guðmundur Gíslason Hagalín skrifaði um þetta efni fyrir nokkru. Ég las þá grein, og finnst hún mjög athyglisverð, og ég varð satt að segja undrandi á því, hve litlar umr. urðu um það mál eftir það innlegg. Hér er vissulega mikill akur óplægður, og þessi þáltill. fjallar aðeins um eina akurreinina. En allshn. leggur til, að hún verði samþykkt með þeirri umorðun, sem hér má sjá í nál. á þskj. 498.