26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

79. mál, breytt skipan lögreglumála í Reykjavík

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti Þáltill. sú, sem ég hef flutt á þskj. 149 og hér er til umr., fjallar um nokkuð breytta tilhögun á yfirstjórn lögreglunnar í Rvík. Aðalefni hennar er að fela hæstv. ríkisstj. að hlutast til um sameiningu lögreglunnar, hinnar almennu lögreglu og rannsóknarlögreglu, undir yfirstjórn lögreglustjóra

Skv. gildandi l. fer lögreglustjóri með lögreglustjórn almennt, en sakadómarar með stjórn rannsóknarlögreglunnar. Í l. um meðferð opinberra mála er svo tekið til orða, að sakadómari í Rvík fari með stjórn þeirra lögreglumanna, sem ætlað er að rannsaka brot að því, er þau störf varðar. Hvort tveggja er, að orðalag þetta er ónákvæmt, enda slík tvískipting lögreglunnar óeðlileg að ýmsu leyti, eins og reynt mun að sýna fram á í fáum orðum.

Allsherjarmanntal Árna Magnússonar frá 1703 telur íbúa í sjálfri Rvík ekki nema 21. Þegar verksmiðjur Skúla landfógeta taka til starfa árið 1752 fer fólkinu að fjölga. Talið er, að fyrstu drög að löggæzlu í Rvík verði rakin til þess tíma, þó að glöggar heimildir skorti þar til nokkru síðar.

Fyrsti bæjarfógeti í Rvík var skipaður árið 1803, og voru þá jafnframt settir tveir lögregluþjónar. Ekki verður saga né þróun þess embættis rakin hér, en þess aðeins getið, að árið 1918 er skipaður sérstakur lögreglustjóri í Rvík. Hinn 1. jan. 1921 varð Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn og gegndi því starfi mjög lengi síðan. Hafði hann sérstaklega á hendi undirbúningsrannsóknir sakamála í mörg ár, en aðrir lögreglumenn unnu að því jafnframt meira og minna.

Með l. frá 1928, um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o. fl. í Rvík, voru embætti bæjarfógeta og lögreglustjóra að nafninu til lögð niður, en í stað þeirra stofnuð þrjú ný embætti, lögreglustjóra-, lögmanns- og tollstjóraembætti. Lögreglustjóri hafði að sjálfsögðu á hendi stjórn allrar lögreglu.

Með l. nr. 67 frá 31. des. 1939 var gerð meginbreyting á skipan þessara mála. Þá var sakadómaraembættið stofnað og kveðið svo á að sakadómari skyldi fara með stjórn rannsóknarlögreglu, en lögreglustjóri með stjórn hinnar almennu lögreglu. Þá hefst með öðrum orðum tvískipting lögreglunnar. Um nánari tildrög vil ég vísa til grg.

Samkv. l. er hlutverk lögreglumanna að halda uppi lögum og reglu, greiða götu manna, þar sem það á við, stemma stigu við ólögmætri hegðun og vinna að uppljóstrun brota, sem framin eru, og vera rannsóknardómara til aðstoðar í hvívetna. Þetta á við alla lögreglumenn, þótt margháttuð verkaskipting komi að sjálfsögðu fljótt til framkvæmda, þegar liðinu fjölgar

Það er mála sannast, að einn allra mikilvægasti og vandasamasti þáttur lögreglustarfsins er undirbúningur og frumrannsókn afbrota. Sá sem slík verk hefur á hendi, má alltaf búast við mikilli áreynslu og erfiði, sem ekki verður yfirstigið nema hann eigi yfir að ráða margháttaðri þekkingu og reynslu og öruggri dómgreind og miklu þolgæði, og skilyrði góðs árangurs eru einatt náin og traust samvinna margra manna að settu marki Það er ekki ævinlega sjálfsagt né heldur nauðsynlegt að leita erlendra fyrirmynda, þó er að mínum dómi sjálfsagt að hafa hliðsjón af því í þessu efni Um öll Norðurlönd, en þær þjóðir eru okkur nánastar að frændsemi, menningu og grundvallarreglum laga, gildir sú meginregla, að lögreglan í heild er háð yfirstjórn lögreglustjóra. Svo er og meðal annarra menningarþjóða, þar sem til er vitað, þó að það varði ekki nánar rakið hér.

Eins og getið er um í grg., er nú verið að byggja nýja lögreglustöð í Rvík. Það er því tilvalið að vinna að undirbúningi þessa máls meðan á því verki stendur. Í viðtali við Lögreglublaðið, sem út kom í des. s.l., segir Hermann Jónasson fyrrv. forsrh. og raunar gamall lögreglustjóri í Rvík, á árunum 1930 og þar á eftir, m. a:

„Ég er heldur ekki viss um, að þorri manna geri sár það ljóst, að löggæzlan er hyrningarsteinn þjóðfélagsbyggingarinnar. Sú þjóð, sem býr við óréttláta löggæzlu, hlýtur að vera óhamingjusöm.“

Að minni hyggju er mikils virði, að allir lögreglumenn, hvort sem þeir vinna að almennri Iöggæzlu, rannsóknarstörfum, tæknilegum verkefnum eða öðrum sérstökum störfum, finni, að þeir séu allir á sama báti, samverkamenn, sem lúta einni stjórn. Dómendur fara með dómsvaldið segir í 1. gr. stjórnarskrár Íslands, þannig fer borgardómaraembættið í Rvík með dómsstörf í einkamálum, en sakadómaraembættið með dómsstörf í opinberum málum. Allir eru sammála um það, að dómendur eigi að vera sem óháðastir í sínum störfum og þurfi ekki margháttuðum öðrum framkvæmdaverkefnum að sinna, þar af leiðir, að lögreglustjóri á að hafa á hendi yfirstjórn allrar lögreglunnar. Um nánari rökstuðning vísa ég til grg., en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.