31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Það er aðalefni þeirrar till., sem hér er til umræðu að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta nú þegar endurskoða tollalögin með það fyrir augum, að innflutningstollar á efnum og vélum til iðnaðarins verði hinir sömu og nú er á efnum og vélum til fiskveiða. Ríkisstj. skal strax og þessari endurskoðun er lokið leggja fyrir Alþ. frv. um breyt. á tollalögunum í samræmi við hana.

Það er kunnara hv. alþm. en frá þurfi að segja, að undanfarna daga hefur farið fram í kaupstöðum og kauptúnum landsins skráning á atvinnulausum mönnum, og það hefur komið í ljós, að atvinnuleysi er nú mjög mikið meira en það hefur sennilega verið hér á landi nokkru sinni seinustu 20–30 árin Að einhverju leyti kann þetta að stafa af þeirri stöðum, sem hefur verið hjá útgerðinni og óþarft er að rekja hér, og vonandi breytist þetta því verulega til batnaðar, þegar útgerðin hefst nú að nýju eftir þær tafir, sem arðið hafa á rekstri hennar. En þó held ég, að það hljóti að liggja í augum uppi, að þótt útgerðin starfi með sæmilegum blóma muni það hvergi nægja, eins og komið er í okkar þjóðfélagi, til þess að tryggja landsmönnum næga atvinnu, m.a. með tilliti til þess, að vinnufæru fólki muni fjölga nokkuð ört næstu árin. Jafnvel þótt nokkur aukning yrði í sjávarútveginum og landbúnaður héldist í sæmilegu horfi, getum við ekki búizt við því, að það nægi til þess að tryggja næga atvinnu í landinu á komandi árum. Ég held, að menn geri sér það líka ljóst, að það er ekki hægt að búast við því, að hægt sé að fjölga fólki í verzluninni eða við þjónustustarfsemi, það væri miklu frekar æskilegt, að starfsfólki fækkaði þar í sumum greinum. Af þessu leiðir það, að það er óhjákvæmilegt, að unnið sé að því að auka iðnaðarstarfsemina í landinu og efla sem allra flestar iðnaðargreinar Til þess að ná því marki, þarf að sjálfsögðu að gera ýmsar ráðstafanir, en ein sú þýðingarmesta í þeim efnum felst tvímælalaust í því frv. eða þeirri till., sem hér liggur fyrir, þ.e. að fella niður tolla á vélum og hráefnum til iðnaðarins, eins og þar er lagt til, eða m.ö.o., að þessir tollar verði nokkuð svipaðir og eru núna á vélum og efni til fiskveiða en í flestum tilfellum eru þeir engir ellegar þá mjög lágir, í kringum 4% eða um það bil.

Ég hef átt tal við ýmsa forustumenn iðnaðarins að undanförnu, og mér hefur virzt það vera sameiginlegt álit þeirra, að það yrði iðnaðinum mjög til styrktar, ef slík tollalækkun næði fram að ganga og rætt er um í þessari till. Ég nefni í því sambandi m.a. járniðnað­ inn, sem hefur haft við verulega erfiðleika að glíma að undanförnu og verulegur samdráttur hefur orðið í. Forustumenn hans hafa sagt mér það alveg hiklaust, að fátt mundi vera honum til meiri styrktar en að tollar yrðu felldir niður á efni til hans svo og einnig á vélum. sem hann þarf að nota. En þó ber þess að gæta í því sambandi að taka verður tillit til þess hluta járniðnaðarins, sem hefur með höndum framleiðslu á víssum vélum og þarf þar af leiðandi að keppa við erlenda framleiðslu. Verið getur að haga verði tollabreytingunni í sambandi við þá framleiðslu á þann veg, að henni verði veitt einhver tollvernd.

Eins og fram kom í sambandi við fjárl. og áður hefur verið minnzt á hér á Alþ., hefur ríkisstj. látið vinna að nokkurri endurskoðun á tollalöggjöfinni að undanförnu í framhaldi af því loforði hennar, að sökum gengisbreytingarinnar yrðu tollar lækkaðir um 200—230 millj. kr. miðað við óbreytt tollalög. Það mun nú vera nokkuð óvisst, hvað úr þessari endurskoðun hjá hv. ríkisstjórn verður, en ég reikna hins vegar með því, að þótt hún verði nokkur, sem maður vonar, muni hún hvergi nærri vera fullnægjandi í samræmi við þá till., sem hér liggur fyrir, og þess vegna sé þessi ályktun Alþ., sem hér er lagt til að gerð verði, jafnnauðsynleg, þótt eitthvert frv. komi fram hjá ríkisstj. um tollabreytingu. Að sjálfsögðu yrðu bornar fram till. í sambandi við þetta frv. ríkisstj., ef það kæmi fram, en eigi að síður þá er nauðsynlegt að fram fari ýtarlegri og meiri rannsókn á tollalöggjöfinni með tilliti til þess að fullnægt verði þeim þörfum iðnaðarins, sem þessi tillaga fjallar um. Ég segi þetta til að mótmæla því, sem aðeins hefur komið fram, að þessi till. verði óþörf, ef það kemur eitthvert sérstakt tollafrv. frá ríkisstj. næstu daga. Ég tel, að þessi endurskoðun verði jafnnauðsynleg eftir sem áður og þess vegna sé rétt af þinginu að samþykkja þessa till., burtséð frá því, hvaða frv. kemur frá ríkisstj. allra næstu daga sem snertir gengislækkunina alveg sérstaklega.

Ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.