14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

95. mál, hlutverk Seðlabankans

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þótt áhyggjuefnin séu mörg hér á landi um þessar mundir, hygg ég, að allir séu sammála um, að eitt sé stærst og alvarlegast, en það er atvinnuleysið sem nú er komið til sögunnar. Vegna sérstaks góðæris á undanförnum árum hefur verið hér á landi næg atvinna. Nú er hins vegar svo komið að atvinnuleysi er orðið mjög verulegt og fer stöðugt vaxandi, þannig að ef ekki verður á þessu breyting til bóta hið fyrsta virðist allt stefna til þeirrar áttar, að ástandið í þeim efnum verði engu betra en það var hér á kreppuárunum fyrir styrjöldina. Að sjálfsögðu eru margar ástæður, sem valda því, að þannig er komið og skal ekki verða gerð tilraun til þess hér að reyna að rekja þær, aðeins vikið að einni þeirra, sem tvímælalaust er ein hin veigamesta. Og þar á ég við þann lánsfjárskort, sem atvinnufyrirtækin hafa átt við að búa á undanförnum árum og misserum. Hinn mikli lánsfjárskortur, sem atvinnufyrirtækin hafa þurft að glíma við og bæði hefur komið fram í sambandi við skort á stofnlánum og rekstrarlánum, er tvímælalaust ein höfuðástæðan til þess, hvernig nú er ástatt í atvinnumálum landsins. Þegar fyrirtækin skortir fé til rekstrar og líka til framkvæmda, leiðir það af sjálfu sér, að þau hljóta að draga rekstur sinn saman, og sum þeirra hafa jafnvel þurft að hætta starfrækslu sinni alveg. Lánsfjárskorturinn stafar að sjálfsögðu af fleiri en einni ástæðu en ein höfuðástæða hans er tvímælalaust sú stefna, sem Seðlabankinn hefur látið framfylgja á undanförnum árum og er í algeru ósamræmi við þann tilgang, sem honum er ætlaður samkv. þeim lögum, sem um hann gilda. Þessi lög eru frá 24. marz 1961, og segir svo í 2. gr. þeirra með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Seðlabanka Íslands er: 1) að annast seðlaútgáfu og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“

M.ö.o.: lögin gera ráð fyrir, að það sé eitt af aðalverkefnum Seðlabankans og í raun og veru fyrsta verkefni hans að sjá til þess, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt til að tryggja það að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.

Þetta skýlausa ákvæði um tilgang Seðlabankans hefur á undanförnum árum verið framkvæmt á þann hátt, að stöðugt hefur verið dregið úr þeirri þjónustu við atvinnuvegina., sem hann hefur veitt. Áður var það t.d. regla að Seðlabankinn keypti af sjávarútveginum framleiðsluvíxla, sem nam 67% af upphæð þeirra. Nú er hins vegar svo komið að hann kaupir ekki nema 55% af upphæð slíkra víxla, og sjá allir, að hér er um verulegan samdrátt að ræða, sem hlýtur að koma sér illa, fyrir þessa atvinnugrein. Lán til landbúnaðarins eða kaup á framleiðsluvíxlum hans hafa verið dregin saman á sama hátt.

En þó er þetta ekki alvarlegasti samdrátturinn, sem hefur átt sér stað í þessari starfsemi Seðlabankans. Langalvarlegasti samdrátturinn er fólginn í því, að samkv. 11. gr. l. um bankann hefur verið tekinn upp sá háttur að fyrirskipa viðskiptabönkum og sparisjóðum að afhenda honum til bindingar verulegan hluta af því sparifé, sem kemur inn til þessara aðila. Nú mun vera svo komið að um 1900 millj. kr. af sparifénu eru frystar í Seðlabankanum á þennan hátt. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess, að viðskiptabankarnir hafa ekki getað fullnægt þjónustu sinni við atvinnufyrirtækin á sama hátt og áður var og eins og til er ætlazt af þeim, því til viðbótar því, að sparifé hafi þannig verið tekið af þeim, er þeim ætlað að kaupa stærri hluta af framleiðsluvíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar en áður átti sér stað. Afleiðingarnar af þessu háttalagi Seðlabankans eru líka augljósar. Þær birtast í því, að fjöldi fyrirtækja hefur lent í stórfelldum vanskilum, með vanskilum er ekki hægt að halda uppi rekstri til langs tíma, og þá er ekki um annað að ræða en að draga reksturinn saman eða leggja hann alveg niður. Og sú hefur líka orðið reyndin í stórum stíl. Og það er þetta, sem veldur því, reyndar ásamt mörgu öðru, en er þó veigamesta ástæðan til þess, að samdráttur hefur orðið í atvinnulífinu og atvinnuleysi hefur skapazt, og fer það nú, að því er virðist, sívaxandi. Það berast alltaf nýjar og nýjar fréttir frá atvinnufyrirtækjum, sem eru að segja upp starfsfólki og fækka því við sig meira og minna.

Ég hygg, að sú staðreynd, að atvinnuleysi fer nú vaxandi, hljóti að leiða athygli manna að því, að það verður að breyta stefnu Seðlabankans frá því, sem nú er, og færa hana til samræmis við seðlabankalögin sjálf. Hvað sem menn vilja segja um frystingu sparifjár á þeim tíma, þegar svokölluð ofþensla ríkir, held ég, að það sé viðurkennd regla í öðrum löndum, að hún eigi alls ekki við þegar svo er komið að atvinnulífið er að dragast saman og atvinna fer minnkandi. Ég held, að það sé viðurkennd regla í öllum löndum, sem fylgja heilbrigðri efnahagsstefnu, að þegar samdráttur er í atvinnulífi og atvinnuleysi kemur til sögunnar, sé m.a. unnið gegn því á þann hátt að veita meira lánsfé til atvinnuveganna, að lækka vexti, að örva atvinnustarfsemina og örva fjárfestinguna á þennan hátt.

Ég held, að allir alþm. ættu því að geta orðið sammála um þessa till., þegar þannig er ástatt, en hún er á þann veg, að Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabanki Íslands kappkosti að fullnægja því hlutverki, sem honum er ætlað í l. frá 24. marz 1961, að vinna að því, að framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Ég tel þetta, svo augljóst og sjálfsagt mál, að óþarft sé að hafa um það fleiri orð að þessu sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.