25.10.1967
Sameinað þing: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

192. mál, rekstur Tryggingastofnunar ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara þeim skriflegu fsp., sem fram hafa verið bornar, eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um. Eins og hv. alþm. sjá, eru fsp. þessar í nokkrum liðum, þó að ótölusettir séu, en ég vona að efnisröðunin á svörunum komi heim og saman við uppröðunina á fsp.

Í des. 1966 voru fastráðnir starfsmenn við aðalskrifstofu í Reykjavík og bótagreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins 52, lausráðnir 23, en á árinu höfðu auk þess 67 menn tekið greiðslur, sem færðar hafa verið á launakostnað, fyrir stjórnarstörf, nefndarstörf, endurskoðun, tímabundin sumarstörf og ræstingu og höfðu hætt störfum á árinu. Launagreiðslur til þessara aðila námu allt árið 14.917.648,75 kr. Annar kostnaður við stofnunina nam 15.525.809,02 kr. En þar í er falin greiðsla til úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta, umboðsmanna og ríkissjóðs vegna starfa á skrifstofu umboðsmanna 8.647.142,71 kr., og er því kostnaður skrifstofunnar í Reykjavík 6.878.666,31 kr.

Samkv. lögum eru sýslumenn og bæjarfógetar umboðsmenn stofnunarinnar, og hefur það verið túlkað svo, að þar sem sérstakir lögreglustjórar starfa svo sem í Hólshreppi og á Keflavíkurflugvelli, séu þeir einnig umboðsmenn stofnunarinnar. Þessir umboðsmenn eru 25 talsins, en starfsmenn þeirra, sem vinna að tryggingarmálum, eru starfsmenn ríkisins og ekki skráðir á starfsskrá hjá Tryggingastofnuninni sérstaklega, enda ríkissjóði greiddar samtals 6 millj. kr. á árinu 1966 vegna starfa þeirra manna og annars kostnaðar þar að lútandi. Aðalstörf umboðsmanna eru umboðsstörf fyrir lífeyristryggingar, móttaka bótaumsókna, úrskurður bóta annarra en heimildarbóta, útborgun bóta og reikningsskil. Allir þessir umboðsmenn eru innheimtumenn ríkissjóðs, og sem slíkir innheimta þeir iðgjöld til stofnunarinnar hver í sínu umdæmi og framlög sveitarfélaganna. Sýslumenn eru formenn stjórna héraðssamlaga, en það eru störf fyrir hlutaðeigandi sjúkrasamlög, sem þó hlíta umsjón og yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar. Tryggingastofnunin leitar að jafnaði til þeirra um aðrar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru úr umdæminu. Umboðsmenn eiga að endurskoða bótaúrskurði í héraði til atvinnuleysingja og greiða til úthlutunarnefnda. Fyrir þessi störf öll greiðir Tryggingastofnunin, eins og áður segir, ríkissjóði 6 millj. kr. á árinu 1966, en umboðslaun og innheimtulaun og annar kostnaður utan Reykjavíkur greiddur á árinu 1966 nam 2.647.142,71 kr., eða samtals kostnaður utan Reykjavíkur 8.647.142,71 kr. Það skal fram tekið, að umboðsmenn hafa nokkur afskipti af slysatryggingu og að jafnaði eru slysabætur greiddar til embættanna, sem skila þeim til bótaþega. Eins og þegar er fram tekið, eru umboðsstörfin fyrst og fremst og aðallega unnin vegna lífeyristrygginga, en lífeyristryggingarnar bera lögum samkv. kostnað vegna umsjónar og yfirstjórnar sjúkratrygginga. Önnur starfsemi á vegum Tryggingastofnunarinnar er slysatryggingar, erfðafjársjóður, byggingarsjóður aldraðs fólks, afgreiðsla og reikningshald atvinnuleysistryggingasjóðs, lífeyrissjóðs togarasjómanna, lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóðs barnakennara, lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna og lífeyrissjóðs ljósmæðra. Þeir sjóðir, ef um verulega starfsemi er að ræða eru látnir taka þátt í kostnaði stofnunarinnar, og nam þátttaka þeirra á árinu 1966 9.097.709,25 kr. Samkv. því er rekstrarkostnaður lífeyristrygginga á árinu 1966 talinn alls 21.345.748,52 kr., sem eins og áður segir skiptist milli aðalskrifstofu í Reykjavík og umboða utan Reykjavíkur. Kostnaður við aðalskrifstofu var 12.938.529,78 kr., en við umboðsskrifstofur 8.407.118,74 kr.

Þar með vænti ég, að fsp. hv. fyrirspyrjanda sé svarað.