06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

34. mál, skólarannsóknir

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég gat nú ekki hlýtt á framsöguræðu fyrirspyrjanda og ekki á alla ræðu hæstv. ráðh., en ég vil þó eigi að síður af þessu tilefni, að þetta hefur komið hér til umr., minna aðeins á nokkur atriði í sambandi við þessi mál.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt, að það skuli nú vera hafnar svokallaðar skólarannsóknir, því að það þurfa raunverulega alltaf að vera í gangi slíkar skólarannsóknir, vegna þess að tímarnir breytast og það er ástæða til þess að breyta námsefni eftir því, sem kröfurnar breytast og aðstæður í þjóðfélaginu jafnframt. En það, sem sérstaklega þarf að athuga og það, sem er sérstaklega áberandi í sambandi við okkar fræðslumál, hlýtur auðvitað að vera þetta, að fræðslulögin frá 1946 hafa aldrei verið framkvæmd. Það átti að framkvæma fræðslulögin á 6—7 árum, ef ég man rétt. Þá áttu þau að vera komin til fullra framkvæmda, þ.e. 1952—1953, en þau eru alls ekki komin til framkvæmda enn þá. En megintilgangur fræðslulaganna var, að ég held, sá, að koma hér á 8 ára skólaskyldu og að samræma skólakerfið og gera öllum sem jafnast að stunda skólanám, hvar sem þeir búa á landinu og hverjar svo sem aðstæður nemenda eru. En þetta hefur því miður ekki tekizt enn þá, og ég held, að það sé ákaflega þýðingarmikið atriði, að það verði reynt að framkvæma fræðslulögin og koma þeim í það horf, sem þeim ber að vera, áður en við förum að gera stórkostlegar breytingar t.d. eins og hæstv. ráðh. var að nefna, að fara að lengja skólaskylduna og miða kannske skólaskyldualdurinn við 6 ár o.s.frv. Þá væri nær að reyna að koma því svo fyrir, að sú skólaskylda, sem er í lögum og búin að vera í meira en 20 ár, verði raunverulega framkvæmd. En á þetta hefur langsamlega mest skort að mínum dómi, og þannig er, að menn hafa raunverulega búið við tvenns konar skólaskyldu á Íslandi, 8 ára skólaskyldan hefur ekki verið til nema sem óframkvæmdur lagabókstafur og kannske sem atriði í upplýsingabæklingum um menntunarástandið á Íslandi á erlendum tungumálum. En í raun hefur þetta nú verið svona, að mikill hluti af börnum og unglingum hefur aðeins notið kannske 4—5 ára skólaskyldu í reynd. Og ég er hræddur um, þn að þetta hafi kannske eitthvað skánað hin síðari ár, að þá sé það enn svo, að það sé allstór hluti barna, sem ekki hefur nein skilyrði til þess að njóta þeirrar skólaskyldu, sem lög gera ráð fyrir. Og það er úr þessu, sem við verðum að bæta. Og það, sem þá skiptir langmestu máli, er vitanlega það að koma upp nægu skólahúsnæði í landinu. En skólaskorturinn veldur því fyrst og fremst, að það er ekki hægt að framkvæma skólaskylduna eins og lög gera ráð fyrir. Og það er það, sem við þurfum að leggja höfuðáherzlu á nú og á næstunni, þ.e. að efla skólabyggingarnar og framkvæma tilgang fræðslulaganna, eins og hann birtist í lögunum sjálfum og eins og þau hafa ævinlega verið túlkuð. Hitt er satt, að það er gífurlega mikið verkefni og mikið fjárhagsatriði að koma skólunum upp og mikið, sem á hvílir, en það er verkefni, sem þjóðin verður að finna lausn á, og ég hygg, að það megi gera ef skipulega er að því unnið. En eins og nú er, er því miður ekki hægt að segja, að nógu skipulega sé að þessu unnið. Við höfum því miður ekki fyrir okkur neina áreiðanlega skólabyggingaáætlun til næstu ára en ég hygg, að hennar sé nú einkum þörf í skólamálunum, og ætla ég þó ekki að gera lítið úr því, sem þörf er að gera í sambandi við þær skólarannsóknir, sem hæstv. ráðh. hefur hér einkum talað um. Þær eru mjög mikils virði, og eins og ég segi þurfa alltaf að vera í gangi. en hitt stendur okkur nær, að byggja fleiri skóla.