26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3103)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil sem einn af fyrirspyrjendum þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, og ég hefði ekki staðið hér upp, ef hann hefði ekki haldið sína síðari ræðu, vegna þess að mér fannst hann ekki bæta um fyrir sér með því, sem hann þat sagði, aftur á móti var fyrri ræða hans ágæt, og þar svaraði hann því, sem hann var að spurður.

Ég get ekki fallizt á það með hæstv, ráðh., að það sé ástæða til þess að vera að þessum eilífa samanburði á því, sem var einhvern tíma, ég vil segja í fyrndinni, og því sem nú er í dag. Við skulum bara líta á ástandið eins og það er í dag í þessum málum, eins og fleirum. Það er það, sem skiptir máli fyrir okkur, bæði í þessu máli og raunar öllum öðrum málum, að gera okkur grein fyrir málunum eins og þau eru. En þessi eilífi samanburður við fortíðina, hann er landlægur hér í þinginu og nánast óþolandi. Það, sem ég vil alveg sérstaklega benda á og segja sem mína skoðun, er, að húsnæðismálin séu eitt af þeim málum, sem eru einna lakast skipulögð í okkar þjóðarbúskap, og þyrftum við sannarlega að gera miklu betur, vegna þess að hér er um að ræða mál, sem eru með því allra fyrirferðarmesta í okkar þjóðarbúskap og þarf þess vegna að skipuleggja betur en flest annað Og það er á þetta, sem við þurfum sérstaklega að líta og sameinast um að reyna að kippa í lag, en þessi eilífi samanburður á því, sem var, og því, sem nú er, hann er ákaflega ófrjór, og ég held hann leiði ekki til neinnar niðurstöðu, heldur eilífs karps, sem ekkert gagn gerir. En þeir, sem hafa gaman af þessu eilífa karpi, þeir geta náttúrlega lagt sig niður við það og stundað það, en það leiðir ekki til neinnar niðurstöðu.

Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Austf, sagði, að það, sem er verst við húsnæðismálin, er þessi eilífa óvissa, sem ríkir í þeim málum. Menn vita eiginlega aldrei á hverju þeir eiga von. Húsnæðismálakerfið eða veðlánakerfið, það starfar mjög slitrótt og aldrei reglulega, það er reynslan um margra ára skeið, og það hefur einnig verið nú undanfarin ár, jafnvel þó að hæstv, ráðh. sé nú að reyna að halda því fram, að það sé eitthvað betra en það var fyrir 10, 12 eða 15 árum. Því miður er það nú svo, að húsnæðismálakerfið starfar mjög slitrótt og óvissa sífellt ríkjandi um það, hvað þar gerist, og það er þetta, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, það er þetta, sem er megingallinn á þessu kerfi. Í sjálfu sér er húsnæðismálalöggjöfin ekki svo slæm, ef hún væri framkvæmd, en á það brestur, að hún sé framkvæmd, og á það þarf að leggja megináherzlu, að hún verði framkvæmd eins og lög gera ráð fyrir, og þá er fullvíst, að við þurfum ekki að kvíða því, að hér yrði ekki sæmilegt ástand í húsnæðismálum, og þess vegna er það mitt allt, að við þurfum fyrst og fremst að gera stóraukið átak í því að afla byggingarsjóði fastra og öruggra tekna, þannig að veðlánakerfið geti starfað eðlilega og hindrunarlitið, jafnvel þó að því takmarki verði ekki náð, að lánahlutfallið verði jafngott og það gerist, þar sem bezt er í nágrannalöndum okkar.