21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Norðurlandsáætlun er nú búin að vera hér til umr. á þremur fundum hv. Sþ., og finnst e.t.v. mörgum nóg um, og ég skal ekki lengja mikið þessar umr. En þegar þetta mál var síðast á dagskrá ræddi ég nokkuð um vandamál Norðlendinga í atvinnu- og efnahagsmálum, og ég leyfði mér að rifja upp möguleikana, sem voru fyrir hendi hvað snerti atvinnufyrirtæki ríkisins á Siglufirði, og að þau gætu látið í té mun meiri atvinnu, ef öðruvísi væri á málum haldið hvað snertir hráefnisöflun og markaðsleit. Ég ræddi einnig um síldarflutninga frá fjarlægum miðum og fer því ekki frekar út í þá sálma hér, en þó vil ég minna á það, að síldarflutningaskipið Haförninn hefur verið alveg sérstök lyftistöng á síðasta ári, ekki einvörðungu fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins, sem það flutti afla til, heldur og fyrir verkafólkið, sem vann að nýtingu þess afla, sem Haförninn kom með, og síðast og þá ekki sízt fyrir þjóðarbúið í heild. Og ég vil nota þetta tækifæri hér til að undirstrika það, að þeir erfiðleikar, sem hafa skapazt í atvinnu- og efnahagslífi norðanlands og Norðlendinga, eru ekki einkamál þeirra, heldur mál allrar þjóðarinnar. Og þegar verið er að ræða um að reisa við úr rústum þar hrunið efnahagslíf, er það stórþjóðmál, sem er á ferðinni, en ekki einvörðungu mál Norðlendinga.

Það er því miður víðar, sem vantar hráefni, en á Siglufirði. Það eru víða til hraðfrystihús og verksmiðjur, sem bíða eftir því að fá hráefni til vinnslu. Á Sauðárkróki og Hofsósi eru hraðfrystihús, sem vantar verkefni. Ég minnti á það síðast fyrir viku, að Sauðkræklingar væru að reyna að kaupa sér skip, og ég vona, að það takist. Hefur ríkisstjórnin tekið vel í það mál, og vonum við, sem förum hér á Alþ. með málefni Skagfirðinga, að það verði að veruleika ekki síðar en í næsta mánuði.

Þá vil ég einnig minna á það, að vinnufúsar hendur Hofsósmanna þyrftu að fá eitthvað til að starfa og til að viðhalda byggð í þeim gamla verzlunarstað, sem er með þeim elztu á Íslandi.

Þá vil ég leyfa mér einnig í sambandi við þessar umr. að minna á, að í landbúnaðarhéruðum eins og Skagafirði og Húnavatnssýslu þarf fyrr en seinna að staðsetja og byggja verksmiðju, er fullvinni ull og gærur til notkunar innanlands og til útflutnings, svo að eitthvað sé nefnt, sem kallar að í iðnaðarmálunum.

Ég verð að segja það, að það er ekki sársaukalaust fyrir Íslendinga að sjá svo að segja allar gærur fluttar úr landinu óunnar, í stað þess að fullvinna þær hér heima. Ég held, að ég fari rétt með það, að á síðasta ári voru fluttar út 700 þús. gærur af 800 þús., sem til féllu. Sama er að segja um ullina. Helmingur af allri ull, sem til fellur í landinu, er fluttur út, en á sama tíma, sem þetta skeður, sér maður flutt til landsins alls konar garn og band og ýmsar skinnavörur frá erlendum þjóðum. Þetta er búið að vera svona í meira en 50 ár. Þetta er búið að vera svona síðan landbúnaður hófst hér á Íslandi, og þó að engan undri það, að engin breyting varð nú fram að aldamótunum síðustu, er það ískyggilega í sama farinu síðustu hálfa öld.

Það er mikið átak að byggja upp slík iðjuver sem þau, sem ég minntist hér á og mörg önnur, sem þurfa að rísa upp í Skagafirði og Húnavatnssýslum til að tryggja þar blómlega og vaxandi byggð, en ég vona, að Norðurlandsáætlunin geri meira en að benda á að slík iðjuver þurfi að koma upp á þessum stöðum, heldur verði þar um að ræða ákvæði um bein afskipti ríkisvaldsins álíka eins og 1930, þegar ríkið hóf starfrækslu Síldarverksmiðja ríkisins. Það er í raun og veru alveg sambærilegt. Þá hafði síldin alltaf verið eða að mestu seld útlendingum til vinnslu og var lítið unnin hér í landi, en þá urðu þáttaskil í þeirri sögu fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins, og ég vona, að álíka þáttaskil verði einnig á landbúnaðarsviðinu fyrr en seinna.

Ég ræddi fyrir viku síðan hér í Sþ. um Skagaströnd, og ég leyfi mér að minna enn á Skagastrandarmál. Þau eru í ólestri. Þar er hvað mest atvinnuleysi á Norðurlandi. Höfnin hefur orðið fyrir áföllum, og hefur lítið við hana verið gert, og það var einmitt til þessarar byggðar, sem fólk var hvatt til að flytja búferlum, því að þar ætti að byggja upp stóran kaupstað. Ég trúi ekki öðru en eftir þessum stað, sem átti að verða svo stór, verði munað í áætlun sumarsins.

Ég lýk svo máli mínu með því að segja, að ég er ekki einn þeirra, sem telja miður farið, að útibú hafi verið stofnsett á Akureyri frá Efnahagsstofnuninni og að Norðurlandsáætluninni verði lokið þar. Það á að vera og er kappsmál Norðlendinga, og ég vil alveg undirstrika það hér, — það er kappsmál Norðlendinga, að staðsettar verði sem flestar stjórnsýsluskrifstofur eða útibú þeirra á Norðurlandi. Og að gefnu tilefni vil ég taka undir það, sem síðasti ræðumaður sagði hér, að ég treysti þeim manni, sem hefur verið settur til þess að ljúka Norðurlandsáætluninni, til að vinna það verk, og ég vona og læt það verða mín síðustu orð, ég vona að Norðurlandsáætlunin verði sannkallað óskabarn. sem mikils má af vænta, þegar hún sést.