21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í D-deild Alþingistíðinda. (3166)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram, tel ég, að menn eigi hér rétt á lengri ræðutíma, þar sem um tvær fsp. er að ræða. En ég ætla ekki að tala um það, enda bað ég hér aðeins um stutta aths. Af því að ég hóf þessar umr. fyrir nokkru með fsp., finn ég hjá mér hvöt til þess að segja nokkur orð nú undir lokin, en örfá.

Ég vil segja það, að ég tel, að þessar umr. hafi orðið til gagns, ótvírætt til gagns, en af því að nú á þessum fundi og reyndar fyrr hefur verið farið nokkuð út í það af einstökum hv. þm. að nefna eitt og annað, sem eðlilegt væri að yrði í Norðurlandsáætlun, vil ég aðeins minna á það, að það er eitt, sem áreiðanlega þarf að vera í þessari áætlun, sem hún þarf að fjalla um og ekki má undan falla að fjalla um, og það eru raforkumál Norðlendinga. Það er nú þannig ástatt, að aðalraforku stöðin á Norðurlandi, þ.e.a.s. stærsta raforkustöðin, Laxárvirkjunin, er fyrir löngu orðin allt of lítil og það hafa verið settar niður dísilstöðvar til þess að bæta úr því. Dísilstöðvar eru raunar víðar og veitt út frá þeim rafmagni. Þetta er áreiðanlega eitt af því, sem þarf að fjalla um í Norðurlandsáætlun, hvernig á að sjá um það, að Norðurland fái viðunandi raforku og trygga raforku, áður en langt um líður. Og þá einnig í því sambandi, að lokið verði rafvæðingu dreifbýlisins í fjórðungnum, sem hefur auðvitað mikla þýðingu í sambandi við það að tryggja byggð í sveitum.

Ég skal ekki nota um of þennan aths.-tíma, sem hæstv. forseti veitti mér, aðeins segja það að lokum í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði á sínum tíma, að hann vonaði eða gerði ráð fyrir, að áætlunin lægi fyrir á þessu ári, sem nú er hafið, að ég teldi mjög æskilegt, að það gæti orðið á miðju árinu, 1. júlí og í síðasta lagi kringum 1. ágúst, sem þessi áætlun lægi fyrir.