15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum ekki orðið sammála í fjhn. um afgreiðslu þessa máls, meiri hl. vill mæla með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir, en við í minni hl., ég og hv. 4. og 5. þm. Austf., viljum gera á frv. eina breyt. og flytjum um það till. í nál. okkar á þskj. 156.

Við erum sammála meiri hl. um það, að rétt sé að setja í lög 1. gr. frv., en hún er um það að gera viðtækari þann tekjufrádrátt, sem sjómenn hafa notið við álagningu skatta. En ágreiningurinn er um 2. gr. frv., og við leggjum til, að hún verði felld niður úr frv. Í þeirri gr. er till. um það, að virðingu fasteigna til eignarskatts skuli þannig hagað, að gildandi fasteignamat skuli hækkað um 800%, þ.e.a.s. í kaupstöðum og kauptúnum, og í sveitum að því er varðar mat á jörðum um 350%. Nú er fasteignamat sexfaldað í kaupstöðum og kauptúnum, þegar eignarskattur er ákveðinn, og við teljum ósanngjarnt að leggja slíkar viðbótarálögur á almenning sem gert er ráð fyrir í þessari gr., þegar á það er litið, að fólk verður nú að taka á sig þungar klyfjar í sambandi við þá gengisbreytingu, sem nýlega hefur verið gerð.

Við teljum heldur ekki þörf á því að hækka skatta til ríkissjóðs eins og hér er gert ráð fyrir, þar sem tekjur ríkissjóðs munu mjög aukast í sambandi við gengisbreytinguna. Enn viljum við benda á það, að núverandi fasteignamat er mjög ótraustur grundvöllur til að byggja á skattlagningu. Við teljum einnig, eins og kom fram í 1. umr. um þetta frv., ranglátt að margfalda fasteignamatið með sömu tölu í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins, því að það er alkunnugt, að gangverð á húsum er langtum lægra víða um land í hlutfalli við fasteignamat heldur en hér í Rvík og í nágrannakaupstöðum hennar. Það er því ranglátt að okkar dómi að nota sömu margföldunartölu á fasteignamatið á þessum svæðum. Um það ákvæði gr. að hækka fasteignamat á jörðum um 350%, áður en eignarskattur er á lagður, er það að segja, að það er langt frá því, að jarðir víða um land séu seljanlegar fyrir þetta verð, fasteignamat með 350% álagi, og því er það einnig rangt að hækka þær svo mikið í mati. Við bendum einnig á, að ef fært þætti og sanngjarnt að hækka skatta á fasteignum, þá teljum við, að sveitarfélögin eigi að njóta þess.

Hér liggur fyrir þingi og þessari d. eldra stjfrv. um efnahagsaðgerðir, og það er nú enn hjá fjhn. og hefur ekki verið afgreitt, en eftir að það kom fram, barst nefndinni bréf frá Samb. ísl. sveitarfélaga um efni þess frv., dags. 8. nóv. Í því bréfi er m.a. rætt um þá till. ríkisstj. að margfalda fasteignamat við álagningu eignarskatts með tölunni 12, — að vísu hefur nú stjórnin lækkað sig dálítið, — en það breytir ekki því, að það er álit Samb. ísl. sveitarfélaga, sem fram kemur í þessu bréfi, sem ég minntist á, að sú stefna, sem þar er mörkuð, sé mjög varhugaverð og ósanngjörn gagnvart sveitarfélögunum, og undir þetta viljum við taka, sem skipum minni hl. fjhn.

Verði till. okkar samþykkt, að fella niður 2. gr., þá munum við í 3. umr. um frv. taka til athugunar að flytja brtt. við aðrar gr., t.d. þá 5., til samræmis við það, ef 2. gr. verður felld niður. En ef svo skyldi fara, að hv. þd. vildi ekki fallast á þá till. okkar að fella 2. gr. burtu úr frv., þá munum við flytja brtt. við frv. í 3. umr. Við munum leggja til, að álagið á fasteignamatið verði lækkað í fámennari kaupstöðum og kauptúnum og í sveitum og við munum einnig leggja til, að skattfrjáls eign verði hækkuð frá því, sem lagt er til í 3. gr. frv. Einnig munum við leggja til, að inn í frv. verði sett ákvæði um það, að fyrirmæli 2, gr. um margföldun fasteignamatsins skuli falla úr gildi, þegar nýtt fasteignamat tekur gildi.

Fasteignamat er nú búið að vera lengi í smíðum hér og þess er að vænta, að því verði lokið innan skamms. Við töluðum um þetta á fundi í fjhn., að sjálfsagt væri að setja þarna inn ákvæði um það, að þessi fyrirmæli um margföldun matsins ættu að falla niður jafnskjótt sem nýja fasteignamatið tæki gildi. Meiri hl. fjhn. tók sér nokkurn tíma til að athuga þetta mál og ég hygg, að form. nefndarinnar og frsm. meiri hl. hafi rætt um þetta við hæstv. fjmrh., en niðurstaðan af því var sú, að hæstv. ríkisstj. er ekki reiðubúin til þess að lögfesta nú, að ákvæði um margföldun matsins skuli falla niður, þegar nýja matið kemur í gildi, og um leið og það er vilji hæstv. ríkisstj., að þetta skuli óbreytt standa í frv., þá er það um leið vilji meiri hl. fjhn., hv. stjórnarstuðningsmanna þar.

En nú er eftir að sjá, hvað þd. gerir við þetta. Við teljum ákaflega óeðlilegt, að í lögum verði ákvæði um níföldun fasteignamatsins, þegar nýja fasteignamatið er komið í gildi, og eins og ég sagði, verður það ein af okkar brtt., að það verði tekið fram í lögunum, að þessi ákvæði um álagið á fasteignamatið skuli falla niður um leið og nýja matið kemur í gildi. Mér sýnist þetta vera svo sjálfsagt mál, að um þetta hefði ekki átt að geta orðið neinn ágreiningur, en hæstv. stjórn virðist líta öðruvísi á þetta. Hún vill hafa þetta í lögum áfram, hvað sem fasteignamati líður, maður fær ekki annað séð.

Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir mig að hafa um þetta nál. okkar fleiri orð. Eins og ég hef lýst, þá mælum við með því, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, að 2. gr. falli burt.