06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgmrh. greinargóð svör hans við þessari fsp., og ég ætla ekki að ræða þau frekar, en ég held, að menn séu núna óðum að átta sig á því, að samgöngubætur eru ekki bara skemmtilegur munaður, heldur arðbær fjárfesting, sem skilar þjóðarbúinu bæði aukinni og betri framleiðslu og færir menningarstrauma um landið.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Vesturl. drap á hér áðan, að áhugi manna á brúargerð yfir ósa Hvítár er engin nýlunda. Menn hafa íhugað þetta mál í meira en 30 ár. Það er líka rétt, sem þessi hv. þm. sagði, að hann hefði komið þessu máli á framfæri á Alþ. fyrir 10 árum. Þá sat að vísu vinstri stjórn, og hún sat, ef ég man rétt, fram undir áramót það ár, svo að henni hefur nú getað gefizt tóm til þess að skipa n. eða hefja rannsókn á því, en það gerði hún þó ekki, þannig að hv. 3. þm. Vesturl. getur þá beint skeytum sínum til hennar, ef hann vild gera það í þessum efnum.

En þessum hv. þm. láðist, úr því að hann fór inn á þessa línu, að gera hér grein fyrir höfuðatriði málsins. Aðalatriði þessa máls er það, að sigling til Borgarness var dag hvern 1958, þegar hann flutti sína till. Þá gekk Akraborgin á hverjum degi frá Reykjavík um Akranes til Borgarness. Það voru hinar þýðingarmestu samgöngur, og þegar það nú skeði fyrir hálfu öðru ári, að þær samgöngur brustu, — það varð að láta skipið hætta þessari siglingu af fjárhagsörðugleikum, — skapaðist nýtt viðhorf, og það var þess vegna, sem héraðsstjórnin í Borgarfirði, sýslunefndirnar báðar, gerði sína eindregnu áskorun um það, að fram færi þessi rannsókn. Þetta er meginmál þessa efnis, að það hefur brostið allar forsendur fyrir því að taka á málinu eins og gert var áður fyrr. Það er nýtt viðhorf, sem skapast af því, að þessar þýðingarmiklu samgöngur, siglingin dag hvern, hefur brugðizt. Akraborgin flutti áður alla mjólkina, hún er núna um 5 millj. lítrar á ári, allt kjötið, sem er 12—15 hundruð tonn á ári, og farþega milli Borgarness, Akraness og Reykjavíkur. Þetta skip gengur ekki lengur, og það er þess vegna, eins og ég sagði áðan, sem málið horfir allt öðru vísi við í dag.

Þetta vildi ég að kæmi fram, því að þetta er ein höfuðforsendan fyrir því, að hv. Alþ taki þetta mál nú til sérstakrar meðferðar. Það má líka minna á það, að það er ekki ósanngjarnt að segja, að missir siglingarinnar, sem var studd af ríkisfé, auki verulega á siðferðilegan rétt Vestlendinga til þess, að fjármunir hins opinbera verði látnir ganga til þessarar umræddu brúargerðar. Þetta á að sjálfsögðu ekki aðeins við um Borgnesinga og Borgfirðinga, heldur jafnframt auðvitað um Snæfellinga og aðra Vestlendinga, og ég vil leyfa mér að segja aðra íbúa bæði á Norður og Austurlandi.

Ég vil svo að lokum minna á það, að fulltrúar allra stjórnmálaflokka, eins og hv. þm. Jónas Árnason vék hér að áðan, sem buðu fram í Vesturlandskjördæmi í fyrra, lýstu yfir því fyrir kosningarnar, að þeir styddu þetta mál eindregið.

Ég vil leyfa mér að endurtaka þakklæti mitt til samgmrh. fyrir upplýsingar hans.