12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mér hefur nú skilizt, að afgreiðslu þessa máls bæri heldur að hraða í þessari hv. deild og hafði satt að segja gert ráð fyrir því að flytja hér stutta framsöguræðu fyrir því nál., sem ég er frsm. fyrir, en mér sýnist hins vegar af þeim framgangsmáta, sem hefur verið hafður til þessa um málið hér, að það liggi ekki mikið á, og ég mun því leyfa mér að fara um þetta mál nokkrum almennum orðum, áður en ég vík að efni frv. sjálfs.

Annars vil ég gjarnan fyrir mitt leyti nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir það að flytja fyrir okkur viðreisnarræðuna. Það er nokkuð langt síðan hún hefur heyrzt hér á Alþingi og a.m.k. í mínum eyrum var hún ljómandi skemmtileg, þegar hún er skoðuð í ljósi þeirra staðreynda og þeirra viðburða og þeirrar atburðarásar, sem átt hefur sér stað síðan hún var fyrst flutt. Ég sé síður en svo ástæðu til þess að amast við því að fá að heyra hana einu sinni enn og þakka fyrir hana.

Það er annars meira ástandið, sem hér hefur verið áður en viðreisnarstjórnin kom til valda, menn eiga bara erfitt með að hugsa sér það lengur. Þá var t.d. enginn Seðlabanki, það var bara einhver heildsala á peningum, sem seldi pappírsmiða frá Englandi í heildsölu til annarra banka, þvílíkt og annað eins. Þá var engin Efnahagsmálastofnun til þess að reikna út gengislækkanirnar, þær voru bara reiknaðar á hnjánum. Menn geta svo sem ímyndað sér, hvernig útkoman á þeim reikningum hefur verið eða hvaða munur sé núna, þegar vísindaleg tækni er tekin í þjónustu ríkisstj. til þess að reikna út, hver gengislækkunin þurfi að vera, og það er stöðvuð framkvæmd mála hér í viku, til þess að sérfræðingarnir geti skilað álitinu.

Það liggur nú í augum uppi, allra sem hér eru inni, hv. þm., hvernig útreikningurinn var hjá Efnahagsstofnuninni og sérfræðingum ríkisstj., og menn geta dundað við að gera samanburð á því, hvernig sá útreikningur standist í samanburði við þá útreikninga, sem gerðir voru með gamla laginu, þegar allt var hér á frumstigi. Það var heldur ekkert hagráð til, og hvernig fóru menn að, áður en hagráð kom? Skyldi nú ekki vera munur að styðjast við niðurstöður hagráðs í stjórninni heldur en að hafa bara brjóstvitið, eins og menn urðu að hafa hér áður fyrr? En staðreyndin er bara sú, að þrátt fyrir það, að ekkert af þessum stofnunum, ekkert af þessum hagstjórnartækjum var til, þá tókst bara ekkert verr að stjórna landinu en núna og bara í sumum tilfellum miklu betur, svo að annaðhvort er, að þessi hagstjórnartæki eru ekki eins þörf og af er látið, eða þá að notkun þeirra hefur farið eitthvað óbjörgulega úr hendi. Ég skal ekki gera tilraun til að svara því, hvort heldur það er, sem þessu veldur. Það er talað um, að þetta frv., sem hér er til umr., fjalli um tollalækkun. Það er nú rétt að því leyti til, að þetta frv. fjallar um það að lækka innflutningstolla í % af innfluttri vöru, en í raun réttri er þó hér fyrst og fremst um það að ræða, að lagt er til að skila aftur nokkrum hluta af þeim tekjuauka, sem ríkissjóði barst, þegar síðasta gengislækkun fór fram. Eins og allir hv. þm. vita, var genginu breytt í nóv. s.l. þannig, að gengið var fellt um 24,6%, sem jafngildir 33% verðhækkun á erl. gjaldeyri. Af þessari breytingu leiðir m.a. það, að tekjur ríkissjóðs hljóta að aukast gífurlega af innflutningi varnings til landsins að óbreyttum tollstiga, enda hefur það jafnan verið svo, þegar gengislækkun hefur verið framkvæmd, að þá hafa verið látnar fylgja henni margvíslegar hliðarráðstafanir, sem svo hafa verið kallaðar, og ein af þeim, sem alltaf hefur þá verið talin sjálfsögð, er lækkun tolla, veruleg lækkun innflutningstolla til þess að draga úr óheppilegum áhrifum gengislækkunarinnar á lífskjörin í landinu.

Ég minnist þess ekki að hafa séð það útreiknað af sérfræðingum, hverju þessi áætlaði tekjuauki mundi nema, og ég man ekki, hvort hæstv. fjmrh. talaði um það hér, en ég hef þó heyrt nefndar tölur einhvers staðar í kringum 550 millj. kr. Ég held því ekki fram, að ég sé hér með 100% rétta tölu, en einhvers staðar nálægt því, og mig minnir, að aðflutningsgjaldatekjur á fjárlögum hafi verið ráðgerðar 300 millj. kr. hærri heldur en þær voru í fjárlagafrv. í sinni upphaflegu mynd. Auk þess stóð til að fella niður aðflutningsgjöld að upphæð 250 millj. kr.

Ef þessar tölur eru réttar, sem ég rifja hér upp eftir minni, þá mundi ráðgerð hækkun að óbreyttum tollum hafa numið 550 millj. kr. Ef maður hins vegar miðar við efnahagsmálafrv., sem lagt er fram í upphafi þings og minnzt var á hér áðan, þá voru ráðgerðar tekjur, sem vantaði í ríkissjóð, 750 millj. kr., en niður átti að fella útflutningsuppbætur að upphæð 300 millj. kr., þannig að þar skeikaði 450 millj. kr. En auk þess hafa svo verið teknar upp nýjar uppbætur til útflutningsatvinnuveganna eða nýir styrkir, eða hvað menn vilja kalla það, 300–400 millj. Þá mundi þessi upphæð vera eitthvað nálægt 750 millj., og þá er þess að gæta, að fjárlögin hækkuðu í meðförum þingsins um álitlega fjárhæð, þannig að ég hygg, að hvora aðferðina, sem menn nota til að reikna þennan tekjuauka, komist menn að nokkuð svipaðri niðurstöðu. Auðvitað liggur þetta fyrir hjá hæstv. fjmrh. og má vera, að hann hafi upplýst það, þó ég muni það ekki lengur. Þetta efnahagsmálafrv. var dregið til baka, vegna þess að gengislækkunin gerði það óþarft, tekjuaukinn var svo mikill, að það þurfti ekki lengur að afla nýrra tekna. Þó var þetta ekki afturkallað að öllu leyti. Ég man eftir tveim smáálögum nýjum, sem haldið var, þrátt fyrir gengisbreytinguna. Það voru 30 millj. kr. tekjur af eignarskatti vegna nýs mats, sem upp var tekið, og 20 millj. kr. af póst- og símagjöldum.

Þegar þetta var hér til umr., þá minnist ég þess, að nokkrir þm., þ. á m. ég, töldu að þessir póstar væru óþarfir. (Gripið fram í.) Það var heimild, það var tekið upp í öðru atriði í heimildarformi, ég bið afsökunar. En ég minnist þess í sambandi við eignarskattinn, sem ég vænti, að ekki hafi verið felldur niður, að menn töldu hann nokkuð óþarfan, en hæstv. fjmrh. vildi ekki sleppa honum og taldi, að hann yrði að nota til þess að jafna lífskjörin í landinu með stórkostlegri tollalækkun, sem boðuð var innan lands og utan. Það kom öllum saman um, þegar þessi mál voru til umr. þá, að slíkar hliðarráðstafanir væru nú sem fyrr algjörlega nauðsynlegar, vegna þess hvað gengislækkunin mundi hafa mikil verðhækkunaráhrif í för með sér. Og alveg sérstaklega töldu menn þessar hliðarráðstafamir nauðsynlegar nú og nauðsynlegri heldur en oft áður, vegna þess að jafnhliða gengislækkuninni var fellt niður það samband, sem áður hafði verið milli kaupgjalds og verðlags, þannig að eftir lagasetninguna í nóv. s.l. fá menn ekki lengur dýrtíðaraukann uppi borinn í launum sínum sjálfkrafa, heldur verða hér eftir að leita réttar síns á annan hátt.

Ég hygg því, að það sé algert einsdæmi í sögu s.l. ára, að þannig sé að þessum málum staðið, að gengið sé lækkað um 25% eða gjaldeyrir sé hækkaður um 33%, jafnhliða sé felld niður vísitölutrygging launa og hliðarráðstafanirnar hafðar í svo smáum stíl sem hér ber raun vitni.

Skv. margumtöluðum útreikningum sérfræðinga hæstv. ríkisstj, átti hagur ríkissjóðs að batna svo stórkostlega við gengisbreytinguna, að hann átti í fyrsta lagi að duga til þess að jafna fjárlögin, að jafna þessar 750 milljónir að frádregnum þessum 300 millj. útflutningsuppbótum, sem felldar voru niður, og að gefa eftir 250 millj. kr. í tollum. Menn hafa áreiðanlega lagt mikinn trúnað á þennan boðskap, því hvort tveggja var, að hann var sanngjarn og auk þess var því lýst yfir með talsverðu yfirlæti, að aldrei hefðu fyrr legið fyrir jafn nákvæmir útreikningar á högum atvinnuveganna.

Menn minnast þess, að hér á hv. Alþingi var frv. um ráðstafanir vegna gengisbreytingar Seðlabankans látið bíða í vikutíma, meðan verið var að gera þessa útreikninga, meðan sérfræðingar hæstv. ríkisstj. reiknuðu það nótt og dag, hvað gengislækkunin þyrfti að vera mikil umfram gengislækkun pundsins til þess að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll, svo notað sé viðreisnarorðalag.

Á þessu tímabili, í þessari síðustu viku nóvembermánaðar, greip um sig, eins og alkunnugt er, mikil kaupgleði, sumir kalla það jafnvel kaupæði. Fólk reif peninga úr bönkunum og sparisjóðunum í stórum stíl til þess að kaupa ýmiss konar varning á lága verðinu og það láir því vitanlega enginn. Það er svo aukakapítuli, sem skiptir kannske ekki máli í þessu sambandi, en ég get ekki stillt mig um að geta um, að á sama tíma sem þetta gekk yfir, þá notaði Seðlabankinn og hæstv. ríkisstj. tækifærið til þess að selja nokkuð af óseldum skuldabréfum og spariskírteinum ríkissjóðs, og var jafnvel gengið svo langt að auglýsa það í sjónvarpinu, að þessi skuldabréf væru gengistryggð, sem enginn fótur er þó fyrir. Að vísu er skylt að geta þess, að það var nú borið til baka, en einhverjir hafa kannske verið búnir að kaupa bréfin út frá þessum forsendum. Þannig að enda þótt hv. 12. þm. Reykv. legði sig fram um það hér áðan að sýna fram á það, að útreikningar hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar hefðu nú ekki verið fyrst og fremst við það miðaðir að fá útkomu úr þessu dæmi, sem ég var hérna að nefna, þá held ég, að það þýði ekkert að segja okkur það, að það hafi ekki verið tilgangur þessara útreikninga. Það var alveg áreiðanlega verið að reikna það út, hver gengislækkunin þyrfti að vera. Eftir hverju var verið að bíða, ef ekki því? Það þýðir ekkert að koma núna eftir á, eftir að það er búið að sýna sig, að reikningarnir eru tóm vitleysa og segja, að það hefði verið eitthvað annað, sem menn voru að reyna að reikna. Nei, það var þetta, þótt árangurinn sé ekki betri en raun ber vitni.

Eftir þessa umhugsunarviku kom niðurstaðan, að það væri hægt að endurgreiða eða fella niður tolltekjur um 230–250 millj. kr. Mig minnir, að hæstv. fjmrh. hafi þá nefnt þessa tölu. Síðan hefur hann raunar upplýst, að það hafi verið haft í huga að gera betur og talaði um 270 millj. kr., en ég minnist þess ekki, að hann hafi haft það á orði þá, heldur 230–250 millj. kr. Og það var hægt að gera meira fyrir afganginn af gengisbreytingunni, það var hægt að leggja í sjóði fyrir atvinnuvegina til framtíðarinnar.

Þannig var þá fengin niðurstaða, en fljótlega eftir að hún var birt, tók að syrta í álinn. Sjávarútvegsmenn sýndu fram á það, að þrátt fyrir þessa útreikninga hagspekinganna væri aðstaða þeirra vonlaus eftir gengisbreytinguna, þeir gætu ekki gert út. Bæði útgerðarmennirnir og frystihúsaeigendurnir töldu sig þurfa meira. Og þeir gerðu betur en að telja sig þurfa meira. Þeir sannfærðu, eftir því sem nú er komið á daginn, sérfræðinga hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstj. um það, að þeir þyrftu meira, því að allar götur síðan gengið var fellt hefur staðið í þófi um það, hvaða uppbætur úr ríkissjóði þyrftu til að koma til þess að þessi útflutningsfyrirtæki gætu hafið rekstur sinn á ný. Síðustu tölur, sem birtar hafa verið um það efni, skilst mér að séu rúmar 300 millj. kr. Þessum fjárhæðum skilst mér að hæstv. ríkisstj. sé búin að lofa útflutningsatvinnuvegunum af umframtekjum ríkissjóðs, þessum sem átti að nota til þess að lækka tollana, án þess að hafa nokkurt samráð við Alþ., og nú er svo komið, að allur afgangurinn er uppétinn og meira til. Nú er ekkert eftir í þessa tollalækkun. Það vantar 159 millj. kr. til þess að geta framkvæmt það, sem í þessu frv. segir, og kannske eitthvað betur eftir brtt. hv. 12. þm. Reykv., sem ekki skiptir þó miklu máli, og 50 millj. að auki, samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh. Þannig er svo að sjá, að í þessum útreikningum skakki um 400–450 millj. kr. Það var talið hægt að lækka tolla um 250 millj. kr. Nú er það ekki hægt, það vantar um 50 millj. kr. að auki a.m.k. Auk þess er ekkert fé til þess að standa undir þeirri tollalækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þessi tollalækkun, sem frv. fjallar um, byggist á þeirri forsendu fyrst og fremst, eins og hv. frsm. meiri hl. réttilega tók fram, að fatnaður sé ein af brýnustu lífsnauðsynjum manna. Og út frá því sjónarmiði gengur meiri hl. þessara 150 millj. kr. annars vegar til þess að lækka tolla á innfluttum fatnaði — það er 51 millj. kr., sem á að verja í því skyni — og svo hins vegar til þess að jafna aðstöðu innlenda fataiðnaðarins sem þessu svarar — það eru um 49 millj. kr., sem varið er í því skyni — þannig að það eru 100 millj. kr. af þessu frv., sem stafa af lækkuðu verði á fatnaði.

Nú stendur líka til að lækka tolla af ýmsum matvörum um 27 millj. kr. Það er gert í því skyni að draga úr skaðlegum áhrifum gengis- lækkunarinnar á verðlagið í landinu.

Þá eru 14 millj. kr. sérstaklega ætlaðar til þess að lækka tolla á hráefni til málmsmíða, en eins og kunnugt er, hefur málmiðnaðurinn átt í mjög miklum erfiðleikum að undanförnu í erfiðri samkeppnisaðstöðu við innflutta vöru, sem úr málmum er gerð, og það er reiknað hér með 14 millj. kr. tollalækkun í þessu skyni.

Þá eru hreinlætisvörur, það er lagt til, að tollar af þeim lækki um 4 millj. Það sama er um sjónvörp og útvörp, 4 millj., og svo eru að lokum 9 milljónir kr., sem ráðgert er að falli niður af tekjum ríkissjóðs, vegna lækkunar á hæstu tollum, í samræmi við meginstefnu ríkisstj. í tollamálum, eins og segir í aths., hvað sem kann að vera átt við með þeim orðum, því að þessari meginstefnu hæstv. ríkisstj. í tollamálum er nú satt að segja hálferfitt að gera sér grein fyrir, a.m.k. eins og sakir standa.

Hv. 12. þm. Reykv., frsm. meiri hl., sagði hér áðan, að það skipti svo sem ekki miklu máli, að því er mér skildist, hvort tollalækkunin væri 159 millj. eða 250 millj., vegna þess að sú tollalækkun, sem frá var horfið, hefði haft sáralitla þýðingu til lækkunar vísitölu. Ég óska mjög eftir því að fá nánari útskýringu á þessum orðum, annaðhvort frá hv. 12. þm. Reykv. eða hæstvirtum fjmrh., því að ef til hefðu verið 100 millj. til þess að lækka tollana í viðbót, hefði það vitanlega verið vandalaust verk fyrir hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar að verja þeim þannig, að það kæmi að notum til lækkunar á vísitölu. Og ef hæstv. ríkisstj. hefur haft einhverja aðra tollalækkun í huga, sem hún hefur svo horfið frá, hefði hún átt að endurskoða þá afstöðu.

Það hlýtur að skipta fólkið í landinu, sem kaupir innfluttar vörur, ekki svo litlu máli, hvort tollalækkunin er 159 millj. eða 250 millj., en ef það er eitthvað annað, sem hér er átt við, en það sem ég nú segi, þá er gott að fá það upplýst. Hvað var það, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að lækka tollana svona á, en ekki kom til með að hafa áhrif á verðlagið í landinu og vísitöluna? Það er auðvitað alkunn staðreynd, að íslenzkur iðnaður hefur átt mjög í vök að verjast á undanförnum árum, enda þótt hæstv. iðnmrh. og aðrir hæstv. ráðh. virðist ekki vilja kannast við þá staðreynd.

Það eru 1 eða 2 ár síðan ég flutti hér ásamt öðrum þáltill. um að fram yrði látin fara athugun á því, hvað ylli þeim samdrætti, sem sannanlega var þá orðinn í iðnaði og hefur raun ar orðið meiri síðan, og fyrirsjáanlegt var, að yrði meiri. Þessari þáltill. var vel tekið af samtökum iðnaðarmanna, henni var vel tekið af Iðju, félagi verksmiðjufólks, og ég reikna ekki með, að forráðamenn þess félags verði vændir um stjórnarandstöðudekur eða framsóknarmennsku. Þeir lögðu til, að þessi athugun yrði látin fara fram, vegna þess að þeir vissu að hverju fór í iðnaðinum, en þessi till. hefur aldrei fengizt samþ. og ýmsir þeirra, sem hefðu þó átt , að þekkja samdráttinn í iðnaðinum, vildu m.a. ekki ljá henni lið.

En þetta frv. gerir svo sem ekki neitt til þess að laga aðstöðu iðnaðarins. Það segir beinlínis í aths. frv., og það hefur verið rakið hér, að tollalækkunin sé jöfnum höndum á tilbúnum innfluttum fatnaði og á hráefnum til iðnaðarins, og keppikefli frv. er, eins og segir á bls. 17 í aths. með frv.:

„Þessi lækkun hráefnatolla miðast við, að samkeppnisaðstaða iðnaðarframleiðslu í landinu gagnvart innfluttum iðnaðarvörum sé ekki lakari, en hún var fyrir gengisfellingu“, — að hún sé ekki lakari.

Þá segir, að sýnilegt sé, að ýmsar greinar iðnaðar séu mun betur settar eftir gengisbreytinguna en áður, svo sem umbúðaiðnaður, sumar greinar byggingaiðnaðar, veiðarfæraiðnaður, sútun, húsgagnaiðnaður. Ja, það má vel vera, að gengislækkunin verði þeim að einhverju liði, en þetta tollalagafrv. miðar ekki að því að bæta aðstöðu iðnaðarins, það miðar að því að halda henni óbreyttri. En ég ætla ekki að gera það að neinu sérstöku ágreiningsefni hér frekar en gert var í n. Hv. form. fjhn., 12. þm. Reykv., upplýsti mig um það í fjhn., að fulltrúar frá iðnaðinum hefðu tekið þátt í samningu þessa frv. ýmist væru þeir meðlimir í tollalaganefnd, eða hefðu verið sérstaklega kvaddir til. Það hefðu að vísu komið fram mjög margar aths. og ábendingar frá þeim, en það hefði verið reynt að koma til móts við þær eftir beztu getu og þeir mundu ekki bera fram sérstakar kvartanir í þessu efni, og þá situr auðvitað ekki á mér að vera að því, og ég geri það ekki. En ég bara minni á þessa aðstöðu, sem iðnaðurinn er í hér. Hún er náttúrlega engan veginn nógu góð og hefði auðvitað þurft að laga hana, hvort sem það væri gert með tollaráðstöfunum eða einhverju öðru.

Já, hvernig á svo að standa undir þessum tollalækkunum, þegar reikningsgróðinn, sem var talað um hér í nóv. og des., er gufaður upp? Því er ekki að neinu leyti svarað í þessu frv. Það er ekkert, ekki stafur um það í þessu frv., hvernig eigi að mæta þeim tekjumissi, sem ríkissjóður verður fyrir af þessum sökum. Það myndi heldur ekki hafa komið neitt að sök, ef frv. hefði verið borið fram á þeim tíma, þegar fjármagn var til í ríkissjóði, það er vafalaust samið á þeim tíma, það er kannske þess vegna, sem þetta vantar í frv., ég býst kannske við því. Hæstv. fjmrh. fann auðvitað, að hér var galli á gjöf Njarðar, og hann vildi upplýsa þingheim um það, hvernig ætlað væri að afla tekna til þess að standa undir þessu frv. Og hvernig var það? Ja, það er búið að hækka verð á áfengi og tóbaki um 10%. 10% af 900 millj. kr. sölu Áfengisverzlunar ríkisins hefði að óbreyttu magni átt að gefa 90 millj. kr. tekjuauka, en hann er áætlaður hér 50 millj. og virðist þá gert ráð fyrir því, að nokkur sölurýrnun verði af þessari hækkun, og er ekki nema gott eitt um það að segja. Þarna eru þá komnar 50 millj. af þessum 159, sem vantar. En hvað þá um afganginn? Jú, hæstv. fjmrh. sagði hér við 1. umr. frv. um daginn, að það ætti að draga úr útgjöldum ríkisins á árinu 1968, aðallega rekstrargjöldum — ég held, að þetta sé efnislega rétt, ég hef ekki orðalagið, — um 100 millj. kr.

Það er m.ö.o. samkv. yfirlýsingu hæstv. fjmrh. nú unnt að lækka rekstrarliði þeirra fjárlaga, sem hér voru samþ. fyrir 11/2 mánuði síðan, um 100 millj. kr. En hvaða liðir eru það, sem á að lækka? Um það hefur ekkert svar fengizt. Ég leyfði mér að bera fram fsp. um það í fjhn., til formanns hennar, hv. 12. þm. Reykv., hvaða liðir þetta væru. Hann sagðist ekki geta svarað því. Ráðuneytisstjóri fjmrn. kom á fund n. Einnig hann var spurður þessarar sömu spurningar. Hann vísaði henni algjörlega frá sér. Báðir þessir menn töldu, að eini aðilinn, sem fær væri um að svara þessu, væri hæstv. fjmrh. Þess vegna sendu nokkrir nm. hæstv. fjmrh. þá orðsendingu munnlega að vísu, að þeir óskuðu upplýsinga um það, hvaða liði fjárlaga hann hefði hugsað sér að lækka til þess að mæta þessari tekjurýrnun, og sumir þessara manna a.m.k. lögðu áherzlu á það, að mjög erfitt væri að gera sér grein fyrir málinu, án þess að þessi vitneskja lægi fyrir. Svar kom greitt og fljótt frá hæstv. fjmrh. Það var þess efnis, að hann gæti á engan hátt svarað þessu, það væri ómögulegt að segja um það á þessu stigi, hvaða liðir það væru, sem ætti að lækka, og hv. alþm. yrðu bara að gera svo vel að bíða þangað til stjórnarráðið væri búið að athuga það, hvaða liði nýsamdra og nýafgreiddra fjárlaga skyldi nú skera niður um 100 millj. kr.

En í þessum ummælum, sem ég rifjaði hér upp áðan, þess efnis, að þetta ætti aðallega að vera á rekstrarliðum, er þó nokkur vísbending fólgin, sem sagt sú, að eitthvað eigi þó að taka af fjárfestingunni. Og satt að segja hélt ég, að fjárfestingarliðir fjárlaganna væru ekki svo beysnir eftir margendurteknar niðurskurðaraðgerðir hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum, að þeir væru aflögufærir. Ég held, að þeir séu það ekki.

En hver eru svo þessi rekstrargjöld sem gætu lækkað? Ég óska mjög eindregið eftir því, núna við þessa umr., að hægt sé að upplýsa þm. um það. Það skiptir vissulega miklu máli, hvaða liðir fjárlaga það eru, sem á að skera niður um 100 millj. kr. Hvernig er það t.d. með fjölskyldubætur, eru þær ekki rekstrarliður á fjárlögum? Já, fjárfestingarliður eru þær tæpast, svo að ég býst við, að þær teljist til rekstrarliða. Eru það kannske þær, sem eiga að lækka um 100 millj. kr.? Ég skal engu spá um það, en ég segi bara það, að ef það eru t.d. fjölskyldubæturnar eða einhverjir aðrir ámóta liðir, þá er ég ekki viss um, að almenningur í landinu telji þessa tollalækkun þess virði að framkvæma hana, ef hún á að verða gerð t.d. á kostnað fjölskyldubótanna eða einhverra annarra liða almannatrygginga. Ég er ekkert að halda því fram að þetta standi til. Þó að það hafi að vísu heyrzt, að þetta hafi komið til umr. í hæstv. ríkisstj., þá dettur mér ekki í hug að halda því fram að óreyndu og án þess að hafa neina vitneskju um það, að það sé einmitt þetta, sem stendur til. En þetta er rekstrarliður, og samkv. yfirlýsingu hæstv. fjmrh. er ekkert fram komið enn, sem útilokar, að það sé þessi liður, sem á að lækka.

Mér finnst það satt að segja vera lágmarkskrafa, að mönnum sé gefin einhver hugmynd um það, hvaða breytingar á að gera á nýsömdum fjárlögum, þegar farið er fram á stuðning þeirra við þetta tollalækkunarfrv. Til eru þeir menn, sem halda því jafnvel fram, að það þurfi ekki að lækka nein rekstrarútgjöld á fjárlögum, vegna þess að þessir útreikningar séu nánast tómar ágizkanir, sem ekkert sé á að byggja. Ég skal nefna hérna dæmi um það, hvernig rökstyðja mætti, að útgjaldaliðir fjárlaga þyrftu jafnvel ekki að lækka. Þegar verið var að áætla á fjárlögum tekjur af innflutningsgjöldum, hvað þau myndu hækka vegna gengisbreytingarinnar, voru teknar inn aðeins 300 millj. kr. eða 17% hækkun á aðflutningsgjöldum, enda þótt verð erlends gjaldeyris og innfluttrar vöru hækkaði um 33%. Nú, gott og vel, þetta er gert, þessi hækkun er aðeins áætluð 17% vegna þess að það á að lækka tollana um 250 millj. Þetta getur verið rétt, 250 millj. geta svarað til afgangsins af verðhækkuninni, þannig að hér sé rétt reiknað. En nú, eftir að þetta frv. er samþ., verður tollalækkunin ekki 250 milljónir, heldur 159 milljónir. Má þá ekki með nokkrum rétti segja, að tolltekjur ríkissjóðs muni hækka um 90 millj. kr. frá því, sem þær eru áætlaðar í fjárlögum, vegna þess hve afslátturinn er minni en upphaflega var ráðgert? Sumum finnst það, og það sýnist nokkuð augljóst, að þannig geti farið, sérstaklega vegna þess, að tollalækkunin kemur fyrst og fremst á nauðsynjar, sem fólk verður að kaupa, án tillits til tollanna og án tillits til verðsins, þannig að það er ekki líklegt, að eftirspurn og sala á þessum varningi hefði vaxið, þó að tollarnir lækki. Það kann að vera sagt á móti þessum rökstuðningi, að klæðagerð færðist meira inn í landið vegna gengisbreytingarinnar og að þar af leiðandi lækki tolltekjur af þeim ástæðum. Það kann að vera eitthvað til í þessu, en þó virðist eftir aths. frv. að dæma sem komizt sé að annarri niðurstöðu, því að þar segir, þegar búið er að fjalla um lækkanirnar á fatnaði:

„Var talið, að með þeim hætti mundi draga úr innkaupum, sem ferðamenn, farmenn og flugáhafnir gera erlendis á þessum vörum og flytja inn í landið, án þess að til tollgreiðslu komi. Markaður innanlands fyrir fatnað mundi þannig aukast til hagsbóta fyrir verzlun og fatagerð.“

Hér er fyrst og fremst talað um tolltekjur, sem annars hefðu glatazt, eða innlenda framleiðslu í stað þeirrar, sem flutt var inn, án þess að ríkissjóður hefði neinar tekjur af. Mér finnst nú, að allir þessir útreikningar séu næsta hæpnir, sem ég hef hér nokkuð komið að, og mér finnst það hæpin vinnubrögð að boða niðurskurð á fjárlögum vegna samþykktar frv., en neita að upplýsa, hvaða liðir það séu, sem lækka ber. Mér finnst það ógeðfelld vinnubrögð, og ég skil ekki, hvaða tilgangi þau eiga að þjóna. Vitanlega hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera búin að gera sér grein fyrir því, að hún geti lækkað útgjaldaliði fjárlaga um 100 millj. kr., þegar hún leggur þetta frv. fram. Hvers vegna má þá ekki segja það? Hvers vegna megum við ekki vita, hvaða liðir það eru, sem lækka ber, og hvers vegna mega ekki a.m.k. hv. þm. stjórnarflokkanna vita þetta? En þeir virðast ekki vita það, eða vilja a.m.k. ekki kannast við það.

Þrátt fyrir þessi vinnubrögð, sem mér finnst hæpin, bæði þetta að skera svona niður tollalækkunina, sem búið var að boða og fólk var farið að reikna með, og svo hitt, að vilja ekki upplýsa, hvaða liði eigi að lækka, þá höfum við í minni hl. gert till. um það að samþ. þetta frv. Og það gerum við vegna þess að við vitum, hversu mikil nauðsyn þessi tollalækkun er, hversu mikil nauðsyn það er fyrir almenning í landinu, að verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar verði tekin til baka, þó að ekki sé að fullu, eins og lofað var, þá a.m.k. að þessu leyti. Og við gerum það þá jafnframt í trausti þess, að þessi umrædda endurskoðun fjárlaga, sem nú stendur yfir, lúti fyrst og fremst að sparnaði og aukinni ráðdeild í ríkisrekstrinum sjálfum.

Þegar tollskráin hefur verið til meðferðar hér á hv. Alþ. á undanförnum árum, hafa einstakir þm. stjórnarandstöðunnar oft borið fram nokkrar brtt. við tollakrána. Þær brtt. eru að ég held flestar, sjálfsagt allar, þannig vaxnar, að það hefði verið ástæða til þess að taka þær upp hér, þær eiga rétt á sér, að mínum dómi. Við höfum ekki gert þetta núna, vegna þess að við vildum koma til móts við hæstv. fjmrh. og flýta afgreiðslu þessa frv., og heldur ekki vegna þess, að fyrir lá mjög skýr og skorinorð yfirlýsing frá hv. formanni fjhn. um það, að slíkar till. mundu verða felldar, svoleiðis að við töldum þá ekki ástæðu til þess að leggja vinnu í það að þessu sinni að flytja þær. En ég nota þetta tækifæri til þess að undirstrika þær engu að síður og leggja áherzlu á það, að margt af því, sem þar greinir, þarf að ná fram að ganga.

Ég minni t.d. á tollalækkun á hráefni til iðnaðarins. Við þurfum að efla íslenzkan iðnað, eins og ég kom inn á áðan, og það er enginn vafi á því, að ein leiðin til þess er að lækka tolla eða fella niður tolla á því hráefni, sem iðnaðurinn þarf að nota, til þess að gera hann samkeppnisfæran við innfluttar vörur, því að okkur veitir ekkert af því að búa vel að iðnaðinum, vegna þess að hann á í vök að verjast af mörgum ástæðum, og ein ástæðan, og ekki kannske sú sízta er sú, að fólk virðist fremur vilja kaupa það, sem útlent er. Það þarf líka að uppræta þann hugsunarhátt eða draga úr honum, kenna fólki það, að íslenzk vara getur verið fyllilega sambærileg við það, sem bezt gerist annars staðar, og raunar þarf að ganga lengra. Það þarf að koma því inn hjá fólki, að íslenzk vara sé bezt og það sé sjálfsagt fyrir Íslendinga að nota íslenzkar iðnaðarvörur. En til þess að hægt sé að framleiða slíkar vörur, þarf að búa betur að iðnaðinum en gert er í dag.

Ég minni ennfremur á tollalækkun á vélum til landbúnaðarins, til samræmis við vélar, sem notaðar eru í sjávarútvegi. Það sýnist vera sanngirnismál, ekki sízt eins og landbúnaðurinn er á vegi staddur nú og nýlega er búið að rifja upp hér í þessari hv. d., og skal ekkert af því endurtekið af mér.

Þá mætti einnig minna á málmiðnaðinn. Málmiðnaðurinn er mjög tæpt staddur, eina og við vitum hér margir, og mér dettur ekki í hug, að sú tollalækkun upp á 14 millj. kr., sem þetta frv. hefur að geyma, skipti sköpum fyrir málmiðnaðinn. Það dettur mér ekki í hug. Slíkar vonir get ég ekki alið um það, þar þarf meira til að koma.

Ég get sömuleiðis minnt hér á háa tolla af rafknúnum heimilistækjum. Ég hygg, að húsmæður a.m.k. flokki ekki heimilistækin undir óþarfa eða lúxus. Ég hygg, að þau séu á heimilunum talin til nauðsynja. Vitanlega væri æskilegt að bera fram till. til lækkunar á tollum á heimilistækjum, og vitanlega þarf sá tollur að lækka. Það er annað mál, að það er þýðingarlaust að vera að bera fram frv. og till. um tollalækkanir, sem búið er að lýsa yfir af þeim, sem völdin hafa, að verði ekki samþykkt.

Loks minni ég á það, að hér hafa verið fluttar till. um endurgreiðslu tolla af byggingarefni, einhverri tiltekinni fjárhæð af hverri meðalíbúð. Það kann að vera, að það sé erfitt í framkvæmd en byggingarkostnaðurinn er eitt af því, sem við verðum að ráða við, og ein leið til að lækka hann er sú, ef hægt væri að lækka tolla af byggingarefni eða endurgreiða þá á einhvern þann hátt, sem að gagni mætti koma.

Ég ætla nú ekki að hafa þessa upptalningu lengri, en ég bara minni á það, að enda þótt við höfum ekki séð ástæðu til þess að flytja þessar till. að þessu sinni, eru þær geymdar en ekki gleymdar, og nauðsyn þeirra er alveg sú sama og þegar þær voru fyrst fluttar, vegna þess að í þessum málum hefur lítið sem ekkert verið gert.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. gat um hér, að við, sem undirrituðum nál. minni hl. á þskj. 273, erum einnig meðflm. að brtt. við frv., sem birtar eru á þskj. 271. Þar er, eins og hann gat um, að verulegu leyti um lagfæringar að ræða. Það er árangur þeirra mörgu erinda, sjálfsagt 20 til 30 eða fleiri, frá einstökum aðilum, sem send voru til tollskrárnefndar, eftir að hún hafði lokið störfum, og til okkar í fjhn., eftir að við tókum við málinu. Það eru þau erindi, sem tollskrárnefnd og fjhn. hafa komið sér saman um að fallast á. Ég skal gjarnan staðfesta það, sem hann sagði, að þær brtt., sem hann flytur einn, hv. 12. þm. Reykv., á þskj. 272, eru allar þannig, að a.m.k. ég fyrir mitt leyti hefði gjarnan viljað vera meðflm. að þeim, og ég rengi það ekki á nokkurn hátt, að ástæðan til þess, að hann flytur þær einn, sé sú og sú ein, að erindin hafi borizt það seint til hans, að honum hafi ekki unnizt tími til þess að sýna þau í n. Þetta get ég vel skilið, og ég vil leyfa mér að þakka honum fyrir það, að hann kemur þeim á framfæri, vegna þess að mér hafa verið kynntar a.m.k. tvær af þessum till., og ég hef sannfærzt um það, að þær eru réttlætismál, og því vænti ég þess, að þær fái sömu afgreiðslu eins og þær væru fluttar af fjhn. allri. Enda kom það nú fram hjá hv. 12. þm. Reykv., að hann hafði haft samráð við fjmrh., og ætti þá ekki að þurfa frekari stuðnings við þessar till.

Ég skal svo, herra forseti, ekki eyða meiri tíma d. í að ræða þetta frv., en um það og aðdraganda þess mætti vissulega margt fleira segja, og ég ætla mér ekki að eyða meiri tíma í það núna. Ég held, að ég láti þessi fáu orð nægja að sinni.