12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hér er nú komið fram yfir venjulegan fundartíma, og ég skal ekki halda hér langa ræðu. Ég ætlaði aðeins að víkja að örfáum atriðum, sem fram hafa komið um málið síðan ég talaði hér áðan. Ég vil þá fyrst leyfa mér að beina örfáum setningum til hv. 7. landsk. þm., sem talaði hér áðan. Hann gerði að umtalsefni þessar tollalækkanir og áhrif þeirra gagnvart iðnaðinum. Ég er náttúrlega ekki maður til þess að ræða málefni iðnaðarins við hann á neinum jafnréttisgrundvelli, þar sem þetta er nú einn helzti iðnrekandi landsins, sem hér á hlut að máli. En ég vil þó gera nokkrar aths. við það, sem hann sagði hér áðan.

Í fyrsta lagi sagði hann, að tollalækkunin á efni til fataiðnaðarins, þ.e.a.s. á hráefninu, gerði meira en vega upp á móti tollalækkun á fullunnum fatnaði. Þetta er alveg ný kenning, sem ég minnist ekki að hafa heyrt fyrr, og hún styðst a.m.k. ekki við það, sem höfundar frv. halda fram, vegna þess að á bls. 17 í frv. er sagt berum orðum, að „þessi lækkun hráefnatolla miðast við, að samkeppnisaðstaða iðnaðarframleiðslu í landinu gagnvart innfluttum iðnaðarvörum sé ekki lakari en hún var fyrir gengisbreytingu“.

Ég hygg, að það hafi verið viðmiðunin og að lengra sé ekki gengið í þessum till., eða a.m.k. þykir mér ósennilegt annað en það hefði komið fram, þegar þetta mál hefur verið rætt hér, í framsöguræðu hæstv. fjmrh. og annars staðar, ef hér væri gengið lengra heldur en aths. segja, þá hefði það ekki legið í láginni. Og mín umsögn um þetta atriði var byggð á þessu, á aths. frv. og svo því, að aths. við það höfðu ekki komið fram.

Þá vitnaði hv. 7. landsk. þm. enn fremur í þau orð, sem ég sagði hér áðan, að frv. skipti ekki sköpum fyrir málmiðnaðinn og sagði, að sig furðaði á þeim ummælum. Ja, ég veit náttúrlega ekki svo gerla um það, hversu risavaxnir erfiðleikar málmiðnaðarins hafa verið, en mikið hefur nú verið af þeim látið og margar smiðjur hafa átt í vök að verjast, sumar lokað og aðrar sagt upp fólki. Og ég verð að segja það, að það hefur þá verið gert mikið meira úr þessum erfiðleikum heldur en efni stóðu til, ef tollalækkun úr 15% í 5% skiptir sköpum fyrir þennan iðnað, sérstaklega þegar það er líka haft í huga, að tollprósentan leggst á 33% hærra verð heldur en hún áður gerði. Þessi eftirgjöf tolla, sem frv. fjallar um, nemur 14 millj. kr. og er vafalaust miðuð við þá tolla, sem verða mundu, ef engin tollalækkun hefði átt sér stað, eftir að gengisbreytingin fór fram. Það kann vel að vera, að þessi lagfæring skipti sköpum fyrir málmiðnaðinn. En það leyfi ég mér stórlega að draga í efa, og ég held, að það hefði ekki verið lögð eins mikil áherzla á erfiðleika málmiðnaðarins eins og gert hefur verið, ef það væri eitthvað nálægt 10 millj. kr. viðfangsefni, sem sköpum skiptir, þótt á ári sé. En ekki meira um það.

Hæstv. fjmrh. treysti sér enn þá ekki til þess að upplýsa hv. þm. um það, hvaða rekstrarútgjöld eða fjárfestingarútgjöld ríkissjóðs það eru, sem hæstv. ríkisstj. hefur í huga að draga úr til þess að mæta þessari lækkun. Þetta þykir mér mjög miður farið. Ég viðurkenni það að vísu, að það er vafalaust ekkert auðvelt verk fyrir hana að taka nýafgreidd fjárlög og skera útgjaldaliðina þar niður um 100 millj. kr. Engu að síður hlýtur það að hafa legið fyrir í hæstv. ríkisstj., að þetta væri hægt. Og á hverju er hægt að byggja, að það sé hægt, nema á athugun á þeim liðum, sem hægt er að lækka, og þess vegna finnst mér þessi röksemdafærsla tæpast standast.

Ég hef þá trú og ég ber það traust til hæstv. fjmrh., að hann gefi ekki yfirlýsingu um það á Alþ., að það muni verða lækkuð útgjöld samkv. fjárlögum árið 1968, án þess að vera búinn að athuga það. Vitanlega er hann búinn að athuga það. Annars getur hann ekki gefið þessa yfirlýsingu, og sé hann búinn að athuga það, hlýtur hann að vita, hvaða liðir það eru, sem helzt til greina koma. Það er það, sem ég fór fram á hér áðan að fá upplýst. Annað ekki. Og ég endurtek það, að ég er leiður yfir því, að það skuli ekki fást gleggra svar við þessari spurningu heldur en kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan. Hann sagði, að það væri ekki langur tími, sem hann hefði haft til stefnu til þess að athuga niðurskurð fjárlaga, vegna þess að þessi sérstöku viðfangsefni hefðu ekki komið fram fyrr en eftir áramót. Það er vafalaust rétt. En þessi tími hefur þó nægt honum til þess að staðhæfa það hér á hv. Alþ., að hægt væri og gert mundi að lækka fjárlögin um 100 millj. kr., og sá tími, sem nægir til þess, nægir líka til þess að benda á þá liði, sem lækka á.

Um það atriði, að þær 90 millj. kr. af ráðgerðri tollalækkun, sem ekki var nú hægt að láta koma til framkvæmda, mundu ekki hafa haft mikil áhrif á lækkun vísitölunnar, má vafalaust mjög margt segja. Ég held, að það þýði ekki að halda því fram hér, að það sé ekki hægt að lækka innflutningstolla um 90 millj. kr. á þann hátt, að það hafi áhrif á verðlagið til lækkunar, það þýðir ekkert að halda því fram. Það eru óteljandi liðir í tollskránni af nauðsynjavörum, sem eru tollaðar, og niðurfelling eða lækkun tolla á þeim mundi að sjálfsögðu hafa haft áhrif til lækkunar vísitölunnar, margs konar liðir aðrir en fatnaður, matvara og aðrar nauðsynjar, sem hlýtur að vera hægt að lækka meira en þetta frv. gerir ráð fyrir, og 90 millj. kr., það er ekki lengi verið að eyða þeim.

Hitt kann svo að vera rétt, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. var búin að hugsa sér, væru þess eðlis, að þær hefðu ekki haft mikil áhrif á vísitöluna. Það er vafalaust rétt. Það upplýsti hæstv. fjmrh., og það upplýsti hv. 12. þm. Reykv. og ég sé enga ástæðu til að rengja það, en þá er það bara rangur endi á tollskránni, sem farið er í. Þá átti bara að fara í aðra liði og nota þessar 90 millj. kr. til þess, og það fær enginn mig til að trúa því, og ég held engan mann, að það sé ekki hægt í þessu tolltekjufargani ríkissjóðs að nota 90 millj. kr. á þann hátt, að það lækki vísitöluna. Það held ég að sé alveg fráleit kenning.

Ég skal svo láta þessum umr. lokið. Það er aðeins í sambandi við ummæli hv. síðasta ræðumanns, sem ég sé ástæðu til að taka það fram, að ég gerðist meðflm. að þessari till., um að taka upp 10% toll á umbúðir um innflutt kaffi. Ef þar stendur eitthvað annað, er það ekki með mínu samþykki, og sú ákvörðun mín byggist á því, að það kaffi, sem er framleitt hér í landinu sjálfu, er pakkað í innfluttan pappír, og af honum er greiddur tollur, og ég kem ekki auga á réttmæti þess, að innlendir kaffiframleiðendur greiði toll af sínum umbúðum, en þeir heildsalar, sem flytja inn kaffið í neytendaumbúðum, sleppi við hann. Mér finnst þetta vera rétt, og ég mun greiða atkv. með þessari till., hvort sem hún verður borin fram sérstaklega eða með hinum.