15.02.1968
Efri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Tollskrárfrv. er komið hér aftur til hv. Ed. vegna breytingar, sem á því voru gerðar í Nd. og sem mér þykir rétt að gera hér grein fyrir. Á frv. voru gerðar þar þrjár breytingar. Tvær breytinganna voru við 2. gr. frv., þ.e.a.s. heimildaákvæðin. Fyrri brtt., sem samþ. var í Nd., var þess efnis eð fella niður úr frv. ákvæði þess efnis, að heimild til að gefa eftir tolla af innfluttu íslenzku lesmáli væri við það bundin, að tollur yrði þó ætið greiddur af bókagerðarefni. Ástæðan til þess, að þetta ákvæði var tekið upp í frv. upphaflega frá rn. var sú, að eins og mönnum er kunnugt, eru erlendar bækur, sem inn eru fluttar, tollfrjálsar, en af íslenskum bókum, sem innfluttar eru, ber hins vegar að greiða 50% toll, og í þriðja lagi er bókagerðarefni tollað. Þetta hefur leitt til þess, eins og menn sjá, að íslenzk bókagerð hefur öfuga tollvernd.

Það var ætlunin að lagfæra þetta í meginefnum með breytingu á tollskránni nú, ef við hefðum getað haft til ráðstöfunar meira fé, en fyrir því var gert ráð í fyrra frv., að pappírsmálin yrðu tekin þar til heildarlagfæringar. Þess var því miður ekki kostur, en eftir stóð aðeins þetta ákvæði, sem var tekið inn í frv., að heimildin til þess að flytja inn íslenzkt mál, sem prentað væri erlendis, væri miðuð við toll af bókagerðarefninu. Það komu hins vegar fram raddir um það, að eðlilegt væri, úr því að þessi pappírsmál hefðu ekki verið tekin upp í heild, að allt málið biði og engin breyting yrði gerð á heimildarákvæðinu eins og það nú er. Þetta féllst Nd. á á þann hátt, að þar var samþ. einróma að fella þetta ákvæði frv. niður, svo að eftir verður þá það, að þetta ákvæði verður framkvæmt eins og það hefur verið framkvæmt til þessa. Bókagerðarmálin í heild bíða seinni tíma.

Í annan stað var í frv. gert ráð fyrir því, að 10% tollur yrði greiddur af vélum til niðursuðuiðnaðarins, eins og sjávarútvegurinn yfirleitt býr við af sínum vélum, þ.e.a.s. að fella niður úr tollskránni heimildina til þess að gefa eftir að fullu tolla af niðursuðuvélum, sem notaðar væru til framleiðslu á niðursuðuvörum til útflutnings. Ég benti á það hér í hv. d. og einnig í Nd., að þetta ákvæði væri mjög erfitt í framkvæmd, vegna þess að flestar verksmiðjur hefðu blandaða framleiðslu og væri því í rauninni illgerlegt að framkvæma ákvæðið. Það kom hins vegar fram í Nd. nokkur andstaða gegn því að fella þetta heimildarákvæði úr lögum og var fallizt á það, þ.e. að fella niður þetta heimildarákvæði úr frv. sjálfu. Samkv. þessu verður sem sagt bæði varðandi bókagerðarmálin og niðursuðuiðnaðinn óbreytt ástand frá því, sem það er nú, með þessari niðurfellingu Nd. á þessum tveimur heimildargr. frv.

Í þriðja lagi kom það fram í Nd., að það væri rétt að taka til sérstakrar athugunar tollflokkun öryggisbelta í bifreiðar. Það frv. er hér til meðferðar einmitt í þessari hv. d. og hefur fengið jákvæða afstöðu hér í d., þannig að gera má ráð fyrir, að frv. verði að l., en með því eru menn skyldaðir til, með vissum takmörkunum þó, að hafa öryggisbelti í sínum bifreiðum, og það má þess vegna gera ráð fyrir, að um nokkurn innflutning geti orðið að ræða á þessum beltum. En sá innflutningur hefur ekki verið til þessa.

Samkv. núgildandi tollskrá mundi þetta vera flokkað undir bifreiðavarahluti, en það þótti sanngjarnt, að öryggisbeltin yrðu flokkuð með svipuðum öryggistækjum, sem væru í mun lægri tollflokki, og þetta var þriðja breytingin, sem gerð var á frv. í hv. Nd. Eins og ég hef lýst, eru engar af þessum breytingum veigamiklar. Tvær þeirra eru efnislega þær, að það verði ekki breytt frá því ástandi, sem nú er, og hef ég fyrir mitt leyti getað fallizt á það, úr því að andróður hefur komið fram gegn því að gera þær breytingar í þessum efnum, sem frv. gerir ráð fyrir. Hvorug þeirra skiptir neinu verulegu máli tekjulega fyrir ríkissjóð, og þriðja brtt., um öryggisbeltin, sýnist mér eðlileg, miðað við þær horfur, sem eru um notkun þessara öryggistækja í bifreiðar.

Ég vildi því leyfa mér að vænta þess, að hv. Ed. geti fallizt á að samþykkja frv. nú, eins og það hefur komið frá Nd.