19.02.1968
Efri deild: 59. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt, hafa þorskveiðar og vinnsla af þorskveiðum notið sérstaks stuðnings af hálfu ríkisins s.l. 4 ár. Upphaflega spratt þörfin á þessum stuðningi af launahækkunum, er áttu sér stað í árslok 1963. Hraðfrystiiðnaðurinn var ekki talinn fær um að standa undir þeirri hækkun launagreiðslna til starfsfólksins né heldur fær um að greiða bátum það fiskverð, sem hefði skapað bátasjómönnum eðlileg kjör í samanburði við þær launahækkanir, sem átt höfðu sér stað hjá verkafólki í landinu.

Stuðningur ríkisvaldsins við hraðfrystiiðnaðinn og við bátaútveginn á árunum 1964 og 1965 var við það miðaður að stuðla að aukinni hagræðingu í iðnaðinum, þannig að hann gæti fljótlega sjálfur orðið fær um að greiða hækkuð laun og hækkað fiskverð. Mikill árangur í aukinni hagræðingu í frystihúsunum náðist á þessum árum bæði vegna nýrra tækja, sem frystihúsin öfluðu sér, og vegna nýrra vinnuaðferða, er spöruðu vinnuafl. Þar við bættist, að verð frystra fiskafurða hækkaði mikið og óvænt, einkum á árinu 1965. Afkoma hraðfrystiiðnaðarins á þessum árum reyndist því, er til kom, miklu betri en búizt hafði verið við, og eru þessi tvö ár sennilega einhver allra beztu ár þessa iðnaðar. Í ársbyrjun 1966 reyndist hins vegar ókleift að afnema þann stuðning, sem veittur hafði verið vegna þeirra launahækkana, sem átt höfðu sér stað á árinu 1965, og þeirrar fiskverðshækkunar, sem sigldi í kjölfar þeirra.

Nú koma einnig til greina erfiðleikar þorskveiða og vinnslu að standast samkeppni við hinar miklu og arðbæru síldveiðar. Áhugi útvegsmanna og sjómanna beindist í vaxandi mæli að síldar- og loðnuveiðum, og átti hið háa verð síldarafurða að sjálfsögðu mestan þátt í þessu. Mikil aukning bátaflotans var öll miðuð við síldveiðar, og verulegur samdráttur varð í þorskveiðum á árinu 1966, án þess að öðrum ástæðum virðist vera til að dreifa en minnkandi sókn.

Reynt var að jafna hér metin að nokkru með lækkun útflutningsgjalda á frystum fiskafurðum og hækkun þeirra á síldarafurðum í ársbyrjun 1966. Fulltrúar hraðfrystiiðnaðarins höfðu staðið að þeirri hækkun fiskverðs um 17%, sem ákveðin var í janúar 1966. En þá hækkun fékk iðnaðurinn ekki uppi borna með auknum stuðningi frá ríkisvaldinu nema að sáralitlu leyti. Var þessi ákvörðun um hækkun fiskverðs tekin á grundvelli þess háa afurðaverðs, sem ríkjandi var um þetta leyti, og í von um nokkra viðbótarhækkun þess síðar á árinu, sem ástæða virtist þá til að búast við.

Það þarf ekki að orðlengja það, sem öllum er nú löngu kunnugt, að á miðju ári 1966 urðu mikil þáttaskil, þegar hófst það verðfall íslenzkra afurða erlendis, sem síðan hefur haldið áfram að því er langflestar og veigamestu afurðirnar snertir og er eitt hið mesta, sem nokkru sinni hefur yfir íslenzkan sjávarútveg dunið. Þetta verðfall kom ekki fram í afkomu frystihúsanna á árinu 1966 nema að nokkru leyti. Eigi að síður gerbreytti það afkomu þeirra frá góðærunum á undan. Þar við bættist, að kaup hafði enn farið nokkuð hækkandi frá veltiárinu 1966 vegna vísitöluhækkana, og allt þar til verðstöðvun kom til framkvæmda og þessar kauphækkanir kölluðu á hækkun fiskverðs um áramótin 1966–1967.

Í byrjun s.l. árs var því enn þörf nýrra og róttækari aðgerða til stuðnings þorskveiðunum og vinnslunni og þá fyrst og fremst til stuðnings hraðfrystiiðnaðinum. Beindust þessar aðgerðir annars vegar að því að létta af fiskvinnslunni þeirri hækkun fiskverðs, sem óhjákvæmileg var, en hins vegar að því að bæta hraðfrystiiðnaðinum að verulegu leyti verðfall afurðanna með stofnun Verðjöfnunarsjóðs frystiiðnaðarins. Jafnframt var augljóst, að iðnaðurinn hlaut að verða að snúast gegn þeim geysilega vanda, sem hann stóð frammi fyrir, með róttækri endurskipulagningu og hagræðingu og bættri fjárhagslegri uppbyggingu.

Fyrir atbeina ríkisvaldsins var undirbúningur ráðstafana af þessu tagi hafinn snemma á s.l. ári á vegum bankanna og fulltrúa iðnaðarins. Ákvæði 2. gr. frv. þessa verða framkvæmd með sama hætti og endurskipulagningin sjálf, þ.e. í samstarfi og samráði við fulltrúa frystiiðnaðarins.

Það bættist svo enn ofan á þá erfiðleika, sem fyrir voru, að aflabrögð á vetrarvertíð 1967 voru mjög slæm vegna fádæma ógæfta, og skreiðarsölur til Nígeríu stöðvuðust vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi. Afkoma bæði þorskveiða og vinnslunnar í landi og þá ekki sízt frystiiðnaðarins reyndist því enn lakari en nokkurn hafði getað grunað í byrjun ársins.

Í aths. við frv. það, sem hér liggur fyrir, er gerð grein fyrir þeim viðhorfum, sem ríkjandi voru varðandi sjávarútveginn og þá einkum hraðfrystiiðnaðinn, þegar nýtt gengi íslenzkrar krónu var ákveðið í nóvembermánuði s.l. Ég vil aðeins rifja hér upp fjögur meginatriði þessara röksemda:

1) Afkoma þorskveiðanna í heild og hraðfrystiiðnaðarins sér í lagi gat ekki ráðið úrslitum við ákvörðun hins nýja gengis,

2) Mikil óvissa var ríkjandi í nóvember um verðlagsþróun íslenzkra sjávarafurða á næstunni og er það raunar enn.

3) Mikil óvissa hlaut að vera ríkjandi um afkomuhorfur fiskvinnslunnar, þar til fiskverð hefði verið ákveðið og allar þær upplýsingar lægju fyrir, sem safnað er og unnið úr í sambandi við þá ákvörðun.

4) Á meðan samningum um fiskverð var ólokið, mátti af ríkisvaldsins hálfu ekki með nokkru móti gefa til kynna, hvort eða að hve miklu leyti eðlilegt gat talizt, að þorskveiðar eða vinnsla nytu áfram opinbers stuðnings.

Með tilliti til þessara atriða þarf engan að undra, að gengisbreytingin hafi ekki getað tryggt fiskiðnaðinum hallalausan rekstur — en það var raunar vitað frá upphafi, að svo yrði ekki — né heldur að áframhaldandi stuðningur til iðnaðarins hafi nú reynzt nauðsynlegur. Fyrir hitt er svo ekki að synja, að meiri stuðningur hefur nú reynzt nauðsynlegur, en ástæða hefði virzt til að ætla fyrir nokkrum mánuðum.

Kemur hér í fyrsta lagi til, að verðþróun íslenzkra afurða hefur haldið áfram að vera mjög óhagstæð, síðan gengisbreytingin var ákveðin, og hefur brugðizt þeim vonum, er virtust vera grundvallaðar af varfærni. Einkum hefur verðlækkun frystra fiskafurða í Sovétríkjunum valdið miklum vonbrigðum og sömuleiðis það, að engin hreyfing er enn upp á við á verði mjöls og lýsis nema síður sé.

Í öðru lagi hefur afkoma frystihúsanna á árinu 1966 — en á henni byggjast allar áætlanir um afkomuna 1968 — reynzt enn lakari en ástæða var til að ætla í nóvembermánuði s.l. Eru skýringar á þessu gefnar í aths. við frv.

Sá stuðningur við hraðfrystihúsin, sem leitað er heimilda til með þessu frv., er af þessum sökum mikill og mun meiri en ástæða virtist til að ætla fyrir fáum mánuðum síðan, að þörf yrði á. Það lætur að líkum, að jafnmikill stuðningur muni krefjast umfangsmikilla fjárhagslegra aðgerða. Hefur þetta þegar komið fram í því, að ekki hefur reynzt unnt að framkvæma jafnmiklar tollalækkanir í kjölfar gengisbreytingarinnar eins og upphaflega hafði verið ráðgert. Sérstaks frv. er og að vænta um aðrar fjárhagslegar aðgerðir.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um heimild til aðstoðar við hraðfrystiiðnaðinn. Er upphæð þessarar aðstoðar samtals 202 millj. kr., en þar af ganga 4 millj. kr. til rækjufrystingar eingöngu. Það er nýmæli í þessu frumvarpi, að sérstaklega skuli ætluð ákveðin upphæð til styrktar rækjufrystingu, en rækjuveiðar eru allþýðingarmiklar á þremur svæðum umhverfis Vestfjarðakjálkann, þ.e. í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og vestanverðum Húnaflóa. Smábátar á þessum stöðum hafa af þeim svo góða atvinnu, að það er þýðingarmikið, að rækjuveiðarnar og rækjuvinnslan geti haldið áfram.

Meginhluti rækjuaflans hefur verið frystur, og hefur verðlag á frystri rækju verið viðunanlegt þar til á síðari hluta ársins 1967, að mikil breyting varð þar á til hins verra. Mikil aukning á framboði á rækju á helztu mörkuðunum varð til þess, að verðlag lækkaði mjög mikið síðari hluta ársins, og hafði það einnig áhrif á það, sem framleitt hafði verið fyrri hluta ársins. Má heita, að rækjur framleiddar á þann hátt, sem verið hefur, þ.e. í tiltölulega stórum umbúðum, séu lítt seljanlegar eða óseljanlegar, og hafa því rækjuframleiðendur orðið að undirbúa breytingar á framleiðslu sinni til þess að geta boðið þá vöru, sem markaðurinn vill kaupa, ef yfirleitt á að vera mögulegt að selja þá framleiðslu. Þessar breytingar hafa reynzt allkostnaðarsamar.

Það er og ljóst, að rækjuframleiðendur geta ekki staðið af sér það mikla áfall, sem verðfallið hefur orðið þeim þrátt fyrir gengislækkunina, og hefur því þótt óhjákvæmilegt að hafa í þessu frv. heimild til að greiða allt að 4 millj. kr. á árinu 1968 til að tryggja áframhaldandi framleiðslu frystrar rækju.

Ástæða er til að taka það skýrt fram, að hér er einungis átt við frysta rækju, en ekki aðrar framleiðsluaðferðir. Hefðu þá framleiðendur frystrar rækju svipaða aðstöðu og frystihúsin, en að yfirgnæfandi meiri hluta stunda þessir aðilar ekki aðra framleiðslu á frystri vöru. Ekki er gert ráð fyrir því að greiða neina uppbót til framleiðslu á niðursoðinni rækju, þar sem þar hafa ekki orðið neinar breytingar svipaðar þeim, sem orðið hafa á verðlagi frystu rækjunnar. Hins vegar eru mjög takmarkaðir möguleikar á því að auka skyndilega mikið þá framleiðslu, og er því einnig af þeirri ástæðu mjög æskilegt að greiða fyrir því, að frysting á rækju geti haldið áfram með eðlilegum hætti.

Frv. gerir ráð fyrir 198 millj. kr. aðstoð við hraðfrystiiðnaðinn almennt. Er ætlunin, að sú aðstoð skiptist þannig, að 25 millj. kr. gangi til sérstakrar viðbótar á verði línufisks, sem ákveðið var við verðlagningu fisks í upphafi ársins og er að mestu áframhald sams konar viðbótar, sem greidd hefur verið á undanförnum árum, en nú verður greidd fleiri mánuði ársins en áður tíðkaðist. Allar vinnslugreinar munu að sjálfsögðu njóta góðs af þessari greiðslu, enda þótt hún sé til komin vegna frystiiðnaðarins.

Meginhluti stuðningsins eða 148 millj. kr. munu verða greiddar hraðfrystihúsum í hlutfalli við verðmæti framleiðslu þeirra á árinu 1968. Er ætlunin, að tæpur þriðjungur þessarar upphæðar eða 45 millj. kr. verði greiddar sem allra fyrst til þess að auðvelda það, að rekstur frystihúsanna geti orðið með sem eðlilegustum hætti á yfirstandandi vetrarvertíð. Af þessum sökum er brýn nauðsyn á því, að sú heimild, sem frv. fer fram á, verði veitt sem allra fyrst, og ég leyfi mér að láta í ljósi þá ósk mína, að nefndir — í fyrsta lagi nefndir beggja d. — vinni að athugun málsins, meðan það er í fyrri d. Við úthlutun þessarar upphæðar er ætlunin að miða við meðalframleiðslu húsanna á árunum 1966 og 1967, en þó eiga aðeins þau hús að koma til greina við úthlutunina, sem nú eru í rekstri eða talið er, að muni verða rekin, þegar endurskipulagningu iðnaðarins er lokið.

Loks mun 25 millj. kr. úthlutað í sambandi við endurskipulagningu iðnaðarins. Er gert ráð fyrir, að það fé verði einkum notað til að leysa vandamál, sem fram koma við endurskipulagninguna hjá þeim húsum, sem hljóta að starfa áfram, en eru verr sett en þau, sem bezta afkomu hafa. Er ætlunin, að Seðlabanki Íslands úthluti þessu fé að fengnu samþykki sjútvmrh. og í samráði við þá tvo viðskiptabanka, sem ásamt Seðlabankanum vinna að endurskipulagningunni, þ.e. Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands, og svo sem fyrr greinir einnig í samráði og samstarfi við fulltrúa frystiiðnaðarins sjálfs.

Það eru einkum tvö atriði, sem ég vil að lokum leggja áherzlu á í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir: 1) hversu mikil og brýn nauðsyn er á þeirri aðstoð við hraðfrystiiðnaðinn, sem hér er farið fram á, og 2) hversu þýðingarmikið er, að þessi aðstoð greiði götu þeirra mikilvægu breytinga, sem nauðsynlegar eru í þessum iðnaði, þannig að hann geti með tíð og tíma á nýjan leik staðið á eigin fótum.

Það er eðlilegt, að meðal alþm. og meðal almennings gæti verulegrar tortryggni í garð hraðfrystiiðnaðarins sökum þess, að forystumenn iðnaðarins hafa á undanförnum árum e.t.v. ýkt nokkuð þá erfiðleika, sem hann hefur átt við að etja, og gert það til stuðnings kröfum sínum á hendur stjórnvöldum og í almennum áróðri.

Það hefur líka af hálfu forystumanna iðnaðarins orðið vart verulegrar tregðu. Sem betur fer eru þeir forystumenn fáir, en samt hefur orðið vart þessarar tregðu til þess að horfast í augu við þann raunverulega vanda, sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir og takast verður á við með raunhæfum aðgerðum. Í stað þess hefur, svo sem sagan sannar, verið leitað á náðir ríkisvaldsins um aukna aðstoð og það með heldur vafasömum aðferðum, jafnvel hreinum ofbeldisaðgerðum hafa menn beitt málum sínum til stuðnings. Það ætti öllum að vera orðið það ljóst nú, hversu heilladrjúgar slíkar aðferðir eru.

En hraðfrystiiðnaðurinn sem slíkur má ekki gjalda skammsýni nokkurra forystumanna. Það er þjóðarnauðsyn, að þessum iðnaði séu búin þau skilyrði, að hann geti haldið áfram að starfa og dafna. Í því skyni er sú aðstoð, sem hér er farið fram á heimild til að veita, óhjákvæmileg. En það er ekki síður þýðingarmikið, að jafnframt sé iðnaðurinn endurskipulagður og fjárhagsleg uppbygging hans lagfærð. Mun því starfi haldið áfram af fullum krafti næstu mánuði, þannig að þessar uppbætur ættu að geta komið til framkvæmda síðar á þessu ári.

Þá er jafnframt nauðsynlegt að veita hraðfrystiiðnaðinum vernd gegn snöggum verðbreytingum, og frv. um verðjöfnunarsjóð og fyrningarsjóð sjávarútvegsins eru nú í undirbúningi og verða væntanlega lögð fyrir Alþingi innan skamms.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að hafa um frv. fleiri orð. Því fylgir mjög yfirlitsgóð grg. og aths., sem ég læt mér nægja að vísa til. Ég legg til, herra forsefi, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.