25.03.1968
Efri deild: 74. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

120. mál, tímareikningur á Íslandi

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar frv. til l. um tímareikning á Íslandi, 120. mál. Á þskj. 362 skilar nefndin shlj. áliti og mælir með samþykkt frv. óbreytts. Tveir nm., þeir hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 11. þm. Reykv., voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Lagafrv. þetta kveður svo á, að 7. apríl n.k. skuli klukkunni flýtt um eina klukkustund, eins og verið hefur um mörg undanfarin ár samkv. heimild í lögum frá 1917. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að halda þessum breytta tíma áfram sem fastri tímaákvörðun. Í aths. við frv. kemur fram, að lagafrv. þetta er samið að fengnum till. stjörnufræðinganna dr. Trausta Einarssonar og dr. Þorsteins Sæmundssonar, og í fskj. frá þeim kemur fram, að gripið hefur verið til sumartíma víðast hvar í Evrópu og víðar í tveim síðustu heimsstyrjöldum. Í fskj. stjörnufræðinganna eru dregnir fram ótvíræðir kostir þess að hafa sama tímatal allt árið, og eru mörg dæmi þess, að ruglingur hafi hlotizt af með breytingum, eins og verið hefur. Eftir því sem flugið hefur færzt í aukana á Íslandi og einnig vegna margs konar vísindalegra mælinga, sem þarf að gera varðandi veðurathuganir o.fl., hefur þörfin á að hafa óbreytt tímatal allt árið orðið enn meira áberandi.

Herra forseti. Það er álit allshn., að frv. þetta sé til mikils hagræðis, og hún mælir því með samþykkt þess.