28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og nál. 441 ber með sér ritaði ég undir með fyrirvara, og vil ég skýra það nokkuð hvers vegna. Mikið hefur verið rætt um sparnað í rekstri ríkisins og ekki að ástæðulausu, og lof sé hæstv. fjmrh. fyrir allan raunhæfan sparnað, sem hægt er að koma í framkvæmd. Það sem ég var óánægður með í þróun þessara mála, sem við höfum heyrt hér lýst áður, var sú breyting, sem talin var nauðsynleg á framlagi ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands. Það lá ljóst fyrir, að um áramót voru lánsloforð Fiskveiðasjóðs nærri 120 millj. kr. og því yrði það mikið vandamál, hvernig Fiskveiðasjóður gæti staðið við þær skuldbindingar, sem hann hefur tekið að sér, því að það mun fara saman, að verði ekki hægt að útvega Fiskveiðasjóði með einhverju móti lánsfé á móti þeim tekjum, sem hann hefur átt von á, þá kann að verða atvinnuleysi í skipasmíði hér innanlands sennilega fyrst og fremst, og það veit ég, að er ekki tilgangur hæstv. ríkisstj.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að bátaflotinn, sem hefur vegna útflutningsgjaldanna þá kvöð að útvega Fiskveiðasjóði ákveðna tekjuupphæð á hverju ári, sem mun vera um 40 millj. kr., er ekki undanþeginn þessari kvöð þetta ár, þótt erfiðleikar steðji að. Mér persónulega finnst ekki ósanngjarnt að beina því til hæstv. ráðh., að þeir komi því til leiðar, að það fé, sem kemur inn vegna þessa útflutningsgjalds fyrir þetta ár, verði notað að einhverju leyti eða mestöllu leyti til að létta vanskilagreiðslur, vexti og afborganir, sem bátaflotinn á við að eiga nú, því að því er ekki að leyna, að svo að að segja hver bátur landsmanna hefur fengið á sig tilkynningu um uppboð núna 1. apríl.. Og þó að tilkynningin ein út af fyrir sig geri ekki mikið tjón, þá er slík kvöð venjulegum, samvizkusömum manni mjög hvimleið og til lengdar næstum óþolandi. Ég vildi því beina því mjög eindregið til hæstv. ráðh., að þeir beiti sér fyrir því, að vel verði unnið að því, að Fiskveiðasjóði verði séð fyrir lánsmöguleikum og lán útvegað, því að ella horfir til vandræða með báta í smíðum og fyrir þá, sem hafa hugsað sér að láta smíða báta. Það liggur fyrir hér á dagskrá d. í dag að ræða um aukna lánsmöguleika til dráttarbrauta, til þess að léttara verði að smíða skip hér innanlands, og vissulega hefur hæstv. ríkisstj. gert verulegt átak í þá átt að auka skipasmíði innanlands, sem er rétt og lofsverð stefna.

Í þriðja lagi vil ég taka undir það, sem frsm. meiri hl. fjhn. minntist á hér áðan, að nauðsyn er á ýmiss konar sparnaði, og mig langar að beina því til hæstv. fjmrh., af því að frv. ber það ekki með sér: Hvað um sparnað í utanlandsferðum ríkisstarfsmanna á þessu ári? Það væri ekki úr vegi að gera lítils háttar grein fyrir því, hvernig ríkisstj. hyggst draga úr kostnaði við utanlandsferðir.

Ég mun í trausti þess, að unnið verði að því að útvega Fiskveiðasjóði nauðsynlegt lánsfé, ekki vera á móti þeirri breytingu, sem gerð er á framlagi ríkissjóðs fyrir árið 1968.