28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hér hafa verið haldnar langar og margar merkar ræður um það viðfangsefni, sem hér þarf að leysa, og kemur þar til kasta bæði ríkisstj. hæstv. og alþjóðar og sízt vil ég bregða fæti fyrir þá almennu sparnaðarviðleitni, sem hæstv. ríkisstj. sýnir með því frv., sem hér liggur fyrir til umr.

Ég vil leyfa mér að bera hér fram till., sem er skrifleg og fjallar um 24. tölul. l. gr. frv., prestsembætti í Kaupmannahöfn. Lagt er til í frv., að fjárveiting til þessa prestsembættis verði felld niður. En þó að ekki felist mikils háttar breyting í brtt. minni við frv., þar sem ég legg til, að felldar verði þarna niður úr sparnaðinum 400 þús. kr., þá er málefnið mér mjög ofarlega í huga, og ég tel það hið merkasta. En svo sem kunnugt er hv. þm., hefur verið starfrækt um nokkurra ára bil íslenzkt prestsembætti í Kaupmannahöfn, og svo vel hefur til tekizt, að í það hefur að minni hyggju og margra annarra valizt hinn ágætasti maður. Af þessu embætti hefur fengizt þessi fáu ár, sem það hefur verið rekið þarna úti, mjög góð reynsla, að því er ég bezt veit. Fyrst og fremst hefur þetta starf, sem þarna hefur verið unnið, tengt saman landa okkar í Kaupmannahöfn, sem eru æðimargir — ætli þeir skipti ekki nokkrum þúsundum, og ég hef heyrt á mörgum þeirra, hversu þeim hafi komið þetta vel og embættið sé þeim mikilvægt, ekki aðeins að því er varðar hina venjulegu prestþjónustu, sem hefur verið innt af hendi með ágætum fyrir þessa landa okkar marga, sem á hafa þurft að halda, heldur hefur og þetta embætti verið tvíþætt, annars vegar prestsembætti og hins vegar almenn fyrirgreiðsla og þjónusta. Og þá vil ég geta sérstaklega þeirrar þjónustu, sem hefur verið innt af höndum við sjúka, unga og aldraða, sem hafa þurft að fara til Kaupmannahafnar til að leita sér læknishjálpar umfram þá hjálp, sem var hægt að veita hér á landi. Og um það, hvernig presturinn okkar í Kaupmannahöfn hefur vikizt undir, þegar leitað hefur verið til hans eru margar og fallegar frásagnir, og ég persónulega hef notið mikils hagræðis í sambandi við þjónustustarf hans. Ég veit það líka, að presturinn hefur unnið ekki aðeins af einlægum áhuga, heldur oft lagt fram af sinni hálfu fjármuni auk annars erfiðis og fyrirhafnar til þess að greiða sem bezt fyrir löndum okkar, sem oft hafa verið illa á sig komnir.

Þannig tel ég, að öll þessi þjónusta, sem hefur verið unnin á vegum þessa embættis úti í Kaupmannahöfn, hafi verið til ómetanlegs hagræðis fyrir ekki aðeins þá, sem voru hjálparþurfi, heldur einnig fyrir þeirra aðstandendur. Og um þetta, eins og ég segi, eru margar og fallegar skýrslur. Ég leyfi mér að efast um, að önnur og í raun og veru veglegri og manneskjulegri þjónusta hafi verið unnin almennt á vegum hinnar íslenzku prestastéttar en einmitt þarna úti í Kaupmannahöfn, þegar allir þættir þessa starfs hafa verið skoðaðir. En eins og ég sagði, ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta, en mér finnst, að þarna sé ráðizt á garðinn, þar sem jafnvel kannske sízt skyldi. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að það, sem ég segi hér um prestsstarfið úti í Kaupmannahöfn, á að sjálfsögðu við þennan mann, sem upphaflega tókst á hendur að þjónusta þar og er enn í starfinu — eða ég veit ekki betur, því að vissulega fer gildi slíks embættis eins og annarra mjög eftir því, hverjir hafa það á hendi og hvernig það er rækt. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra mál, en ég verð að taka það fram, að eftir því, sem lagt er til í frv., sýnast mér ekki svo fastar skorður reistar einstökum sparnaðarliðum, að ekki mætti á einhverjum öðrum liðum við koma, ef vel er að gáð, viðbótarsparnaði, sem næmi þeim kostnaði, sem er við prestsembættið í Kaupmannahöfn. Og loks er þess að geta, eins og hefur komið fram í orðum mínum, að þetta er tilfinningamál margra ágætra manna, sem hafa notið þessarar þjónustu og mér persónulega er það dálitið viðkvæmt mál, ef sá prestur, sem hefur unnið í þessu starfi, á að hverfa úr því við svo búið.

Eins og ég gat um, er brtt. mín við 24. tölul. 1. gr. og hljóðar á þá leið, að í stað 670 þús. kr. komi 249 þús. kr., og það þýðir, að sparnaðurinn miðast einungis við prestsembættið á Keflavíkurflugvelli. Þar er ég ekki kunnugur, og það er ekki endilega víst, að það sé svo nauðsynlegt og sízt alls eins nauðsynlegt og í Kaupmannahöfn. Það þori ég alveg að fullyrða. Brtt. þessi er skrifleg, og bið ég hér með herra forseta að veita henni viðtöku. Jafnframt væri æskilegt, ef þessi till. fengi náð fyrir augum hv. dm. innan um allan sparnaðinn og háu fjárhæðirnar.