29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

195. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar með shlj. atkv., eftir að gerðar höfðu verið smávægilegar breytingar á upphaflega stjfrv. í samráði við menntmrn. og háskólaráð. Aðalefni þessa frv. er ákvæði um aukna hlutdeild stúdenta í stjórn Háskólans.

Í frv. er gildandi lagaákvæðum um skipun háskólaráðs breytt að þrennu leyti. í fyrsta lagi er lagt til, að stúdentar eigi framvegis tvo fulltrúa í háskólaráði í stað eins eftir gildandi 1. frá 1957. Í öðru lagi er sú till. gerð hér um breytingu á skipun háskólaráðs, að þeir kennarar og starfsmenn rannsókna- og háskólastofnana, sem eru ekki kjörgengir til starfa deildarforseta, fái fulltrúa í háskólaráði og sé hann tilnefndur af Félagi háskólakennara og er því raunar að því leyti fulltrúi háskólakennara í heild. Í þriðja lagi er síðan gert ráð fyrir því hér, að háskólaritari eigi framvegis sæti í háskólaráði með málfrelsi og tillögurétti, en atkvæðisrétt á hann ekki að hafa.

Í öðru lagi er svo gerð sú breyting á reglum um fulltrúa stúdenta í háskóladeildum, að þeir skuli einnig þar fá tvo fulltrúa framvegis, en ekki einn eins og verið hefur síðan 1957.

Og í þriðja lagi eru settar nýjar reglur um rektorskjör. Önnur breytingin er sú, að starfsmenn, sem hafa kennslu að aðalstarfi, aðrir en prófessorar, skuli fá atkvæðisrétt við rektorskjör, og er þar átt við lektora, sem nú taka laun samkv. 23. launaflokki, en þeir eru nú 6 talsins, og svo einnig dósent í lyfjafræði lyfsala. Og enn fremur er gert ráð fyrir því, að við rektorskjör fái atkvæðisrétt 10 fulltrúar stúdenta, og eru þeir formaður stúdentaráðs og annar fulltrúi stúdenta í deildum Háskólans og einn fulltrúi frá Félagi tannlæknanema, en tannlæknadeildin er ekki sérstök deild, eins og kunnugt er. Með þessu móti yrðu kjörmenn stúdenta 10.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir nokkrum breytingum frá því, sem nú er, á starfsheitum háskólakennara. Gert er ráð fyrir því, að þeir starfsmenn Háskólans, sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi, greinist framvegis í þrjá flokka, þ.e.a.s. prófessora, dósenta og lektora, og verði því dósentar og lektorar, sem eftirleiðis verða skipaðir, þeir einir, sem séu fastráðnir við Háskólann og hafi kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. En auk þess er gert ráð fyrir því. að við Háskólann geti starfað lausráðnir kennarar, aðjúnktar og stundakennarar.

Fimmta aðalbreytingin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.. er sú, að starfssvið háskólaritara er rýmkað, þannig að hann verði framvegis raunverulegur framkvæmdastjóri Háskólans, en heimilað er að undanþiggja rektor algerlega kennsluskyldu. Í gildandi lögum er aðeins heimild til þess að undanþiggja hann kennsluskyldu að hálfu.

Þessi fimm atriði eru aðalbreytingarnar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Langveigamest er að sjálfsögðu breytingin, sem lýtur að hinni auknu þátttöku stúdenta í stjórn Háskólans, bæði með setu í háskólaráði, háskóladeildum og aðild að rektorskjöri. Stúdentar höfðu þegar á s.l. hausti óskað þess að fá tvo fulltrúa í háskólaráði og deildum og 25% atkv. við rektorskjör. Háskólaráð vildi ekki á þessi sjónarmið fallast að öllu leyti, og hefur málið lengi verið til athugunar í háskólaráði og miklar viðræður farið fram milli fulltrúa þess annars vegar og stúdenta hins vegar. Ég lét báða þessa aðila vita. bæði háskólaráð og stúdentaráð, að ríkisstj. mundi leggja fyrir Alþ. þá breytingu, sem þessir tveir aðilar yrðu sammála um, háskólaráð og stúdentar. Ef þessir tveir aðilar reyndust ekki geta orðið sammála, yrði ríkisstj. að gera það upp við sig, hvaða tillögur hún vildi leggja fyrir Alþ. En ég lét það koma skýrt fram, að ríkisstj. væri því fylgjandi. að stúdentar fengju aukin áhrif í háskólaráði og deildum og fengju aðild að rektorskjöri. Háskólaráð hefur fyrir sitt leyti gert að sínum till. þær till. stúdentanna, að fulltrúum stúdenta í háskólaráði og deildum skuli fjölgað úr 1 í 2. Hins vegar vildi háskólaráð ekki fallast á það, að stúdentar fengju 25% atkv. við rektorskjör, heldur að þeir fengju 10 atkv. á móti 52 atkv. prófessora og annarra kennara, þannig að atkv. stúdentanna verða nokkuð innan við 20% af heildaratkvæðatölunni við rektorskjör. Nokkur ágreiningur hafði einnig verið um það, hvernig velja skyldi stúdentana. Af hálfu stúdentanna voru uppi raddir um það. að annaðhvort stúdentaráð eða þá stúdentar almennt kysu sérstaklega þá fulltrúa, sem kjósa skyldu rektor. Háskólaráð mælti ekki með þessari skipun. heldur lagði til, að þeir skyldu vera þeir, sem ættu sæti í háskólaráði og einstökum deildum, sérstakur fulltrúi kjörinn af tannlæknastúdentum og formaður stúdentaráðs, og er gert ráð fyrir þeirri skipan í þessu frv. Af hálfu stúdentaráðs var það tekið skýrt fram, eins og segir í grg., sem prentuð er sem fskj. með frv., að þeir telji óskum sínum ekki hafa verið fullnægt að öllu leyti með þeirri skipan, sem hér er lagt til, en óskuðu hins vegar ekki, að ríkisstj. gerði breytingar á till., eins og þær komu frá háskólaráði, og hafa ekki óskað þess, að breytingar yrðu gerðar hér á hinu háa Alþ. vegna þess, að þeir óska þess, að litið sé á kennara og stúdenta Háskólans sem eina heild, þetta hafi orðið niðurstaðan innan stofnunarinnar, og óska þess, að ríkisstj. flytti málið eins og ríkisstj. hefur flutt og Alþ. samþykkti það eins og það nú liggur fyrir. Rektorskjör á að fara fram 14. maí n.k. Ég tel brýna nauðsyn bera til, að frv. hafi verið afgreitt á hinu háa Alþ. góðum tíma áður en rektorskjörið fer fram, þannig að næsta rektor Háskólans verði hægt að kjósa með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, og ég tel vera markað mikið framfaraspor í málefnum Háskólans.

Ég tel ástæðu til þess að láta þess getið hér, að rektor Háskólans hefur lagt sig mjög fram um það að koma á þeirri samstöðu, sem tekizt hefur að koma á innan Háskólans um þetta mál, og á hann þakkir skildar fyrir það. Og einnig vil ég vekja sérstaklega athygli á þeim félagsþroska og þeim heilbrigða anda, sem kemur fram í stefnu stúdentaráðs Háskólans í þessu máli, eins og hún kemur greinilega fram í þeirri grg., sem prentuð er með frv., að leggja megináherzlu á samstöðu innan Háskólans um þetta mál, þannig að um það verði ekki deilur. En í raun og veru tel ég það mega miklum tíðindum sæta, að löggjafarsamkoma skuli fá til meðferðar mál, sem hefur reynzt mjög viðkvæmt í mörgum öðrum löndurit, þ.e.a.s. þegar um er að tefla aukin áhrif stúdenta á stjórn háskóla, og það skuli geta gerzt með þeim hætti, að ekki kemur til neinna átaka eða deilna um málið, þ.e.a.s. samstaða hefur náðst innan stofnunarinnar milli kennaranna annars vegar og stúdentanna hins vegar. Slíkt hefur ekki tekizt, þar sem slík mál hafa verið á döfinni annars staðar, og hafa þau hvarvetna orðið tilefni til langvinnra deilna, sem víða eru alls ekki til lykta leiddar. En ef þetta frv. verður að l., verður Háskóli Íslands sá háskóli í nálægum löndum a.m.k., þar sem áhrif stúdenta á stjórn háskólans eru greinilega langmest. Og það er sérstök ástæða til þess að mínu viti að fagna því, að slíkt skuli gerast í samkomulagi milli háskólakennara og stúdenta annars vegar og við stjórnvöldin hins vegar.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti. að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.