28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., var samþ. þar fyrir síðustu helgi. Ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir efni málsins og tildrögum þess, að frv. er flutt.

Svo sem hv. alþm. er eflaust kunnugt var 1957 komið á fót embætti æviskrárritara, sem skyldi semja æviskrár um þá Íslendinga, sem um er vitað. Æviskrárritarastarfið losnaði fyrir skömmu, þegar sá, sem í það var í fyrstu skipaður, varð 70 ára. Þá kom upp sú hugmynd að breyta æviskrárritarastarfinu í prófessorsembætti í ættfræði við Háskólann, bæði til þess að gera það ættfræðistarf, sem unnið hefur verið fram til þessa af æviskrárritara í tengslum við Þjóðskjalasafn, auðveldara og veg þess meiri og svo hins vegar vegna þess, að á vegum n. í Háskólanum, svonefndrar erfðafræðinefndar, hefur á nokkrum undanförnum árum verið unnið nokkuð hliðstætt starf því, sem æviskrárritari vann, en n. hafði fengið til þess starfs fjárstyrk frá Bandaríkjunum, en starf n. miðaði að skráningu á Íslendingum frá tilteknum tíma í því skyni, að sú skráning gæti verið undirstaða að sérstökum erfðafræðirannsóknum. Hugmyndir höfðu verið uppi í Háskólanum um það að breyta þessari erfðafræðinefnd í sérstaka háskólastofnun, en formlegar tillögur höfðu þó ekki verið um það gerðar og raunar ekki hægt að taka ákvörðun um slíkt nema því aðeins að sjá erfðafræðinefnd fyrir sérstakri fjárveitingu á fjárl., en slík fjárveiting er ekki fyrir hendi nú.

Ég ræddi um þá hugmynd við háskólarektor að breyta æviskrárritarastarfinu í prófessorsembætti í ættfræði við heimspekideild Háskólans. Var hann þeirri hugmynd mjög hlynntur, ekki sízt þegar ég gat skýrt honum frá því, að ég hefði orðað málið við lærðasta og merkasta ættfræðing, sem nú er uppi á Íslandi, Einar Bjarnason ríkisendurskoðanda, og fengið fyrirheit um það, að Háskóli Íslands (stjfrv. um hann mundi sækja um slíkt prófessorsembætti, ef það yrði stofnað. Háskólarektor ræddi málið í háskólaráði, og varð niðurstaðan í háskólaráði sú að styðja þá hugmynd, að prófessorsembætti í ættfræði yrði stofnað, en háskólaráð var þeirrar skoðunar, að þá ætti að tengja það nafni Einars Bjarnasonar, þar eð ekki yrði víst, að þegar hann hefði náð hámarksaldri opinberra starfsmanna, væri hér á Íslandi maður, sem væri honum jafnfær í þessum greinum og gæti því verið eðlilegur eftirmaður hans. Þess vegna væri rétt að sjá, hverju fram yndi og hvernig ástandið yrði, þegar að því kæmi. Jafnframt óskaði háskólaráð eftir því, að prófessorsembættið yrði ekki í heimspekideild, heldur yrði það í lagadeild.

Ríkisstj. ákvað að taka tillit til fyrri óska háskólaráðsins, að binda embættið við nafn Einars Bjarnasonar, en taldi sig hins vegar ekki geta tekið tillit til hinnar óskarinnar, að embættið yrði í lagadeild, því að þessi fræði, sem hér væri um að ræða, hlytu að teljast skyldust íslenzkum fræðum eða þeim fræðum, sem kennd eru við heimspekideildina. Var frv. því lagt fram í því formi, sem það hafði, þ.e.a.s. að í frv. felst, að æviskrárritaraembættinu verði breytt í prófessorsembætti, sem bundið sé við nafn Einars Bjarnasonar, og að embættið skuli vera í heimspekideild.

Þó að frv. hafi verið samið af menntmrn. og háskólaráði í sameiningu, ákvað menntmn. Nd. engu að síður að senda málið til umsagnar háskólaráðs. Háskólaráð sendi það síðan til umsagnar heimspekideildar, og þá kom í ljós, að heimspekideild var andvíg því, að slíkt embætti yrði stofnað. Einstakir kennarahópar höfðu að vísu mismunandi rök gegn því, að til embættisins skyldi stofnað, eins og fram kemur í prentuðum fylgiskjölum með stjórnarfrv. Fjórir háskólakennarar lögðust beinlínis gegn því, að embættið væri stofnað, m.a. með hliðsjón af því, að þeir létu að því liggja, að ættfræði gæti tæplega talizt vísindagrein, a.m.k. ekki sjálfstæð háskólagrein, og þeim væri ekki kunnugt um það, að kennsluaðstaða væri í þessum fræðum við nokkurn háskóla nokkurs staðar í veröldinni. Annar hópur háskólakennara, sagnfræðikennarar heimspekideildarinnar, sögðu í umsögn sinni, að þeir teldu stofnun embættisins ekki tímabæra, meðan ekki hefði verið tekið tillit til óska heimspekideildar um stofnun annarra kennaraembætta. Um þessa umsögn sagnfræðikennaranna er það að segja, að það hafði verið tekið skýrt fram af hálfu rn. við háskólaráð, að stofnun þessa embættis væri alveg óskyld þeirri áætlun, sem ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti samþ. að leggja til við Alþ., að framkvæmd verði, með vissum breyt., sem hefur þó orðið að gera í sambandi við sparnaðarfrv. ríkisstj. fyrir tveimur árum, en enn er af ríkisstj. hálfu talin vera í gildi, þ.e.a.s. þó að þetta embætti yrði stofnað, þá mundi það ekki þýða, að töf yrði á stofnun nokkurra annarra embætta við Háskólann, enda væri hér í raun og veru ekki um fjölgun ríkisembætta að ræða, heldur um það eitt að ræða að flytja embætti, sem hingað til hefði verið í tengslum við Þjóðskjalasafn, inn fyrir veggi Háskólans. Í raun og veru væri hér alls ekki um stofnun nýs embættis að ræða, heldur breytingu á embætti, þess konar breytingu að gera t.d. þeim, sem gegndi, auðveldara að gegna því og gera veg þess nokkru meiri en hann hefur verið.

Um þær fullyrðingar hinna annarra fjögurra háskólakennara, að ættfræðin geti tæpast talizt vísindagrein, þá skoðun þeirra, að hún geti ekki talizt sjálfstæð háskólagrein, er það að segja, að alfræðiorðabækur gera ættfræði að umtalsefni sem hreina vísindagrein nátengda sagnfræði og lögfræði, höfuðhjálpargrein sagnfræði og auk þess tengda lögfræði. Að því er það snertir, að hvergi sé kennarastaða í þessari grein, er það að segja, að í brezku alfræðiorðabókinni, þekktasta verki sinnar tegundar, segir, að sums staðar, t.d. við háskóla í Þýzkalandi, séu kennaraembætti í þessari grein, ættfræði og skjaldarmerkjafræði. Hæstv. dómsmrh. skýrði frá því við umr. í Nd., að Haraldur Bessason prófessor við Winnipegháskóla hafi nýlega sagt sér, að í Kanada og Bandaríkjunum væru víða kennarastólar í þessum fræðum, og hæstv. forsrh. benti á það í umr. í Nd., að einn af helztu kennurum heimspekideildar hafi unnið öll sín aðalvísindastörf einmitt á sviði ættfræði, og kvaðst hann eiga þar við dr. Guðna Jónsson prófessor.

Raunar ætti að vera ástæðulaust að deila um það, hvort eða hvernig eða hvar skipa beri ættfræði í fræðaheiminum, og líka um það, hvað séu kennarastólar eða hvers eðlis kennarastólar séu í þessum greinum. Um hitt getur varla verið ágreiningur, að ættfræði hefur öldum saman verið ein sú fræðigrein, sem Íslendingum hefur verið hvað mest hugleikin og hvað mest hefur verið lögð stund á hér á Íslandi. Sökum fámennis og sökum sérstaks áhuga á ættfræði og mannfræði hafa Íslendingar skipað sérstakan sess meðal nálægra þjóða einmitt á þessu sviði. Og nú eiga Íslendingar einmitt fræðimann á þessu sviði, þar sem er Einar Bjarnason ríkisendurskoðandi, sem mér er tjáð af kunnugum, að telja megi vísindamann á heimsmælikvarða í þessum efnum, mann, sem þegar hefur unnið stórvirki á sviði ættfræði og mjög æskilegt væri því, að fengi aðstöðu til þess að helga sig eingöngu þessum fræðum þau ár, sem hann á ólifuð, í stað þess að þurfa að stunda venjuleg forstöðumannsstörf á skrifstofu.

Þegar málið kom aftur frá háskólaráði með þessari neikvæðu umsögn heimspekideildar, en með ítrekuðum meðmælum háskólaráðs, þar sem enn var endurtekið, að háskólaráð óskaði þess, að prófessorinn yrði staðsettur í lagadeild, ákvað ríkisstj. fyrir sitt leyti að mæla með því við hv. menntmn. Nd., að frv. yrði breytt í það form, að prófessorinn ætti sæti í lagadeild, en ekki í heimspekideild, og hefur lagadeild gert samþykkt um meðmæli með þeirri skipan, þannig að fyrir liggja með frv. meðmæli háskólaráðs og lagadeildar, en hins vegar andmæli heimspekideildar.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef verið frá upphafi, að þó hér sé ekki um stórmál að ræða, þá sé hér um mál að ræða, sem horfi til mikils góðs fyrir þau ísl. vísindi, sem við köllum ættfræði, og fyrir Háskólann sjálfan, að það muni verða til þess að auka veg hans, bæði hér innanlands og erlendis, að fá sem starfsmann sinn jafnvíðkunnan og ötulan vísindamann á þessu sérstaka vísindasviði sem Einar Bjarnason er. Þess vegna vildi ég eindregið mæla með því við hv. Ed., að hún láti frv. ná fram að ganga, eins og raun varð á um hv. Nd.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.